Powered By Blogger

sunnudagur, 11. september 2011

Hænuungarnir mínir

Jæja þá hef ég loksins náð að taka myndir af hænuungunum mínum. Þeir eru algjör krútt og hafa stækkað sjálfsagt um helming síðan ég fékk þá.

Eftir ca sex vikur þurfa þeir að komast í hænsnahús og Villi ætlar að smíða það fyrir mig. Hann er byrjaður að undirbúa smíðina og er að dunda sér við að skoða hænsnakofa héðan og þaðan og ég geri ráð fyrir að ungarnir mínir fái flott hús :-)


Eins og ég sagði frá um daginn, keypti ég 15 unga og sem betur fer dó enginn þeirra. Nú er bara að vona að sem flestir unganna séu hænur. Ég skoðaði þá soldið vel í morgun og gat ekki betur séð en að sjö þeirra séu með sterka rauða rönd ofan á höfðinu - og mér datt í hug að þetta sé byrjun á hanakambi. Ekki alveg það sem ég óskaði mér og þar sem ég er algjör byrjandi í hænsnastússi þá veit ég svo sem ekkert hvort þessi rönd sé byrjun á hanakambi eða ekki. Þannig að ég krosslegg fingur :-)

laugardagur, 10. september 2011

Myndir

Nú er ég loksins búin að finna myndavélina og er að hlaða hana. Mun reyna að taka myndir á morgun og setja á bloggið.

Rúnar og skólinn

Rúnar Atli er kominn á fullt skrið í skólanum og kominn í góða rútínu. Eftir stóra flutninga er mikilvægt að koma góðri rútínu í gang. Á morgnana fer Villi með Rúnar í skólann og leggja þeir af stað um kl. 7, krakkarnir eiga að vera mættir um tíu mínútur yfir 7. Rúnar er svo búinn kl. 13.30 alla daga vikunnar nema á föstudögum, þá lýkur skólanum kl. 12.10.

Skólavikan telur sex virka daga og þetta kerfi angrar mig þokkalega. Öll fög eru á sínum föstu dögum, svona eins og maður þekkir. En hérna er það hins vegar aldrei á sömu vikudögunum, nema sjöttu hverja viku eða svo. Tökum t.d. leikfimi, Rúnar er í leikfimi á dögum 2 og 5. Í þessari viku var leikfimi einungis á miðvikudaginn því hann var dagur nr. 5. Í næstu viku verður hins vegar leikfimi á mánudaginn og fimmtudaginn. Þannig að á hverjum morgni þarf ég að reikna út hvaða dagur er í dag svo hann fari nú með réttar bækur í skólann og þess háttar. Ég þyrfti eiginlega að útbúa einhvers konar dagatal til að merkja inn á hverjum degi. Ég bara skil ekki hvers vegna svona kerfi er notað.

Við erum reyndar ekki alveg óvön þessu kerfi því þetta var svipað í Namibíu hjá stelpunum. En þar pössuðu þær alveg sjálfar upp á hvaða dagur væri og hvað þær ættu að taka með sér.

Rúnari finnst bara gaman í skólanum, fyrir utan tónmennt. Hann tekur alveg út fyrir að mæta í þá tíma. Sem betur fer (finnst honum) er tónmennt aðeins einu sinni í viku :-) Hann fékk reyndar stóran plús frá kennaranum í gær því hann er sá fyrsti sem kemur með plastaða kennslubókina og þetta gerði kennslustundina eitthvað aðeins skemmtilegri fannst honum :-) Svo finnst honum mjög spennandi að vera í frönsku og tölvutímum. Hann var voða rogginn um daginn því þá fóru þau í fyrsta sinn á internetið í skólanum og honum fannst það alveg meiri háttar. Nú telur hann sig vera útlærðan á internetinu :-)

Fyrir utan hinn hefðbundna skólatíma býðsti nemendum að skrá sig á hin ýmsu námskeið, svo sem íþróttir eða leiki. Eftir mikla ígrundun og valkvíða ákvað hann að skrá sig í golf - takk fyrir. En nú mætir hann sem sagt í golfkennslu á miðvikudagseftirmiðdögum og virðist hafa gaman að :-)

mánudagur, 29. ágúst 2011

Sally skoðar heiminn

Það hefur gengið vel með Sallý (köttinn) og Snapper/Snúllu (hundurinn). Þau virðast vera að aðlagast nýju heimili og nýju fólki alveg þokkalega vel. Sally er inniköttur sem gerir þó þarfir sínar úti - við vorum ánægð með að vera laus við kassa og sand og þess háttar skemmtilegheit.

Sally hefur þó varla þorað út úr húsið síðan hún kom hingað. Hún fann sér fínan stað undir rúminu hans Rúnars og þar virðist fara vel um hana. Við höfum reynt að lokka hana út og af og til borið hana út og um leið og við höfum sleppt henni er hún rokin inn aftur. Ég var farin að velta fyrir mér hvar í ósköpunum hún gerir þarfir sínar.

Ég hafði ekki fundið neina kattarhlandslykt eða neitt slíkt og ekki þorði hún út, þannig að þetta var orðið forvitnilegt.

Í morgun kom svo í ljós hvað mín hafði gert. Hún hafði hoppað upp á kommóðu og komið sér fyrir á fötunum hans Villa og pissað þar. Svo gerði hún enn meira á mottuna og moskítónetið hjá honum, úff eins og hann er nú mikið fyrir ketti :-)

En í morgun þorði hún loksins að stíga sjálf út úr húsi og út á stétt. Hún hafði farið þrisvar sinnum út fyrir kl. 7, bara til að skoða heiminn. Hún fór nú ekki lengra en út á stétt, en þetta er vonandi skref í rétta átt hjá henni.

miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Fjölgun í fjölskyldunni

Það fjölgaði heldur betur í fjölskyldunni í dag. Við fengum 15 yndislega krúttaralega hænuunga. Í mínum huga áttu þeir að vera pínulitlir og gulir, en reyndin var nú aðeins önnur. Þeir eru dökkgráir og heldur stærri en ég hafði gert mér í hugarlund. En þeir eru yndislegir.

Við, ég og Philomon (garðyrkjumaðurinn) komum þeim fyrir í kassa og settum ljósaperu ofan í kassann til að halda á þeim hita. Og settum sag í botninn. Svo þurfti ég að fara í Landbúnaðarráðuneytið til að kaupa vítamín og bólusetningarlyf fyrir þá. Konan sem ég talaði við þar spurði hve marga ég hefði fengið. Ég svaraði því til að mér hefði fundist 15 stykki vera fín tala. Nei nei, hún hélt nú ekki. 30 hænur væru fín tala :-) En ég læt mér nú duga þessar 15, alla vega svona í byrjun.

Þeir geta verið í þessum kassa í ca þrjá mánuði en að þeim tíma liðnum verð ég að vera búin að útbúa hænsnakofa fyrir þá.

Svo er bara að vona að þeir týni ekki tölunni hjá mér. Það er víst ekki óalgengt að þeir drepist úr kulda, en þar sem vorið er komið og farið að hitna þá ætti þetta að vera fínn tími fyrir hænuunga. Eins eiga krákurnar það til að grípa hænuunga, því þarf að passa upp á að þeir komist ekki út á meðan þeir eru svona litlir.

Ég ætlaði að setja mynd af þeim hérna á bloggið, en ég man ekkert hvar myndavélin mín er. Svo það verður að bíða betri tíma.

þriðjudagur, 23. ágúst 2011

Ævintýri úr umferðinni

Eins og gengur þarf ég reglulega að fara í bæinn og versla í matinn og þess háttar. Þetta hefur valdið mér nokkrum áhyggjum því ég er enn að læra að rata og eins er umferðin hérna í Lilongwe all sérstök. Það eru nokkur umferðarljós í bænum og ekki öll virka. Þannig að þó maður lendi á grænu ljósi þá er svo sem ekkert endilega víst að það sé grænt á mann. Alla vega virðast aðrir bílstjórar - sem koma þá þvert á mig - ekkert viðurkenna það að það sé grænt á mig. Heldur bara vaða þeir áfram. Svo eru ein ljós sem virka bara alls ekki. Þetta virkar oft frekar eins og 4 way stop. En hvað um það.

Eitt gott ráð virðist vera að bara vaða áfram - því einhver mun þurfa að slaka á svo ekki verði slys. En sá sem slakar á mun hins vegar þurfa að bíða í þó nokkra stund áður en hann kemst áfram aftur. Þannig að ég reyni núna eins og ég get að bara láta mig vaða áfram.

