Powered By Blogger

laugardagur, 19. nóvember 2011

Þar munaði mjóu....


Á föstudögum finnst okkur afskaplega gott að hafa heimabakaða pizzu í kvöldmat og gerum þetta flotta deig í brauðvélinni okkar. Ég ákvað að bregða ekki út af vananum í gærkveldi og setti í vélina svo deigið yrði tilbúið um kl. 17.30. Þetta átti að passa akkúrat því Villi yrði seinn heim.

Deigið leit rosalega vel út og hefaðist mikið og þegar stutt var eftir þar til það yrði tilbúið kveikti ég á ofninum. Þetta átti allt að passa svo vel saman sjáiði J

Svo fer ég bara að dunda mér í að finna til það sem á að fara á pizzuna og ætla svo að setjast út þar til brauðvélin “kallar” á mig. En ég ákvað að kíkja aðeins á deigið áður en ég fer út. Það er bara eins gott að ég kíkti því við hliðina á brauðvélinni er helluborð sem aldrei er notað því platan er brotin. Það vill safnast heilmikið drasl á þetta helluborð og þar sem ég er að kíkja á deigið í gær þá verð ég vör við reyk leggja upp af helluborðinu. Það var við það að kvikna í alls kyns blaðadrasli sem lá á helluborðinu. Þetta voru ýmis frumrit varðandi bílinn minn (mörg frá Namibíu) eins var vegabréfið mitt þarna og sitthvað fleira. Einnig hafði skyndihjálpataskan mín byrjað að bráðna.

Ég fékk nett sjokk því eitthvað af þessum blöðum og pappírum eru sviðnuð og brunnin saman. En vegabréfið mitt slapp sem betur fer. En ég hef ekki þorað að kíkja á þetta og ákvað að bíða eftir því að Villi hafi séns á að kíkja fyrir mig.

Þetta er í annað sinn sem ég bræði eitthvað á þessu bévítans helluborði, um daginn var það fartölvan mín. Þetta er samt ekki bara klikk í mér því þegar ég ætla að nota ofninn þá verð ég að kveikja á takka á veggnum og svo kveikja á ofninum. En þessi takki á veggnum kveikir líka á helluborðinu. Þess vegna verða takkarnir á helluborðinu alltaf að vera stylltir á núll. En þar sem ég nota þetta helluborð aldrei er ég ekkert að spá í það og á það til að nota það sem geymsluborð. En þegar það er þurrkað af þessu borði þá er svo auðvelt að snúa tökkunum og þar með kveikja á hellunum. Svo þegar ég kveiki á takkanum á veggnum þá náttúrulega fer helluborðið á fullt. Þetta á sem sagt að útskýra þetta kveiki-vesen í mér. En það er fátt sem ég hræðist meira en eld og að það kvikni í því skil ég ekki af hverju ég er ekki passasamari með þessa takka á helluborðinu.

föstudagur, 18. nóvember 2011

Matjurtagarðurinn

Jæja þá er komið að því að sýna myndir úr matjurtagarðinum mínum eins og ég lofaði fyrir löngu síðan. Við erum löngu byrjuð að fá kál, eggaldin og agúrkur í hús. Eins hafa komið tveir tómatar og það syttist í gulræturnar. Það er merkilegt hvað allt smakkast betur úr eigin garði heldur en út úr búð :-)
Hér koma myndirnar.
Kálið lítur mjög vel út og smakkast vel. Við settum niður margar tegundir af káli, t.d. kínakál, lettuce, mustard lettuce og eitthvað fleira sem ég man ekki hvað heitir. Það voru bara tvær tegundir sem mér þóttu góðar og gerum við því einhverjar breytingar fyrir næsta sumar.
Ég hlakka mikið til þegar butternutið (veit ekki hvað það heitir á íslensku) verður tilbúið. Þetta er uppáhaldið okkar Villa. Við skerum það í litla bita og bökum í ofni ásamt m.a. kartöflum og gulrótum.
Við settum eggaldin ekki niður og því nokkuð ljóst að þau hafi verið fyrir í garðinum. Sprettan á þeim hefur þó verið mjög góð og ég hef verið að læra að matreiða þau. Ég hef m.a. skorið þau í strimla og sett í ofninn með butternuttinu. Þau eru alveg ágæt en ég geri ekki ráð fyrir að hafa þau næsta sumar.
Svo er það papríkan, hún lítur vel út og fer að styttast í að ég fái hana í hús. Ég þyrfti svo að prufa mig áfram með mismunandi liti. Veltur það ekki allt á þroskastiginu í paprikunni?? Ég held það, en ég er bara enn að læra.
Loks tók ég mynd af lauknum. Hann vex og dafnar vel eins og annað í garðinum.

Ég hef verið að prufa mig áfram með hvað ég vil hafa í garðinum og hvernig ég á að setja það niður. T.d. með kálið, þá settum við of mikið af því niður á sama tíma og því endaði ég á að gefa það flest. Það er nefnilega takmarkað hve miklu við getum torgað af káli á stuttum tíma :-) Ég þarf að dreifa því yfir á lengri tíma því sem ég set niður.

Við tókum til og þrifum garðinn nú í vikunni og kom í ljós að við höfðum meira pláss og settum því niður þrjár nýjar tegundir, blómkál, aðra tegund af káli og svo man ég alls ekki hvað þetta þriðja var :-) Philomone er greinilega mjög hrifinn af kryddjurtum og þau taka mikið pláss í garðinum. Stærðin á beðunum og magnið af hverju er í engu samræmi við það sem við notum þau þannig að við færðum kryddið yfir í minni beð og þá losnaði pláss fyrir grænmeti sem ég nota :-)

Eins settum við niður jarðarber, um 20 stilka, og verða jarðarberin orðin þroskuð og góð um jólin. Það verður frábært að fara út í garð og tína jarðarber til að hafa í eftirrétt á jólunum - bara dásamlegt  :-)

fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Hreykin hænumamma


Þar kom að því að hænurnar mínar fengu að fara út og viðra sig aðeins. Þær voru nú ekkert á því og þurfti aðeins að ganga á eftir þessum elskum. En út fóru þær að lokum þó sumar þeirra reyndu að komast gaggandi brjálaðar inn aftur. Philomone sat yfir þeim til að vera öruggur um að þær færu ekki í grænmetisgarðinn okkar og rústuðu honum. Þær voru nú ekkert að skoða sig of mikið um, þær fundur sér bara einn blett í garðinum og voru ánægðar með lífið.

Svo kom að því að henda þeim inn fyrir kvöldið en þær voru ekkert á þeim buxunum.Við reyndum að reka þeir inn en það voru alltaf nokkrar óþekkar sem hlupu í burtu – þetta var bara eins og þegar maður var að smala í sveitinni í denn. Enda sáum við að þetti gengi ekkert og endaði það með því að Philomone varð að halda á hverri einustu inn í hús takk fyrir J


En þær eru algjört æði. Einn haninn er áberandi stærstur og sennilega mun ég halda honum og gefa hina. Við köllum hann Jónatan og hann er m.a.s. farinn að gala fyrir mig enda er það sko hreykin hænumamma sem býr hér J

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Fyll´ann takk!!!!


Það er sko meira en að segja það að fylla bílinn af eldsneyti í Malawi. Undanfarna mánuði hefur verið mikill skortur á bæði bensíni og olíu í landinu og ég hef margheyrt af fólki sem bíður, upp á von og óvon, í marga klukkutíma á einhverri bensínstöðinni. Það verður að segjast að ég hef verið nokkuð heppin hvað þetta varðar. Einu sinni gat ég rennt upp að bensíndælu og gellan átti fullt af bensíni fyrir mig. Svo höfum við bara alltaf átt 20 ltr á brúsa og um leið og brúsinn hefur tæmst höfum við farið á stúfana.

En nú brá svo við í síðustu viku að bíllinn var á síðustu dropunum og bensínbrúsinn galtómur. Ég var orðin verulega áhyggjufull yfir því hreinlega að lokast inni á heimilinu þannig að Villi tók bílinn á föstudaginn og henti honum í biðröð á einhverri bensínstöðinni. En það kom ekkert bensín svo hann kom heim með bílinn aftur, með enn færri dropum en um morguninn ;-)

Á laugardaginn vorum við búin að bjóða fólki heim í grillveislu seinni partinn og við vorum á fullu í undirbúningi þegar Villi fær símtal um að ef við viljum bensín þá verðum við að mæta NÚNA. Villi var að versla og hringdi í mig og ég þýt af stað að sækja hann og við brunum á bensínstöðina. Þannig var þá mál með vexti að maður einn hafði verið með bílinn sinn (sem notar olíu) í biðröð í marga klukkutíma og svo þegar bensín-tankbíll var kominn á stöðina og röðin aðeins farin að hreyfast þá hringdi hann í Villa. Hann var sem sagt að passa pláss í röðinni fyrir minn bíl og þegar ég kem að þá segir hann mér að fara inn í röðina fyrir framan sig og hann muni fara úr röðinni um leið og ég sé komin inn. Það þarf að passa þetta vel því annars koma aðrir bílar og troða sér inn. Ég geri sem mér er sagt og smelli mér inn í röðina fyrir framan. Þess má geta að akkúrat þar sem ég treð mér inn í röðina erum við í miðju hringtorgi. Það gerði þetta aðeins erfiðara vegna umferðar en ég er á litlum og nettum bíl og smeygði mér bara inn. Koma þá að nokkrir gaurar alveg brjálaðir og hundskamma mig fyrir að troða mér inn í röðina. Gaurinn sem var að passa stæðið fyrir mig komst ekki út því það var bíll við bíl því leit þetta út eins ég hefði bara troðið mér inn. Enda héldu mennirnir það og veifuðu höndum og hundskömmuðu mig. Ég varð alveg miður mín og gat ekki útskýrt málið vegna tungumálaörðugleika, þeir skömmuðust bara á sínu tungumáli og ég kann það ekki. Svo loks náði gaurinn “minn” að útskýra hvað væri í gangi, ég væri ekkert að troða mér inn heldur hefði hann verið að passa stæði fyrir mig en hann kæmist ekki út.

Við þessar útskýringar róuðust nú mennirnir heldur betur og fóru að útskýra fyrir mér að ég yrði að fara út úr stæðinu og fara einn hring um hringtorgið svo hinn bílinn kæmist út. Ég hélt nú ekki því þá myndi ég missa plássið mitt og ég færi sko ekki aftast í röðina. En nei nei, þeir lofuðu að passa plássið mitt sem þeir og gerðu.

Eins ég sagði þá var þetta í miðju hringtorgi og það var nokkur umferð enda hádegi og margir á ferli. Ég átti eitthvað erfitt með að komast út og af stað þannig að ég bara ákvað að leggjast á flautuna og leggja af stað. Flautan átti að vara hina bílstjórana við að ég væri á ferð – þetta virkaði alveg þrælfínt og frúin bara keyrir af stað án þess að líta of mikið í kringum sig því annars hefði ég aldrei komist af stað. Svona er nú að keyra í Lilongwe.

En sagan er nú ekki búin. Röðin hreyfist hægt og rólega og voru tvær raðir, önnur fyrir bíla og hin fyrir fólk með brúsa. Ég reyndi að passa mig að færa minn bíl alltaf þegar bílinn á undan fór nær. En eftir einhverja stund kemur sá bílstjóri (og þessi fyrir aftan mig kom líka) til mín og segir mér að ég verði að vera nær sér “það verði að vera stuðari við stuðara” annars koma leigubílstjórarnir og troða sér inn á milli. Ég passaði mig enn betur og færði mig eins nálægt og ég þorði.

Það einfalda atvik að láta fylla bílinn tók alveg þokkalega á taugarnar í frúnni og þykist ég viss um að blóðþrýstingurinn hafi aðeins risið við þessi læti. Eftir tæpa tvo tíma kemst bílinn minn loks að dælunni og ég gat látið fylla hann og svo brunað heim.

Eins og þið getið ímyndað ykkur þá hitnar oft í kolunum þegar fólk er búið að bíða í biðröð í marga klukkutíma. Enda voru þarna vopnaðir hermenn sem reyndu að hafa hemil á mannskapnum.

Það fór heldur lengri tími í þetta bensínstúss en við áttum von á og því varð undirbúningur fyrir grillveisluna kannski ekki eins mikill eins og til stóð – en veislan tókst samt meiri háttar vel og var skemmtileg J

Þó bíllinn sé fullur af bensíni þá vill nú samt þannig til að hann hefur staðið hér fyrir utan óhreyfður síðan á laugardag. 

þriðjudagur, 8. nóvember 2011

Flest flýgur nú....

Eftir hressilega úrkomu stytti upp um hádegið í gær en það var þungt yfir og mikil molla. Þannig að húsið var opið upp á gátt eins og hægt var og eftir að Villi kom heim úr vinnunni sat hann úti. Svo veit ég ekki fyrr til en hann kemur hlaupandi inn og lokar hurðum kyrfilega á eftir sér. Og ástæðan?? jú það hafði bara allt fyllst af fljúgandi maurum og komu þeir í þúsunda tali. Það var allt morandi í þessum kvikindum. Þetta eru stærri maurar en þessi "venjulegu" sem maður þekkir svo vel :-)

Svo þurfti ég að fara á fund í gærkveldi og það var varla að ég vildi fara út í þetta ógeð en af tvennu illu fannst þér þó skömminni skárri að hætta mér út í stað þess að tilkynna forföll vegna maura. Þetta gekk svo yfir á nokkrum klukkutímum en í morgun þegar við komum fram voru öll gólf, bæði inn og úti, þakin af vængjum og dauðum maurum. Reyndar voru þeir líka í sófanum og á borðum. Þetta var afskaplega geðslegt svona í morgunsárið. Svo til að toppa þetta lá dauð mús rétt fyrir utan hurðina þegar við opnuðum út í morgun.

