Powered By Blogger

þriðjudagur, 27. desember 2011

Listaverk

Stelpurnar tóku sig til og dunduðu sér í mósaík hér í Malawi, enda svo sem lítið um að vera :-) Þær gerðu báðar skálar, mjög ólíkar en báðar mjög flottar. Þetta er skálin hennar Tinnu Rutar, ég var að ljúka við að fúga hana. Enda ekki ráð nema í tíma sé tekið því gellan leggur af stað frá Malawi í dag :-)

mánudagur, 26. desember 2011

Ýmislegt finnst í garðinum


Þessi litli krúttaralegi broddgöltur fannst í garðinum um daginn. Hann fékk að sjálfsögðu strax nafnið Broddi - mjög viðeigandi. Rúnar vildi endilega fá að eiga hann svo við fundum kassa og settum sag í botninn. Svo þurfti að gúggla hvað svona dýr borða eiginlega. Jú það væri fínt að gefa þeim mjólk og kattarmat. Ég náði í mjólk í skál fyrir krílið en hann vildi nú ekki smakka. En Snúlla (hundurinn) var nú ekki sein að klára alla mjólkina :-)

Rúnar passaði svo Brodda allan daginn og fékk að hafa hann inni í húsi, en í kassanum. Ég var nú ekki tilbúin í að leyfa Brodda að sofa inni í húsinu svo við settum kassann út í vaskahús. Svo þegar kíkja átti á krílið daginn eftir þá var hann horfinn úr kassanum. Hann hafði náð að klifra upp og fara á flakk. Ég bað Philomone að fara inn og leita því ég bara þorði því ekki sjálf :-) Auðvitað fannst Broddi og ég ákvað að veita honum bara frelsi aftur. Einhvern veginn var hugmyndin um trítlandi broddgölt út um allt ekki sérlega aðlaðandi fyrir mig :-) En hver veit, kannski finnst annar og þá má endurskoða málið.




sunnudagur, 25. desember 2011

Fiðurfé

Það eru smá fréttir af hænunum mínum. Eggin fóru að detta í hús um miðjan desember og koma svona þrjú til fjögur á dag. Þau eru nú töluvert minni en þau sem ég versla út úr búð en ég held að það muni lagast þegar fram í sækir. Þar sem ég er algjör nýgræðingur í hænsnarækt þá fattaði ég ekki að ég yrði að huga betur að fóðrinu þeirra. Þær hafa verið á ungafóðri en nú var sem sagt kominn tími til að kaupa fóður fyrir varphænur - sem ég og gerði.

Ég hef talað um það áður að af þessum 15 ungum sem ég keypti þá séu átta hanar. En Philimone kom til mín um daginn og tilynnti mér hanarnir væru víst níu ekki átta :-) Þetta finnst mér ansi lélegt, þ.e. að af 15 stykkjum séum níu hanar :-)

En það hefur fækkað heldur betur í hópnum mínum. Ég er búin að gefa sjö hana og svo veiktist ein hænan og dó. Ég veit ekki hvað var að henni en Philimone fór með hana eitthvert til að fá úr því skorið hvað þyrfti að gera svo hinar veiktust ekki og ég þurfti bara að kaupa einhver lyf og gefa hinum og nú á allt að vera í lagi.

Ég er búin að panta nýjan ungahóp og hann kemur vonandi um miðja vikuna - önnur 15 stykki og nú er að vona að hænufjöldinn verði mér í hag :-)

Hanarnir sem eftir eru heita Jónatan og Kjartan, svo heitir ein hænan Jósefína. Nú vantar mig bara nöfn á þrjár hænur. 

Garðyrkja

Garðurinn minn heldur áfram að gefa af sér. Ýmsar tegundir eru þó búnar í bili, eins og t.d. butternut, tómatar og agúrkur. En það er búið að setja fullt af nýjum tegundum niður, ásamt þeim sem búnar eru. Rúnar hefur gaman af þessu og í hvert sinn sem hann fer með mér í matvörubúð þá fær hann að velja sér fræpakka til að kaupa og setja svo niður. Hann er m.a. búinn að kaupa, og gróðursetja, baunir og grasker.

Eins settum við niður um daginn hunangsmelónur og vatnsmelónur og það verður forvitnilegt að sjá hvernig þær koma út :-) Nú er ég líka loksins búin að fá rabbabarafræ og þau komin niður. En ég þarf víst að bíða heillengi eftir rabbabarauppskerunni.

Svo hefur komið í ljós að eitt tréð í garðinum er guavatré þar sem ávöxturinn er alveg að verða tilbúinn. Þannig að nú er bara að fara að borða guava, mangó og avakadó ávaxtasalat :-)

Aðdragandi jóla


Það verður að segjast að aðdragandi jóla hafi verið óhefðbundinn fyrir okkur en alveg yndislegur tími engu að síður. Stelpurnar komu til okkar 15. des og það varð fjör í húsinu :-) Rúnar hefur saknað þeirra afskaplega mikið og það er það erfiða við að búa svona langt í burtu. En við njótum samverunnar enn meira fyrir vikið þegar við hittumst svona sjaldan. En fljótlega eftir að þær komu fórum við niður í Apaflóa og gistum þar tvær nætur. 

Svo var kominn tími til að gera eitthvað jólalegt og huga að skreytingum. Við útbjuggum trölladeig og notuðum jólasmákökumót og gerðum fullt af skrauti sem við svo máluðum og hengdum á arinhilluna. Þetta kom svo vel út að við ákváðum að þetta yrði "jólatréð" okkar því þar sem arininn er ekki notaður þá gátum við sett pakkana þangað inn. Eins útbjuggu krakkarnir miða þar sem á stendur Gleðileg jól á ýmsum tungumálum og einn veggurinn í stofunni er undirlagður. Ég mun setja myndir inn af þessu síðar. 

Á Þorláksmessu fórum við út að borða og á leiðinni heim sáum við það ótrúlegasta ljósasjóv á himninum. Það voru stanslausar eldingar - þetta var ótrúlega fallegt. Við rúntuðum aðeins um til að komast nær og sjá betur svo bara lögðum við bílnum og horfðum á. Þetta var með ólíkindum. Það var náttúrulega enginn með myndavél en Tinna tók þó nokkrar myndir á símann sinn en ég er ekki viss hvort þær hafi komið vel út.

Malavar taka greinilega fullan þátt í jólastússinu :-) Þegar við vorum að keyra heim á Þorláksmessukvöld þá sáust svo vel jólaskreytingarnar í borginni. Hvert einasta hringtorg í borginni er fallega skreytt með jólaljósum, eins er þinghúsið skreytt alveg meiri háttar fallega. Það verður alveg þess virði að skella sér á rúntinn í kvöld og taka myndir af herlegheitunum.


sunnudagur, 11. desember 2011

Litlu jólin

Ég fór í búðina í gær, sem er nú ekki fréttnæmt, nema hvað að búðin var full af alls kyns munaðarvöru. Má nefna t.d. undanrennu og hreina jógúrt, þetta eru vörur sem ég hef ekki fundið í sjálfsagt eina 10 daga og ég var farin að sakna alveg heilmikið. Nú var m.a.s. líka til rjómi og gos í dósum - það var bara eins og jólin hafi komið snemma þetta árið. Það versta var að ég var engan veginn tilbúin í svona stórinnkaup og lúxusvarning, þ.a.l. keypti ég bara það allra nauðsynlegasta. En á morgun verður farið og vonandi verður eitthvað eftir af öllu þessu góðgæti :-)

föstudagur, 9. desember 2011

Hitt og þetta

Það hefur verið rólegt hjá okkur Rúnari undanfarna daga. Villi hefur verið í Namibíu og kemur heim á sunnudaginn. Þetta var síðasta vikan hans Rúnars í skólanum fyrir jólafrí og í fyrradag var jólaskemmtun í skólanum. Allir bekkirnir í barnaskólanum (upp í 6.bekk) sýndu atriði og þetta var voða gaman. Árgangurinn hans Rúnars flutti "The night before Christmas in Africa"sem var mjög flott hjá þeim. Í morgun var svo bekkjarpartý :-) 

Rúnar hefur hlakkar mikið til að komast í jólafrí og er alveg hissa hvað hann fær langt frí miðað við krakka á Íslandi. Enda fljótur að nefna það að hann ætlar sko ekki í skóla á Íslandi á næstunni :-)  

Hann er samur við sig og meiðir sig reglulega. Eins og ég bloggaði um um daginn þá slasaðist hann á fæti í afmælisveislu sem hann var í. Þrátt fyrir góðar ábendingar um að láta lækni kíkja á hann þá lét ég það hjá líða og treysti bara á guð og lukkuna. Sem betur fer virðist hann vera alveg ókey í fætinum. Ég hef ekki einu sinni farið á stúfana að leita að sjúkrahúsi eða heilsugæslu til að vita hvert ég eigi að fara með hann ef eitthvað alvarlegt kemur upp. Ég hef lofað sjálfri mér að um leið og Villi kemur heim þá verði farið að leita. Þá er bara að vona að ekkert komi upp í millitíðinni :-)
Í gær rak hann upp þetta rosa öskur og kom grátandi til mín. Þegar ég var búin að róa hann niður og spurði hvað hefði eiginlega gerst jú þá fékk ég söguna. Sko hann var að setjast í sófann og rak hnéð í tennurnar. Ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum þetta er eiginlega hægt. En drengurinn getur ekki sest eins og venjulegt fólk heldur þarf að vera með einhverjar tilfæringar og hann var greinilega að hoppa til að setjast niður og rak þá hnéð svona illa beint undir tennurnar. Framtennurnar eru mjög beittar þar sem hann braut upp úr þeim í sumar, og Villi bloggaði um, og það sást mjög greinilega far eftir þær á hnénu á honum. En ég var nú aðallega með áhyggjur af tönnunum og honum fannst þær eitthvað lausari en venjulega. Ég bara krosslegg fingur um að þær jafni sig eins og þær gerðu í sumar. Stundum fæ ég smá áhyggjur af því að þessi lukka okkar hljóti að renna sitt skeið fyrr en síðar.
Ég er alveg undrandi hvað drengurinn er alltaf að meiða sig, það líður varla sú vika sem hann er ekki með stórt sár á öðruhvoru hnénu. Ég man bara ekki eftir stelpunum svona, en ég hef svo sem heyrt um krakka sem eiga sitt annað lögheimili á slysó :-)