Ég þekki orðið leiðir í nokkrar búðir og eins heim til hinna Íslendinganna sem búa í borginni. Ég er þó nokkuð viss um að ef ég myndi reyna að bæta við einn leið í viðbót í heilabúið á mér þá myndi eitthvað annað detta út :-) Það er bara ekki pláss fyrir meira í bili. Alla vega þangað til ég er orðin öruggari á þessum leiðum sem ég nú rata.

Þegar ég fer í bæinn þá þarf ég alltaf að fara eina ákveðna götu. Sú gata er rosaleg. Þetta er stutt gata en maður keyrir hana ekki hraðar en á ca 10 eða 20. Það eru svakalegar holur. Þær eru bæði djúpar og breiðar og væri reyndar réttara að segja að þetta væru holur með smá malbiki á milli og þá helst á miðju götunnar. Ég fæ alltaf verki þegar ég fer þessa götu og reyni að sikk sakka á billi holanna, en það er ekki nokkur séns að losna framhjá þeim. En Dæjinn minn drattast þetta, þessi elska.

Ég reyni að versla snemma á morgnana því þá er enn nokkuð róleg umferð. Strax upp úr 9 er hún orðin meiri.

En í dag þurfti ég að skjótast út seinni partinn. Umferðin var náttúrulega þokkaleg, bæði af gangandi vegfarendum og bílum. En út þurfti ég. Ég held mína leið og kemst í búðina og á leiðinni til baka fer ég þessa HOLÓTTU götu (vinkonu mína). Þar voru nokkrir bílar á undan mér og við reynum öll að sikk sakka eins og hægt er fyrir umferðinni sem kom á móti. Svo eru nokkrir bílar fyrir framan mig á gatnamótunum tekur þá ekki leigubíll fram úr mér (þetta eru litlir sendiferðabílar) og fer fram fyrir alla hina bílana líka. Fyrst bölvaði ég viðkomandi bílstjóra fyrir frekjuna. En datt svo í hug að sennilega væru allir hinir bílarnir að bíða eftir að geta beygt í hina áttina. Þannig að ég bara ákvað að elta leigubílinn og "bruna" fram úr ca 5 bílum á gatnamótunum. Kemur þá ekki í ljós að hafði elt leigubílstjórann upp á gangstétt og troðið mér fram fyrir alla hina. Ég þurfti að koma mér niður af gangstéttarbrúninni og inn á götuna aftur.

Úbbs, mín fékk smá fyrir brjóstið en gaf bara í og gat andað rólegar þegar ég var komin í öryggið heima hjá mér. Ég neita því ekki að hafa farið með eins og eina eða tvær bænir þegar heim var komið.

Annars er ég viss um að þessi umferð er ekki góð fyrir blóðþrýstinginn :-)

mánudagur, 22. ágúst 2011

Snilld

Eins og Villi hefur bloggað um þá slasaði Rúnar Atli sig um daginn með þeim afleiðingum að brjóta upp úr tveimur framtönnum (báðar fullorðinstennur) og önnur þeirra losnaði. Þessi lausa virðist vera að festa sig aftur og ég fer svo með hann til tannsa aftur á fimmtudaginn og þá bara vona ég að tönnin verði orðin pikkföst.

Þetta gerðist á föstudaginn. Á laugardaginn fór gæinn út að leika sér í fótbolta og kom svo til mín og sagði að það hefði komið smá slys og ég mætti ekki verða brjáluð. Ég varð að fara út með honum svo hann gæti sýnt mér. Kom þá í ljós að boltinn hafði óvart farið í eina rúðu og brotið hana.

Ég velti svo fyrir mér hvort hann kæmist í gegnum sunnudaginn án einhvers atviks - og sem betur fer þá gekk það nú eftir. Hann komst í rúmið í gærkveldi án þess að brjóta eitthvað eða slasa sig. Svo var komið að mánudegi; eftir skóla fór hann út að leika og kom svo haltrandi inn og alveg að drepast í fætinum. Eðlilega spurði ég hvað hefði eiginlega komið fyrir. Jú sko hann sparkaði í eitt tré. Þegar ég forvitnaðist um hvers vegna í ósköpunum hann væri að sparka í tré. Þá vildi hann bara athuga hvort hann gæti sparkað svo fast að eitthvað myndi detta niður úr trénu.

Þessi snilld hlýtur að koma úr föðurættinni :-)