Powered By Blogger

sunnudagur, 1. janúar 2012

Gamlársdagur

Ég óska öllum gleðilegs nýs árs og þakka allt gamalt og gott.

Gamlárskvöld rann upp hér, sem annars staðar og áttum við yndislegt kvöld saman fjölskyldan, það vantaði bara Tinnu mína. Þessi gamlársdagur var í rólegri kantinum. Undanfarin ár höfum við Villi verið með matarboð á gamlárskvöld þar sem boðið er upp á kalkún og saltkjöt og baunir. Dagurinn hefur farið í undibúning og þess háttar og lítið um afslöppun. Nema hvað ég hef alltaf stolist til að horfa á Kryddsíldina á milli þess sem ég huga að matseldinni.

Þetta gamlárskvöld var ekkert stórt matarboð og því var dagurinn rólegur og án Kryddsíldar. Við vorum með Gammon steik í matinn og Villi sá alveg um eldamennskuna og stóð sig vel í því eins og hans er von og vísa. Svo eftir matinn skemmtum við okkur við það að horfa á og hlusta á tónlist á Youtube. Aldrei þessu vant var netsambandið bara mjög gott og við lékum okkur við það að finna skemmtileg lög og horfa á. Við byrjuðum á að horfa á mörg myndbönd með Baggalúti og þeir komu okkur í gírinn - þeir eru frábærir. Þetta var "skaupið" okkar og við skemmtum okkur mjög vel, m.a.s. Rúnar skemmti sér vel. Við höfðum keypt nokkur stjörnuljós og hann var í þeim pakkanum allt kvöldið. 

Það var eitthvað um flugelda hérna í hverfinu, en afskaplega lítið og stóð stutt yfir svona ef maður miðar við Ísland. En það á kannski ekki að miða við Ísland þegar kemur að flugeldum :-)

Ég vona að þið hafið öll átt yndislegt gamlárskvöld og að árið 2012 færi ykkur gleði og ánægju :-)

Næsta gamlárskvöld verður sko aftur matarboð í Æsufellinu, Kryddsíldin og skaupið - geggjað

Engin ummæli: