Powered By Blogger

sunnudagur, 31. október 2010

Flakk

Villi hefur verið á flakki undanfarnar vikur, bara svona eins og oft vill verða. En í síðustu viku ákváðum við Rúnar Atli að skella okkur með Villa þegar förinni var heitið til Malawi. Það var mjög gaman að koma þangað. Lilongwe er talsvert öðruvísi en Windhoek en eins og Windhoek þá er borgin mjög falleg.

Það vildi svo "skemmtilega" til að þessa daga sem vorum þarna þá var einhver heljarins ráðstefna í borginni og því voru öll hótel og gistiheimili uppbókuð. En það var hægt að troða okkur á eitt gestahúsið sem fær nú kannski ekki beint 10 í einkunn frá mér. Rafmagnið var af skornum skammti (sem er víst algengt vandamál í borginni) og þ.a.l. var lítið um loftkælingu. En það sem verra var að það var ekkert heitt vatn :-) En það var mjög gaman að koma þarna og sjá eitthvað nýtt.

Næst er förinni heitið til Opuwo og förum við þangað á fimmtudaginn og komum sennilega heim aftur á sunnudaginn. Ég held að Opuwo sé minn uppáhaldsstaður í Namibíu, það jafnast ekkert á við að liggja á sundlaugarbakkanum með hvítvínsglas og horfa á fegurðina. Þið sem hafið komið þarna vitið hvað ég meina :-) Svo er líka alltaf jafn skemmtilegt að heimsækja Himbana.

þriðjudagur, 19. október 2010

Dulin meining

Við Villi og Rúnar vorum í ferðalagi í síðustu viku og þar sem Villi hefur bloggað um ferðalagið þá nenni ég því ekki.

Ég var í klippingu í morgun sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að í þetta sinn lét ég ekki lita á mér hárið. Ilse - hárgreiðslukonan mín (hefur séð um hárið á mér í mörg ár) var mjög hissa en lét svo sem á litlu bera. Svo spyr hún mig voða varfærnislega hvort ég ætli nú bara að "go totally grey"!!! Ég svaraði því til að ég væri bara svo forvitin að sjá hversu gráhærð ég væri orðin.

Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég fann fyrsta gráa hárið, þetta mun hafa verið um mánaðarmótin mars-apríl 1993. Þá nótt var ég að leggja af stað ein með stelpurnar frá Vancouver til Íslands í gegnum Seattle og New York. Ég var ansi stressuð og taldi að grá hárið væri bara sökum þess. Ég var nú ekki lengi að kippa þessu eina gráa út, reyndar var það snjóhvítt en ekki grátt - en það er nú önnur saga.

Svo hef ég látið lita á mér hárið í mörg ár og um leið og ræturnar eru orðnar gráar er arkað af stað til Ilse og hún reddar málum hjá mér. Það er að segja, þar til núna.

Í morgun byrjar hún sem sagt að klippa mig og kom með þessa athugasemd sína. Eftir svarið mitt hélt hún bara áfram að klippa; svo spyr hún mig hvort ég ætli að halda þessu "new look" mínu og ég gaf nú lítið út á það. Það færi náttúrulega eftir því hversu grá ég væri orðin. Svo klikkir hún út með því að "nei ég muni láta lita á mér hárið innan tíðar - ég væri alltof ung fyrir þetta look".

Þannig að þetta var svo sem ekki dulin meining hjá henni - ég er alltof gráhærð :-)

mánudagur, 11. október 2010

11. október

Í dag hefði pabbi orðið 65 ára. Það er ekki nokkur leið að ég sjái hann fyrir mér 65 ára - hann var bara 56 ára þegar hann dó.

Félagsmál

Ég hef verið meðlimur makaklúbbsins - Association of Diplomatic Spouses - hér í Windhoek síðan október 2007 - tók þá strax við sem ritari klúbbsins og í apríl 2009 varð ég forseti.

Meðlimir klúbbsins koma frá öllum heimshornum, Zimbabwe, Zambiu, Angola, Botswana, Egyptalandi, Indónesíu, Kína, Finnlandi, Rússlandi, Þýskalandi, svo nokkur lönd séu nefnd.

Það hefur verið alveg meiri háttar skemmtilegt að starfa með þessum samtökum og að kynnast þessum konum. Hópurinn hefur orðið mín önnur fjölskylda. En þar sem veru minni hér í Namibíu fer að ljúka kom að því að ég varð að segja af mér og í ágúst tilkynnti ég uppsögn mína bæði sem ritari og forseti. Uppsögnin tók svo gildi um mánaðarmótin sept - okt. Þessi mynd var tekin í tilefni síðasta fundarins þar sem ég var forseti.

Oh, ég á eftir að sakna þessa hóps mikið - en svona er lífið.

Soroptomistar

Eins og ég talaði um um daginn, sjá hér - þá er ég meðlimur í hópi sem er að reyna að koma soroptomista klúbbi á laggirnar hérna í Windhoek. Við höldum fundi reglulega og þessi mynd var tekin á síðasta fundi okkar. Við vorum fáliðaðar á þessum fundi, einungis níu, yfirleitt erum við um 15 sem mætum á fundi. En þetta er sterkur hópur og ég er þess fullviss að næsta vor verði búið að ganga frá öllum formsatriðum varðandi klúbbinn.

Að sjálfsögðu mættum við allar í einhverju bleiku svona í tilefni þess að október mánuður er cancer awareness mánuður.

Tækjafrík

Villi kom heim í gær og að sjálfsögðu kom hann ekki tómhentur - frekar en fyrri daginn. Við fjölskyldan stórgræðum á þessu flakki í honum :-)

Hann færði mér þennan líka flotta Docking Speaker - hátalara fyrir iPodinn minn - geggjað og ekki skemmir liturinn fyrir, skærbleikur.

iPodinn fékk ég í afmælisgjöf í vor og þetta er sennilega sú græja sem ég nota hvað mest. Ég hef keypt fullt af bókum til að hafa á honum og svo ligg ég uppi í rúmi á kvöldin og les. Villi er líka mjög ánægður með þetta því ég þarf þá ekki að hafa ljós á lampanum mínum alla nóttina :-)

Svo er hérna önnur græja sem ég fékk í afmælisgjöf í fyrra - digital myndarammi og hann er algjör snilld. Mér finnst þessi hugmynd alveg meiriháttar.

Það er kannski eitthvað til í því sem Villi segir, þ.e. að ég sé tækjafrík :-)


sunnudagur, 10. október 2010

Sunnudagsmorgunn

Við Rúnar erum í stökustu vandræðum - þar sem Villi er ekki heima þennan sunnudagsmorguninn fáum við hvorki íslenskar pönnukökur né vöfflur í morgunmat ;-(