Powered By Blogger

föstudagur, 16. maí 2008

Ísland

Jæja þá er ég komin á klakann og það er bara alveg þokkalega ágætt :-) Flugferðin gekk mög vel. Reyndar gat ég lítið sofið á næturfluginu því það var lítið barn nokkrum röðum fyrir framan mig og reglulega um nóttina fór barnið að hágráta. Því leið greinilega ekki vel en ég vorkenndi foreldrunum mikið, því ekki bara var barnið þeirra hágrátandi heldur hafa þau örugglega haft miklar áhyggjur af því að barnið þeirra hélt vöku fyrir öllum öðrum í vélinni - úff það getur ekki verið þægilegt.

En þrátt fyrir grátinn þá gekk ferðin bara vel og var fljót að líða. Svo þegar til London kom þá þurfti ég að skipta um flugvöll og koma mér á Heathrow. Það var nú bara ein stutt rútuferð, ja kannski ekki stutt, hún tók rúman einn og hálfan tíma. Flugið til Íslands gekk líka mjög vel. Ég var svo heppin að lenda í vél sem Iceland Air hefur tekið í gegn. Nú var vel rúmt á milli sæta og sætið við hliðina á mér var autt þannig að við sátum tvö í þremur sætum - sem er mjög gott. Það var ekki nóg með að ég hefði nóg pláss heldur var ég líka með mitt eigið sjónvarp og nýtti ég mér það heldur betur. Ég hafði reyndar ætlað mér að sofa á leiðinni til Íslands en ákvað að prófa sjónvarpið. Ég fann þættina "Two and a half man" og ég ákvað að horfa á þá. Ætli ég hafi ekki horft á ca sex þætti. Mér finnst þessir þættir alveg meiri háttar skemmtilegir enda gat ég stundum ekki haldið niðri í mér hlátrinum en ég reyndi eins og ég gat en það gerði bara illt verra. Því það komu bara skrækir og þess háttar skemmtileg hljóð. Ég hálf vorkenndi manninum sem sat í sömu röð og ég því sjónvarpið hans var bilað og ég var með þessi skemmtilegu hljóð. En vorkunninn risti nú ekki mjög djúpt. Æi svona er þetta bara.

Ég er nú hálf svekkt því ég legg á mig þetta langa ferðalag til að vera með eldri dóttur minni. En nei nei, ég er búin að vera heima í tvo daga þá er hún þotin út úr bænum og kemur ekki heim fyrr en á sunnudaginn. Svo ég verð alein alla helgina.

sunnudagur, 11. maí 2008

4961 km

Eins og sum ykkar kannski vita þá fjárfesti ég í nýjum bíl síðasta ár, nánar tiltekið þann 8. ágúst s.l. Gripurinn er Daihatsu Sirion 1400 vél, kolsvört og geðveikt flott sporttýpa. Ég var eitthvað að velta fyrir mér um daginn hvenær ég ætti að mæta með kaggann í olíutékk og þess háttar og bað Villa að athuga það fyrir mig. Jú sko, samkvæmt sölubókinni þá er fyrsta svona tékk annað hvort eftir 12 mánuði eða eftir 15 000 kílómetra, hvort sem kemur fyrr. Humm, ég leit á kílómetramælinn og sá að ég hef keyrt elsku bílinn minn 4961 kílómetra á þessum níu mánuðum sem komnir eru. Og þar sem aðeins vantar þrjá mánuði í eitt ár tel ég nokkuð ljóst að ég næ ekki að keyra bílinn 15 000 kílómetra fyrir 8. ágúst og mæti því með hann í skoðun í byrjun ágúst.

Stundum legg ég bílnum fyrir framan húsið (en ekki í bílastæðin við hliðina á húsinu) svo ég geti kíkt út og séð bílinn og dásamað hann svona þegar ég er ekki að keyra hann :-) (ég veit, ég veit, ég er ekki alveg heilbrigð eins og yngri dóttir mín bendir mér oft á).

Ég vildi óska þess að ég gæti flutt bílnn minn með mér til Íslands þegar við flytjum heim. En það er víst hægara sagt en gert þar sem stýrið er "vitlausu" megin. Í Namibíu er sem sagt vinstri umferð. Annars heyrði ég í den um verkstæði sem sérhæfa sig í að umbreyta svona bílum svo þeir henti hægri umferð. En það eru nú möööörg ár síðan. Ef einhver þekki til þess þá endilega að að láta mig vita.

mánudagur, 5. maí 2008

Íslandsferð

Þá fer að koma að Íslandsferð frúarinnar á þessum bæ. Þann 13. maí legg ég af stað héðan og verð komin heim þann 14. Við höfum yfirleitt flogið með Air Namibia til Gatwick og þaðan með British Airways til Íslands og svo eins heim aftur. En núna eru því miður British Airways hættir að fljúga þessa leið og því verð ég að skipta um flugvöll í London og koma mér yfir á Heathrow. En það á nú ekki að vera mikið mál - bara taka rútu á milli flugvalla.

Á Íslandi verð ég í fimm vikur og verður það mjög gaman. Ég ætla að eiga notarlegan tíma með eldri dóttur minni sem verður tvítug í byrjun júní. Við ætlum í leikhús að sjá Ladda sextugan og í brúðkaup vestur í Ólafsvík. Og við finnum okkur örugglega eitthvað að skemmtilegt að gera saman. Svo þann 18. júní leggjum við mæðgurnar saman af stað hingað út aftur. Hún ætlar að vera hérna í tæpar þrjár vikur og verður það meiri háttar gaman. Á sama tíma verða Doddi bróðir og Emil sonur hans hérna hjá okkur. Við ætlum að ferðast eitthvað saman, grilla, sjálfsagt að opna eins og eina vínflösku og eitthvað annað skemmtilegt :-)

Sem sagt, bara skemmtilegir tímar framundan.

Löng helgi og uppvask!!!

Jæja þá er þessari löngu helgi að ljúka. 1. maí, dagur verkalýðsins, er mikill hátíðisdagur hér í Namibíu og er því frídagur. Nema náttúrulega fyrir afgreiðslufólk, allar búðir voru opnar eins og um sunnudag var að ræða. Mörg fyrirtæki höfðu svo lokað á föstudaginn því á sunnudeginum var Kasingadagur og þegar lögbundinn frídagur ber upp á helgi þá er mánudagurinn á eftir frídagur. þannig að margir hafa verið í fríi síðan á miðvikudagseftirmiðdag. Ég gat þó ómögulega verið án minna aðstoðarkvenna á föstudaginn. En við hjónin vorum hjálparlaus laugardag, sunnudag og mánudag. Villi var duglegur að vaska upp á laugardaginn, ég tók mig til á sunnudaginn og skellti litla fingri í kalt vatn og tók að mér uppvask. En í dag, mánudag, verð ég að viðurkenna að hvorugt okkar hafði "tækifæri" til að vaska upp :-)

Enda er núna bara beðið eftir að Lidia mæti í fyrramálið, því síðustu diskarnir voru notaðir við kvöldverðinn. Það var bara eins gott að Tinna var ekki heima því hún hefði þurft að nota servíettu eða eitthvað annað undir sinn mat :-)

Þetta er nú ekki alveg eins slæmt og það hljómar og er sagt í fullu gríni :-) en öllu gamni fylgir jú einhver alvara hef ég heyrt.

Skóli, skóli, skóli

Jæja þá fékk ég þær fréttir í dag að umsókn mín um að hefja nám í M.Ed í stjórnunarfræði menntastofnana við menntavísindasvið Háskóla Íslands hefði verið samþykkt. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægð með þessa stöðu mála. Ég er sem sagt að hefja annað meistaranám. Ég hef nú líka verið að velta mikið fyrir mér að fara í doktorsnám í afbrotafræði en þegar ég hugsa virkilega um hvað ég vil starfa við í framtíðinni, þá er það í grunnskólum og helst í stjórnun þeirra. Þannig að ég reikna með að hefja þetta nám í haust, það er samt ekki alveg hundrað prósent. Þetta nám er byggt upp sem sveigjanlegt nám með staðlotum og þeir vita að ég get ekki sótt nema nokkrar staðlotur, ef nokkrar, vegna búsetu. En það er spennandi að hafa eitthvað ákveðið fyrirliggjandi um hvað ég mun gera næsta vetur. Ég verð sennilega á kafi í bókum og verkefnavinnu - úff það er eins gott að mér finnst það mjög skemmtilegt :-)

sunnudagur, 27. apríl 2008

Fjarlægðin gerir fjöllin blá!!

Ég var að horfa á síðasta þátt Spaugstofunnar á þessum vetri áðan og svei mér þá ef þetta var bara ekki sá albesti þáttur ever. En það getur svo sem verið að heimþrá og söknuður eftir Íslandi hafi sitt að segja í þessu mati mínu. Allt íslenskt, hvort sem það er veður, verðlag eða eitthvað annað, verður því eftirsóknarverðara því lengur sem ég er fjarverandi. En í fúlustu alvöru þá var þátturinn mjög góður og gaman að stjórnmálamenn geti gert grín af sjálfum sér og tekið þátt í þessu.

Ef svo ólíklega vill til að einhver lesenda þessa pistils hafa ekki horft á fyrr téðan þátt þá mæli ég eindregið með að viðkomandi bæti úr því hið fyrsta.

laugardagur, 26. apríl 2008

Netsamband

Jæja þá er mánaðarlöngu netsambandsleysi og svo til algjöru sambandsleysi við umheiminn loksins lokið. Ég get trúað ykkur fyrir því að þetta reyndi töluvert á þolrifin í minni :-) En í gær kom loksins "síma-kallinn" og reddaði málum fyrir okkur. Þegar hann var búinn þá tékkaði ég náttúrulega á tengingunni og ég held svei mér þá að ég hafi setið yfir tölvunni í tvo klukkutíma :-)