Jæja þá kom að því að yndislegri veru okkur Rúnars á Íslandi í sumar tæki enda. Tveimur dögum fyrir brottför byrjaði ég að pakka niður. Eins og sumir kannski vita þá hef ég í gegnum tíðina verið alveg með ólíkindum passasöm hvað þyngd á ferðatöskum varðar. Þessi passasemi hjá mér jaðrar við bilun er mér sagt :-) Allar töskur hafa verið vigtaðar fram og til baka og ég hef passað að þær séu ekki yfir leyfilegri þyngd. Þetta hefur oft vakið líflegar umræður í fjölskyldunni og það hefur verið hlegið að mér fyrir þessa bilun. En ein jólin fékk ég þó í jólagjöf handvigt - þannig að nú kræki ég bara töskunum upp og sé hvað þær eru þungar - snilld :-) Það hefur nefnilega oft verið erfitt að sjá á vigtina þegar taskan liggur á henni. Alveg sama hvernig ég ligg á gólfinu og reyni að kíkja undir töskuna og á nálarnar á vigtinni. Þannig að þá er bara að stíga á vigtina sjálf með og án tösku og mismunurinn er þá þyngd töskunnar. En handvigtin leysti þessi vandamál mín snilldarlega :-)
Það kom fljótt í ljós þegar ég byrjaði að pakka niður að ég hafði keypt alltof mikið af dóti í sumar og það var ekki séns að það passaði allt í tvær töskur - og innan þyngdarmarka :-) Þannig að úr varð að ég bætti við þriðju töskunni. Þetta kostaði talsvert stúss á flugvellinum en við þurftum þá bara að bíða styttra þegar við vorum komin í gegn.
Við lögðum af stað úr Æsufellinu eldsnemma morguns og flugið til London gekk mjög vel. Við lentum þar skömmu fyrir hádegi og vorum fljót að koma okkur á eðalstofuna þar sem við létum okkur líða vel þar til vélin til Jóhannesarborgar fór í loftið. Ætli við höfum ekki þurft að bíða um átta eða níu stundir í London, það varð klukkutíma seinkunn á vélinni okkar til Suður Afríku. En loks var okkur hleypt um borð í vélina og gátum lagt af stað í langa flugið. Það flug tekur um 11 klukkutíma sem er alveg þokkalega langur tími.
Við Rúnar vorum vakandi langt fram á nótt að horfa á bíómyndir - ég skil bara ekki hvað við héngum vakandi lengi. Ég datt niður á mynd með Ewan McGregor - það er nú ekki leiðinlegt að horfa á þann leikara :-) En myndin kom mér satt að segja mikið á óvart. Hún heitir "Salmon fishing in the Yemen" og var stórgóð.
Allan daginn hafði Rúnar borðað ansi takmarkað, hann var alveg lystarlaus í London og ekki vildi hann kvöldmatinn í Suður Afrísku vélinni. Enda vorum við þau síðustu sem fengum matinn okkar í vélinni og það var bara til pasta í rjómasósu og það var ekki séns að hann borði það. Flugfreyjan var alveg miður sín og lofaði að reyna að finna eitthvað fyrir hann að borða. Hún kom skömmu síðar með slatta af súkkulaðistykkjum, rúsínum og hnetum. Aldeilis ágætur kvöldverður eða þannig. En þetta nartaði hann í um kvöldið. Hún lofaði að koma með morgunmatinn okkar á undan öðrum næsta morgun, sem hún og gerði.
Þó við Rúnar horfðum á vídeómyndir langt fram eftir nóttu kom nú að því að við sofnuðum aðeins. Ég hafði sjálfsagt náð að sofa í þrjá tíma þegar allir voru vaktir í morgunmat. Rúnar leit ekki við morgunmatnum sínum sem var slæmt því stoppið okkar í Suður Afríku var svo stutt (vegna seinkunnarinnar) að ég gat ekki keypt neitt fyrir hann þar að borða. Við urðum að þjóta um flugvöllinn til að tékka okkur inn og komast í gegnum allt eftirlit og að rútunni sem tók okkur út í vélina til Lilongwe. Mér datt nú bara í hug hérna um árið þegar við Eygló þurftum að hlaupa um þennan sama flugvöll til að ná vélinni okkar til Namibíu :-)
Þegar við vorum loks sest í sætin okkar í síðustu vélinni í þessu ferðalagi og búin að spenna okkur varð Rúnar veikur. Þá var matarleysið, þreytan og flugið greinilega farið að segja til sín hjá gaurnum. Hann var bara alveg búinn á því. En flugið til Lilongwe gekk svo áfallalaust eftir þetta og við lentum hérna um 12.30. Svo tók við bið eftir töskunum okkar - ég hélt þær ætluðu bara ekki að koma. Svo loksins eftir langa bið kom fyrsta taskan og við voða ánægð því núna væri þetta að koma. En nei nei, það varð önnur löng bið eftir næstu tösku sem kom þó loksins. En þriðja og síðasta taskan kom aldrei. Við biðum þar til búið var að slökkva á færibandinu og ljóst var að allar töskur úr vélinni væru komnar. Síðasta taskan mín hafði sem sagt orðið eftir í Jóhannesarborg og kæmi vonandi með sömu vél daginn eftir, var mér sagt.
Þannig að við fórum heim með tvær töskur og vorum bara fegin að komast út úr fluvallarbyggingunni. Við vorum svo komin heim um þrjú leytið. Það voru miklir fagnaðarfundir hjá Rúnari og Edidu og eins var gaman að hitta Sally og Snúllu og hænurnar. Já það var mikið gott að komast heim. Ég rétt megnaði að elda kvöldmat fyrir okkur Rúnar en gerði akkúrat ekki neitt annað þann daginn. En Rúnar, hann var farinn út í fótbolta og badminton. Hann hafði greinilega fengið smá orkuskot við að komast heim.
Það var yndislegt að leggjast upp í rúm um kvöldið og vakna svo við hanagalið morguninn eftir :-) Ja ælti það sé ekki nærri lægi að segja rumska við hanagalið, því ég snéri mér nú bara á hina hliðina og hélt áfram að sofa. Þar til tími var kominn að fara aftur út á flugvöll að sækja Villa og sjá hvort taskan mín væri með vélinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli