Powered By Blogger

fimmtudagur, 22. mars 2012

Flóttamenn

Hér rétt fyrir utan borgina eru flóttamannabúðir þar sem um 15 - 16000 flóttamenn búa. Flestir koma frá  löndum í sunnan- og austanverðri Afríku eins og Búrundi, Rúanda, Sómalíu og Kongó þar sem talið er að um helmingur þeirra komi frá. Margir hafa verið í mörg ár í búðunum, sumir eru m.a.s. þriðja kynslóð flóttamanna.

Mér finnst það með ólíkindum hve margir hér í Lilongwe hafa ekki minnstu hugmynd um þessar flóttamannabúðir sem eru í um 35 mínútna keyrslu frá borginni.

Það er ómögulegt að setja sig í spor þessa fólks. Þau eiga ekkert heimaland og komast ekkert. Það má geta þess að í fyrra fengu 79 flóttamenn úr þessum búðum búsetu í öðrum löndum, eins og Ástralíu og Kanada. 79 manns af meira en 15000 er sko ekki hátt hlutfall.

Einu sinni í mánuði fá íbúar úthlutaðum matarpakka. Í honum er t.d. sykur, olía og mjöl sem hægt er að búa til graut úr sem kallast nsíma, sem er meginuppistaða fæðu flestra innfæddra. Þar til nýverið fékk hver fullorðinn einstaklingur 12 kg af þessu mjöli. En þar sem alls staðar er verið að skera niður þá er núna úthlutað 7 kg í stað þessara 12. Af þessu þarf fólk að lifa allan mánuðinn.

Matarpakkinn inniheldur engar hreinlætisvörur og hafa margar konur lagt á það ráð að selja sig og stunda það sem kallast "survival sex" til að fá einhvern pening til að kaupa sér hreinlætisvörur. Eins selja sumir hluta matarpakkans síns til að geta keypt eitthvað annað sem ekki er í pakkanum.

Daglegt líf þessa fólks er enginn dans á rósum. Þau mega ekki stunda launaða vinnu og ekki yfirgefa búðirnar nema að fá til þess sérstakt leyfi. Það er erfitt að ímynda sér líf þar sem maður er gjörsamlega aðgerðarlaus dag eftir dag og vita það að dagurinn á morgun verður alveg eins, næsta vika verður einnig eins og næsti mánuður og m.a.s. næsta ár. Það hlýtur að vera afskaplega niðurdrepandi. Og að vita það að líf barnanna þinna verður nákvæmlega eins.

Ég er meðlimur í alþjóðlegum kvennasamtökum hér í Malawi, sem kallast IWAM, og fyrir einhverjum mánuðum hófum við að styðja við konur í þessum búðum. Það hafa verið haldin námskeið í bútasaumi í búðunum og voru handvaldar um 15 konur af fjölda umsækjenda. Við gáfum þeim efni til bútasaumsins á þau tvö námskeið sem búin eru. Þriðja námskeiðið hefst svo eftir páska og að sjálfsögðu gáfum við efnið í það. Konurnar læra að sauma barnateppi sem þær geta annað hvort nýtt fyrir sín eigin börn eða selt. Þessi námskeið hafa verið mjög vinsæl því þar gefst konum tækifæri á að læra einhverja handiðn og fyrir margar er þetta það eina sem þær hafa gert fyrir utan heimilisstörf. Það er von okkar í IWAM að konurnar geti selt teppin sín og fái þar með pening til að kaupa efni í ný teppi og þannig vindi þetta upp á sig.

Eins fékk IWAM fyrirspurn frá búðunum hvort við gætum stutt konur sem stundað hafa survival sex til að koma sér upp grænmetisgarði. Til þess að koma garðinum af stað vantaði þær öll verkfæri og fræ. Við gerðum þetta og það eru um 15 konur sem vinna í garðinum saman og þær halda einhverju fyrir sig og sína fjölskyldu og annað selja þær.

Í vikunni fékk ég tækifæri til að heimsækja þessar flóttamannabúðir og það var lífsreynsla sem er ómetanleg. Ég læt fylgja með nokkrar myndir sem ég tók í heimsókninni.

 Þetta er grænmetisgarðurinn þeirra. Þær eru mjög hreyknar of honum og mega sko alveg vera það.

Nokkrar konur stunda ýmsa handavinnu sem við svo reynum að selja fyrir þær. Ég náði ekki hvað þessi kona heitir né hvaðan hún er. Hún er að útbúa nokkurskonar platta undir heita potta. Það er verið að reyna að koma á viðskiptasambandi við einhver samtök í Bandaríkjunum og þá verða flottustu munirnir valdir og sendir út og seldir. Ef slíkt samband kemst á fyrir alvöru mun það að sjálfsögðu hafa mikið að segja fyrir konurnar því Bandaríkin eru stór markaður.

Þetta er Marie sem kemur frá Kongó. Hún sér um þær konur sem búa til hálsmen úr blaðaúrklippum. Þessi hálsmen eru mjög vinsæl meðal kvenna í IWAM enda eru þau flott. Marie býr í búðunum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum.

Ég á örugglega eftir að blogga meira um þessar flóttamannabúðir síðar, því það er endalaust hægt að segja frá.

Engin ummæli: