Powered By Blogger

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Fyll´ann takk!!!!


Það er sko meira en að segja það að fylla bílinn af eldsneyti í Malawi. Undanfarna mánuði hefur verið mikill skortur á bæði bensíni og olíu í landinu og ég hef margheyrt af fólki sem bíður, upp á von og óvon, í marga klukkutíma á einhverri bensínstöðinni. Það verður að segjast að ég hef verið nokkuð heppin hvað þetta varðar. Einu sinni gat ég rennt upp að bensíndælu og gellan átti fullt af bensíni fyrir mig. Svo höfum við bara alltaf átt 20 ltr á brúsa og um leið og brúsinn hefur tæmst höfum við farið á stúfana.

En nú brá svo við í síðustu viku að bíllinn var á síðustu dropunum og bensínbrúsinn galtómur. Ég var orðin verulega áhyggjufull yfir því hreinlega að lokast inni á heimilinu þannig að Villi tók bílinn á föstudaginn og henti honum í biðröð á einhverri bensínstöðinni. En það kom ekkert bensín svo hann kom heim með bílinn aftur, með enn færri dropum en um morguninn ;-)

Á laugardaginn vorum við búin að bjóða fólki heim í grillveislu seinni partinn og við vorum á fullu í undirbúningi þegar Villi fær símtal um að ef við viljum bensín þá verðum við að mæta NÚNA. Villi var að versla og hringdi í mig og ég þýt af stað að sækja hann og við brunum á bensínstöðina. Þannig var þá mál með vexti að maður einn hafði verið með bílinn sinn (sem notar olíu) í biðröð í marga klukkutíma og svo þegar bensín-tankbíll var kominn á stöðina og röðin aðeins farin að hreyfast þá hringdi hann í Villa. Hann var sem sagt að passa pláss í röðinni fyrir minn bíl og þegar ég kem að þá segir hann mér að fara inn í röðina fyrir framan sig og hann muni fara úr röðinni um leið og ég sé komin inn. Það þarf að passa þetta vel því annars koma aðrir bílar og troða sér inn. Ég geri sem mér er sagt og smelli mér inn í röðina fyrir framan. Þess má geta að akkúrat þar sem ég treð mér inn í röðina erum við í miðju hringtorgi. Það gerði þetta aðeins erfiðara vegna umferðar en ég er á litlum og nettum bíl og smeygði mér bara inn. Koma þá að nokkrir gaurar alveg brjálaðir og hundskamma mig fyrir að troða mér inn í röðina. Gaurinn sem var að passa stæðið fyrir mig komst ekki út því það var bíll við bíl því leit þetta út eins ég hefði bara troðið mér inn. Enda héldu mennirnir það og veifuðu höndum og hundskömmuðu mig. Ég varð alveg miður mín og gat ekki útskýrt málið vegna tungumálaörðugleika, þeir skömmuðust bara á sínu tungumáli og ég kann það ekki. Svo loks náði gaurinn “minn” að útskýra hvað væri í gangi, ég væri ekkert að troða mér inn heldur hefði hann verið að passa stæði fyrir mig en hann kæmist ekki út.

Við þessar útskýringar róuðust nú mennirnir heldur betur og fóru að útskýra fyrir mér að ég yrði að fara út úr stæðinu og fara einn hring um hringtorgið svo hinn bílinn kæmist út. Ég hélt nú ekki því þá myndi ég missa plássið mitt og ég færi sko ekki aftast í röðina. En nei nei, þeir lofuðu að passa plássið mitt sem þeir og gerðu.

Eins ég sagði þá var þetta í miðju hringtorgi og það var nokkur umferð enda hádegi og margir á ferli. Ég átti eitthvað erfitt með að komast út og af stað þannig að ég bara ákvað að leggjast á flautuna og leggja af stað. Flautan átti að vara hina bílstjórana við að ég væri á ferð – þetta virkaði alveg þrælfínt og frúin bara keyrir af stað án þess að líta of mikið í kringum sig því annars hefði ég aldrei komist af stað. Svona er nú að keyra í Lilongwe.

En sagan er nú ekki búin. Röðin hreyfist hægt og rólega og voru tvær raðir, önnur fyrir bíla og hin fyrir fólk með brúsa. Ég reyndi að passa mig að færa minn bíl alltaf þegar bílinn á undan fór nær. En eftir einhverja stund kemur sá bílstjóri (og þessi fyrir aftan mig kom líka) til mín og segir mér að ég verði að vera nær sér “það verði að vera stuðari við stuðara” annars koma leigubílstjórarnir og troða sér inn á milli. Ég passaði mig enn betur og færði mig eins nálægt og ég þorði.

Það einfalda atvik að láta fylla bílinn tók alveg þokkalega á taugarnar í frúnni og þykist ég viss um að blóðþrýstingurinn hafi aðeins risið við þessi læti. Eftir tæpa tvo tíma kemst bílinn minn loks að dælunni og ég gat látið fylla hann og svo brunað heim.

Eins og þið getið ímyndað ykkur þá hitnar oft í kolunum þegar fólk er búið að bíða í biðröð í marga klukkutíma. Enda voru þarna vopnaðir hermenn sem reyndu að hafa hemil á mannskapnum.

Það fór heldur lengri tími í þetta bensínstúss en við áttum von á og því varð undirbúningur fyrir grillveisluna kannski ekki eins mikill eins og til stóð – en veislan tókst samt meiri háttar vel og var skemmtileg J

Þó bíllinn sé fullur af bensíni þá vill nú samt þannig til að hann hefur staðið hér fyrir utan óhreyfður síðan á laugardag. 

1 ummæli:

davíð sagði...

Sérstök menning, annað verður ekki sagt