Powered By Blogger

fimmtudagur, 14. júlí 2011

Styttist í þetta

Nú eru tvær vikur í brottför og ég segi bara eins og er að ég er komin með smá hnút í magann. Bæði vegna undirbúnings flutninganna og ferðalagsins sjálfs. Enn og aftur er ég að pakka niður, það eru ekki nema átta mánuðir síðan ég pakkaði síðast niður og ég er alveg komin með upp í kok af þessu. Við Villi flytjum nú "létt", það eru örfáir kassar sem fara vegna okkar, ætli þeir verði ekki fjórir. En það er sonurinn, það er ekki hægt að segja að hann flytji "létt" eins of foreldrarnir. Í þessum töluðum orðum er stofan undirlögð undir Playmo því það þarf að sjálfsögðu að sortera allt áður en því verður pakkað. Ég er nú að vona að ég klári þennan pakka í dag og geti þá fljótlega skellt mér í Legóið - það verður sko ekki minna mál en Playmóið.

Um leið og ég er að pakka þá er ég að reyna að ganga þannig frá íbúðinni að Dagmar geti flutt inn. Hún kemur náttúrulega með sína búslóð og því þarf að gera pláss fyrir hana. Þannig að nú er bara verið að henda og verða sjálfsagt farnar nokkrar ferðir á Sorpu.

Svo er það ferðalagið sjálft. Þar sem við eigum bíl í Namibíu munum við keyra þaðan yfir til Malawi. Við höfðum alltaf gert ráð fyrir að keyra: Namibía, Botswana, Zimbabwe, Mosambík og loks Malawi. En svo var Villa bent á aðra leið, þ.e. að fara í gegnum Zambíu og sú leið virðist töluvert styttri. Þannig að við ákváðum að fara frekar þá leið.

Við erum ansi róleg hvað gistingu á leiðinni varðar og höfum ekki enn pantað gistingu. Við eigum nefnilega eftir að ákveða nákvæmlega hvernig við ætlum að gera þetta, þ.e hvað ætlum við að keyra mikið á dag og þess háttar. En það hlýtur að fara að koma, kannski ekki seinna vænna :-)

- Posted using BlogPress from my iPad

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gangi þér vel Gulla mín, ætli þú þurfir nokkuð að sortera playmo og Lego næst þegar þið flytjið! hann verður hættur að leika sér með það þá.
kv.
Sigga

Gulla sagði...

Þetta er ánægjuleg tilhugsun :-)