Með hækkandi sól og opnun skólanna á nýjan leik eftir fínt frí þá fer félagslífið hjá mömmunum hér í Lilongwe aftur á fullt skrið :-)
Dagskráin þessa vikuna hefur verið nokkuð góð. Á miðvikudaginn hófst skólinn og þann dag fór ég í mat með Hádegisverðarklúbbnum. Þetta eru nokkrar konur sem hittast einu sinni í mánuði og skiptast þær á að bjóða öllum hópnum í mat. Það er reynt að hafa eitthvað ákveðið þema, bæði hvað mat og skreytingar varðar. Núna á miðvikudaginn var þemað Marokkó og maturinn var æði. Þetta eru ansi hressar kellur og gaman að hitta þær. Flestar koma þær frá Suður Afríku og Zimbabwe, en svo er þarna líka kona frá Indlandi, önnur frá Bretlandi og svo ég frá Íslandi. Sem sagt mikið fjör þann daginn.
Á fimmtudagsmorgun var ég svo með kaffiboð hér heima fyrir um 20 IWAM konur. Þetta er hópur alþjóðakvenna sem stundar góðgerðastarfsemi hér í Malawi. Nú er starfið okkar að fara af stað aftur og var þetta Welcoming Tea til að koma okkur í gírinn. Þetta var fínn kaffimorgunn og gaman að hittast aftur eftir langt frí :-)
Á morgun, laugardag, er svo Kveðju hádegisverður þar sem við í IWAM erum að kveðja Sister Rosmary. Eitt þeirra verkefna sem IWAM hefur stutt í gegnum tíðina heitir St. Mary's Rehabilitation Centre og er rekið af nunnum frá Indlandi og Spáni. Sister Rosmary hefur verið forstöðukonan(nunnan) í þessari miðstöð í mörg ár. En núna er hún að flytja aftur heim til Indlands eftir að hafa búið hér í Malawi í rúm 12 ár.
Sem sagt nóg að gera :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli