Powered By Blogger

fimmtudagur, 26. júlí 2012

Partýhelgi og heimsóknir


Þessi vika hefur verið ansi góð hjá okkur Rúnari, eins og reyndar allt sumarið. Á föstudagskvöldið s.l. var okkur boðið austur fyrir fjall í grill/afmælisveislu. Það var rosalega gaman og góður matur. Á grillið var sett folaldakjöt og ég held ég segi rétt frá að ég hef aldrei smakkað slíkt áður. Kjötið var ofsalega gott en ég er nokkuð viss um að ef ég hefði vitað fyrirfram að þetta væri folaldakjöt þá hefði ég sennilega ekki fengið mér :-) Það var endalaust hægt að spjalla og rifja upp gamla tíð svo tíminn leið mjög hratt :-)

Við Rúnar gistum þarna um nóttina og vorum komin heim upp úr hádegi á laugardeginum. Þá höfðum við smá stund til að slappa af áður en næsta veisla byrjaði. Nú var það kaffiboð í Vesturbænum og þar lá maður í tertunum. Við vorum svo komin heim upp úr kvöldmat og vorum bara nokkuð þreytt en ánægð og fórum snemma upp í rúm. Enda slöppuðum við vel af á sunnudeginum. Öllu heldur slappaði ég vel af. Rúnar sást ekki allan daginn, hann var úti að leika fram að háttatíma, eða svo gott sem.

Á mánudagsmorgun gerði ég mig klára í minn göngutúr og ætlaði ég nú að ganga um Gálgahraun í Hafnarfirði. Ég lagði bílnum og kom mér út, en fann hvergi göngustíginn!!! Þetta er bara ekki einleikið. Ég rölti þarna um í smá stund en gafst svo upp og fór heim. Ákvað í staðinn að hendast á músaveiðar, sem gengu vel. Seinni partinn lá svo leið okkar Rúnars aftur austur fyrir fjall til að hitta fleiri "gamla" vini og ekki var minna spjallað núna. Á þriðjudagsmorgun fékk ég gesti í kaffi og sátum hér og spjölluðum í góðan tíma.  Á miðvikudaginn skellti ég mér svo upp á Skaga og hitti "Vínsystur" mínar. Endalaust spjallað og hlegið. Rúnar var orðinn þreyttur á þessu eilífa flandri á móður sinni þannig að ég ákvað að nota tímann á meðan hann var á námskeiðinu og var því mætt upp á Skaga fyrir hádegi.

Í fyrramálið er svo reiðsýning hjá Rúnari og krökkunum í reiðskólanum og ég verð að mæta og taka myndir og fylgjast með hvað þeir eru orðnir duglegir :-) Seinni partinn verður svo rokið til Grundarfjarðar þar sem við verðum í góðu yfirlæti um helgina.

Þannig að ekki hef ég gefið mér tíma í göngutúrana mína, fyrir utan þessa tilraun á mánudaginn :-)

Alltaf nóg að gera :-)

föstudagur, 20. júlí 2012

Göngutúr 4

Eftir að hafa legið í flensu í nokkra daga ákvað ég að skella mér í göngutúr á miðvikudaginn og átti það að verða göngutúr 4. Ég ætlaði að ganga leið nr 23, Búrfellsgjá. Ætli það sé ekki bara best að hafa sem fæst orð um þá tilraun mína þann daginn og var ég komin heim tæpum tveimur tímum eftir að ég lagði af stað, án þess þó að komast í göngu.

Í gær var ég bara að melta þetta aðeins með mér og byggja upp þrjóskuna. Það tókst svona líka vel að í morgun var ég farin af stað aftur. Ákvað ég að taka gönguleið nr 22 í bókinni, eða Vífilsstaðahlíð við Heiðmörk.