Kunnugir segja mér að þessir fljúgandi maurar séu lostæti á meðan þeir eru lifandi. Það er alveg á hreinu að ekki ætla ég að sannreyna það  :-)


laugardagur, 29. október 2011

Lista- og handverkasýning

Við hjónin skelltum okkur á lista-og handverkasýningu í morgun. Þarna var samankominn dágóður hópur af listafólki sem var að sýna og selja eigin verk. Þetta voru m.a. málverk, ljósmyndir, alls kyns saumaðar vörur, mósaíklistaverk og margt fleira.

Mér fannst nú eiginlega hálfótrúlegt að sjá hve margir listamenn voru þarna að sýna handverkin sín því samfélagið er nú ekkert svaka stórt hérna í Lilongwe. En reyndar voru ekki allir frá Malawi, þarna voru einnig listamenn frá Zimbabwe og Mósambík sem komu gagngert til landsins til þess að sýna listaverkin sín og selja.

Við Villi byrjuðum á að heilsa upp á kunningjakonu okkar sem var með málverkasýningu og þar var að sjálfsögðu opnuð flaska af freyðivíni svona í tilefni opnunar sýningarinnar. Og hvað var klukkan, jú hún rétt náði að verða 10 :-)

En þetta var mjög skemmtilegt og gaman að sjá hve frjótt fólk er í listsköpun sinni.


Bólan kom hlaupandi í hús

Jæja þá kom að því að Rúnar Atli fengi hlaupabóluna. Þetta byrjaði í síðustu viku þegar við vorum í fríi við vatnið (þ.e. ég og Rúnar vorum í fríi, Villi þurfti að vinna). Einn morguninn sáum við nokkra bletti á bakinu á Rúnari og við Villi héldum að þetta væru bara moskítóbit. Svo nokkrum dögum seinna þá tók ég eftir því að bakið á krakkanum var allt út í rauðum blettum. Hann sagðist bara sjálfur halda að þetta væri hlaupabólan. Ha?? Hvernig datt drengnum þetta í hug?? Jú nefnilega ein stelpa í bekknum hans hafði fengið hlaupabóluna nokkrum dögum fyrr og kennarinn hafði farið vel yfir þetta með krökkunum, þ.e. einkenni og þess háttar.

Ég var nú ekki alveg til í að kaupa hlaupabóluna en ákvað nú að sjá til hvernig hann væri daginn eftir. Svo var nú bara eiginlega ekki um annað að ræða þegar ég sá hann daginn eftir. Hann var bókstaflega með rauða flekki út um allt.

Ég vildi nú fá álit læknis bara svona til öryggis. Við höfum haft nafn og númer hjá lækni á ísskápnum hjá okkur og töldum okkur vera til í hvað sem var. Ég hringi og segi við stúlkuna sem svarar að ég vilji panta tíma fyrir son minn hjá þessum ákveðna lækni. Ég náði ekki alveg hverju hún svaraði og áður en ég vissi af var ég komin á bið og loks slitnaði bara sambandið. Ég hringi aftur og tala aftur við sömu stúlkuna og kom þá í ljós að þessi læknir var hættur og þetta sé meira að segja ekki lengur læknastofa!!! Ja hver skollinn, hvað átti ég nú að gera. Ég þekkti enga lækna né vissi ég hvar læknastofur væru í bænum. En í gegnum gott fólk komst ég loks í samband við einn lækni og við Rúnar hittum hann síðar þann sama dag.

Og jú jú þetta reyndist vera hlaupabólan. Hann var kominn með bletti á augnlokin, inn í annað eyrað og m.a.s. á vörina. Það var alveg svakalegt að sjá greyið. Hann þjáðist af töluverðum kláða í ca tvo daga en svo bara ekki söguna meir. Það er með ólíkindum hvað þetta hefur angrað hann lítið svona miðað við hve slæmur hann var.

Nú eru allar bólurnar orðnar þurrar og engar nýjar komið í ca tvo daga þannig að gaurinn kemst loksins í skólann eftir helgi. En það er enn rosalegt að sjá hann eins og sést á þessari mynd. Hann þvertók fyrir það að ég tæki mynd af honum að framan :-)