Ég lagði bílnum á Maríuvöllum og hélt sem leið lá meðfram Vífilsstaðahlíðinni. Hlíðin var mér á vinstri hönd og Svínahraun á þá hægri. Það er ótrúlega fallegt þarna og trjágróðurinn svakalegur. Þarna hefði sko ekki þýtt neitt að standa bara upp til að horfa yfir trén ef maður villist - svona eins og segir í brandaranum um skóga á Íslandi :-)

Ég var afskaplega ánægð í hvert sinn sem ég gekk fram á einhver kennileiti sem sýndu mér þá að ég var á réttri leið. Hafði lítinn áhuga á að villast þarna. Ég var svo niðursokkin í umhverfið að ég næstum missti af beygjunni á göngustígnum sem lá þvert yfir Heiðmerkurveginn og ég átti að taka til að halda hringnum áfram og koma mér til baka. En sem betur fer rak ég augun í hann á síðustu stundu. Veit ekki alveg hvar ég hefði endað ef ég hefði bara haldið áfram :-) Á bakaleiðinni liggur göngutstígurinn á milli Svínahrauns, á hægri hönd, og Urriðakotshrauns, á vinstri hönd.

Ég er virkilega ánægð með þenan göngutúr og það er frábær tilfinning að fara inn í helgina eftir að hafa náð þessu takmarki mínu í dag :-)

Gönguleiðin var 4,3 km og tók mig 73 mín.

Hér koma nokkrar myndir frá Vífilsstaðahlíð.

 Falleg og hávaxin trén í hlíðinni.

 Fínn staður fyrir lautarferð. Það eru grill við endann á þessari flöt, sem hægt er að nota.



laugardagur, 14. júlí 2012

Laugardagslíf

Ekki fór ég í göngutúr í dag. Ég er með hálsbólgu og kvef og nennti ekki fyrir mitt litla líf að reyna að draga Rúnar Atla með mér eitthvað út í buskann. Heldur ligg ég bara upp í sófa undir teppi og hef það notalegt :-) 

Rúnar hef ég ekki séð síðan 10.30 í morgun, fyrir utan nokkrar mínútur í hádeginu þegar hann var svangur. Þannig að það er bara rólegheitadagur í dag :-)

Honum finnst alveg meiri háttar að geta bara farið út og farið þar sem hann vill og komið heim nánast þegar honum hentar. Þetta er frjálsræði sem hann ekki þekkir, enda nýtir hann sér þetta út í ystu æsar. 

Göngutúr 3

Ég komst ekki í göngutúrinn minn fyrir hádegi eins og ég hafði ætlað mér vegna þess að mér var boðið á Reiðsýningu hjá Rúnar Atla í Faxabóli. Þar sem þetta var síðasti dagurinn hans í Framhald 1 spurði hann hvort hann gæti ekki sleppt leikjanámskeiðinu eftir hádegi og verið bara heima í staðinn - eins og hann gerði í fyrra. Jú jú ég hélt það nú, en í staðinn yrði hann að koma í göngutúr með mér. Því var fljótsvarað hjá honum, nei takk þá ætlaði hann frekar að vera á leikjanámskeiðinu :-)

Það er bara ekki séns fyrir mig að draga þennan dreng út að ganga með mér. Við sjáum hvað ég get gert um helgina.

En sem sagt, eftir hádegi í dag fór ég í göngutúr í kringum Rauðavatn. Ég verð nú að segja að ég var ekkert sérstaklega spennt fyrir þessum göngutúr en ákvað að sjá hvort þetta yrði ekki skemmtilegt. Ég veit ekki hvað það er við Rauðavatn, en mér hefur bara ekki fundist neitt spennandi við það. Í den fór ég endalausa reiðtúra meðfram Rauðavatni upp að Geithálsi og maður var nú ekki að velta vatninu fyrir sér hið minnsta :-)

Gönguleið númer 18, Rauðavatn, býður upp á tvær leiðir. Styttri leiðin sem fer í kringum vatnið er 3,2 km en svo er hægt að bæta góðum hring við og þá verður leiðin 3,7 km. Ég ákvað að fara lengri leiðina því það hlyti að vera meira spennandi en að ganga bara í kringum vatnið.

Ég lagði bílnum þar sem ég taldi vera bílastæðin fyrir Rauðavatn, ég vildi ekki leggja alveg upp við Morgunblaðshúsið. Svo byrja ég minn göngutúr, og bíð eftir að göngustígurinn kvíslist þar sem ég eigi að fara upp til vinstri. Jú jú, það kom kvísl í stíginn og ég tek þá leið sem ég held að taki mig upp Lyngdalinn. En þegar ég er komin aðeins af stað þá koma í ljós bílastæði og annar stígur. Nú vissi ég ekki alveg hvert ég ætti að fara. En hélt mig bara á mínum stíg og útsýnið þarna uppi er frábært. Svo rak ég augun í fólk sem var á göngu aðeins ofar og ég gerði þá ráð fyrir að það væri stígurinn sem ég vildi vera á. Ég kom mér þangað og naut útsýnisins á meðan.

Þetta var yndisleg gönguleið og gaman að horfa niður Vatnshlíðina og að sjá byggðina, ótrúlega fallegt. Enda stoppaði ég reglulega til að dást að útsýninu og að taka myndir. Það var bekkur þarna uppi sem ég nýtti mér til að bara horfa yfir. Þarna blöstu Vífilsfell, Bláfjöll, Húsfell og Helgafell við. Svo lá leið mín áfram meðfram Álaskyggni og ég hafði ætlað mér að sjá Selið áður en leiðin liggur niður að vatninu aftur. En auðvitað gat ég ekki haldið mér á réttum stíg og var komin niður að Rauðavatni á kolvitlausum stað. Þannig að ég hélt áfram þar til ég sá stíginn aftur og í smá stund var ég að velta fyrir mér hvort ég hefði orku til að drífa mig upp hlíðina aftur eða bara að halda áfram. En ég ákvað að fara upp aftur því Selið vildi ég sjá. Ég var ánægð með sjálfa mig að klífa þarna upp aftur þó að Selið hefði nú ekki verið eitthvað stórkoslegt - það er mynd af því hérna að neðan. En þetta var ákveðið takmark hjá mér og ég varð ánægð með mig.

Svo var bara að halda aftur niður og klára hringinn um vatnið. Það verður nú að segjast að leiðin um sunnanvert vatnið er ekkert sérstök enda liggur sá göngustígur meðfram Suðurlandsvegi með endalausum bílanið og hávaða. Enda var sá hluti tekinn á hraðri göngu.


Þessi leið tók mig 3,7 km og 90 mínútur. Þegar henni lauk var tími kominn til að skella sér í búðina og versla inn og fara svo að sækja Rúnar Atla úr sínu leikjanámskeiði.

Hér koma nokkra myndir frá Rauðavatni.


Þetta er ótrúlega fallegt. Þarna er hoft niður Vatnshlíðina.

Þessi fugl gekk með mér þó nokkurn spöl og söng fyrir mig. Nú er bar að fletta honum upp í bókinni minni góðu og sjá hvað hann heitir.

 Þetta er Selið, þetta er nú bara grasivaxin bali.

 Vatnið rauða ber nafn með rentu - Rauðavatn


Ég fann mér bækur í gær í Pennanum sem heita Íslenska plöntuhandókin og Íslenskur fuglavísir sem eru akkúrat eins og ég vildi. Flottar uppfletti-handbækur. Nú er bara að læra að nota þær :-)

föstudagur, 13. júlí 2012

Reiðsýning

Jæja þá er fyrra reiðnámskeiðinu hans Rúnar lokið, þ.e. Framhald 1. Síðasta daginn er haldin mikil sýning og foreldrum boðið að koma og sjá hvað börnin eru dugleg. Það er mjög gaman að sjá hvað krakkarnir geta og hafa lært.

Hér koma nokkrar myndir frá sýningunni sem haldin var í morgun

Þetta eru Rúnar Atli og Gráni

Svo er raðað upp fyrir verðlaunin.

Að sjálfsögðu fengu allir verðlaunapening.

Svo þarf að koma hestunum aftur upp í hús...


... og taka af þeim.

Heimsóknir

Í gær skelltum við Rúnar Atli okkur, ásamt frændfólki úr bænum, austur í Grímsnes til að hitta fleiri ættingja. Þetta er bóndabær þar sem ég var oft í sveit þegar ég var lítil. Við lögðum af stað úr bænum um leið og Rúnar var búinn á sínu námskeiði og það tók okkur ekki nema 40 mínútur að keyra austur. Þetta er fljótfarið.

Við skemmtum okkur mjög vel því alltaf er gaman að hitta fjölskyldumeðlimi :-) Rúnar fór í hesthúsin og fannst það nú ekki leiðinlegt. Við fórum svo í fleiri heimsóknir þarna fyrir austan og alltaf jafngaman. Áður en við vissum af var klukkan farin að ganga níu og skelltum við okkur þá aftur í bæinn. Vorum komin til Reykjavíkur um hálf tíu og var okkur þá boðið í kvöldmat til þeirra sem fóru austur með okkur. Við vorum sem sagt að klára kvöldmatinn rétt um 10 í gærkveldi og vorum svo komin heim rétt fyrir 11 og ég held að Rúnar hafi sofnað um leið og hann lagðist á koddann :-)

Yndislegur dagur.

fimmtudagur, 12. júlí 2012

Göngutúr 2

Jæja í morgun ákvað ég að ganga í kringum Reynisvatn. Viðurkenni fúslega að ég hef ekki oft komið á þessar slóðir og var því nokkuð spennt. Notaði Maps á paddanum mínum til að finna leiðina þangað og það gekk bara eins og í sögu.

Hægt er að velja um tvær gönguleiðir um Reynisvatn, hægt er að fara bara í kringum vatnið og er það 1,2 km, eða að bæta dágóðum hring við og verður göngutúrinn þá 3,1 km. Mér fannst nú styttri hringurinn heldur stuttur og fannst því tilvalið að bæta á mig stærri hringnum.

Mér gekk reyndar illa að finna hvar ég færi út af til að fara stærri hringinn. Ég rakst á hóp ungs fólks sem var að vinna við göngustíginn og spurði þau hvort þau gætu bent mér á rétta leið. Sjálfsagt hefur þeim fundist eitthvað skrítið við mig því einn spurði mig hvort ég væri í ratleik :-) Jú jú, ég viðurkenndi að vera í ratleik við sjálfa mig. En einn úr hópnum hjálpaði mér og benti mér á einhvern troðning og þar færi ég upp. Þetta gerði ég en eftir smá stund hætti göngustígurinn og girt var fyrir frekari göngutúr þar. Á leiðinni til baka á aðal göngustíginn hitti ég hópinn aftur og þau spurðu mig hvort þetta hefði ekki verið rétt leið. Þá mundi einn þeirra að ég þyrfti að fara aðeins lengra, þar kvíslist stígurinn og ég ætti að beygja til vinstri. Ég geri þetta og eftir smástund kvíslast stígurinn og ég held mín leið til vinstri.

Ég geng upp hæðina og þar uppi er útsýnið ótrúlega fallegt. Esjan blasti við ásamt Móskarðahnúkum og Skálafelli. Eftir að hafa dáðst að útsýninu í smá stund og tekið myndir, ætlaði ég að halda hringnum áfram en kom þá hvergi auga á göngustíg. Hann virtist bara hafa hætt þarna. Þannig að ég varð að fara aftur niður á aðalstíginn. Fljótlega kvíslast stígurinn aftur og mér datt í hug að fara aftur upp hlíðina og athuga hvort þetta væri kannski hringurinn minn - því hringinn ætlaði ég. Eftir að hafa gengið aftur upp hlíðina og lent á þó nokkrum kvíslum á stígnum var ég komin upp og eftir smá rölt þar blöstu hitavatnstankarnir við mér - sá staður kallast Mýrarskyggnir.

Eftir að hafa gengið slatta um þarna uppi ákvað ég að halda til baka og klára litla hringinn í kringum vatnið. Þar voru nokkrir að veiða og hægt er að veiða bæði regnbogasilung og bleikju í vatninu. Á hverju sumri veiðast víst um 20 þúsund fiskar í Reynisvatni.

Þessi gönguleið, númer 17 í bókinni minni, var nokkuð góð. En ég varð fyrir vonbrigðum með skort á merkingum um hvar átti að beygja út af til að fara lengri hringinn. Eins gat ég hvergi séð rústir útihúsa gamla bæjarins. En náttúrufegurðin er meiri háttar og mikið um trjágróður.

Ég reikna með að hafa gengið um 2,5 km með öllu, þ.e. upp og niður hlíðar og hringinn um vatnið. Það fóru 70 mínútur í þetta ráp mitt.

Hér koma nokkrar myndir frá Reynisvatni
 Þetta er ótrúlega fallegt og að hugsa sér að þetta er bara innan borgarmarkanna.


 Það var mikið um "jólatré" á leið minni upp.

Þarna sjást hitavatnstankarnir.