Powered By Blogger

föstudagur, 24. september 2010

BÚIN

Jæja þá kom að því, ritgerðin hefur verið samþykkt af leiðbeinanda og prófdómara og er m.a.s komin í prentun :-) Þetta er alveg yndisleg tilfinning. Ég læt náttúrulega prenta slatta af eintökum af svona mikilvægum grip :-)

Ég taldi mig vera búin að fá meira en nóg af ritgerðinni um daginn og gat bara ekki hugsað mér að þurfa að lesa hana aftur yfir. Haldiði ekki að ég hafi komið sjálfri mér gjörsamlega á óvart. Ég las hana yfir og það fyrsta sem mér datt í hug var "Gulla mín, þetta er bara skolli professional hjá þér" he he. En svona í alvöru, þá fannst mér bara gott að lesa yfir hana.

Svo þarf ég bara að hafa samband við uppáhalds máginn minn og vona að hann geti sótt eintökin úr prentun :-/


Litadýrð

Mér finnst vorið hér í Namibíu alltaf með fallegri árstíðum, það er svo mikil litadýrð út um allt. Trén eru ýmist fjólublá, rauð, bleik, gul, appelsínugul, og blá (ég er örugglega að gleyma einhverjum lit). Þetta er alveg ótrúlega fallegt að sjá. Ég verð eiginlega að munda myndavélina um helgina og henda svo inn myndum af þessum fallegu trjám. Það er m.a.s. eitt tré hérna rétt hjá okkur sem blómgast í kremuðum lit og verður loðið - það er bara eiginlega ekki hægt að lýsa þessu með orðum. Verð að taka myndir :-)


laugardagur, 18. september 2010

Fjáröflun

Dagurinn var tekinn snemma í morgun, svona fyrir að vera laugardagur. Ég er í skólastjórn í einum skóla hér í borg og við höfðum ákveðið að hafa fjáröflun fyrir skólann í dag. Það er heilmikil undirbúningsvinna sem liggur að baki svona degi. Við grilluðum og það þurfti að útvega kjöt, svo þurfti að setja upp tjöld til varnar sólinni og ýmislegt annað.

Rúnar Atli þvertók fyrir það að fara með mér þannig að það þurfti að ræða við Flora um að koma hingað í morgun og vera í ca 3 tíma. Því svo fór Rúnar Atli í afmæli og þá gat hún farið heim.

Það var heilmikið um að vera í skólanum og margt að gera fyrir litlu krakkana, eins og hoppukastali, andlitsmálning, vatnsleikir o.fl. Þetta var mjög skemmtilegur dagur.

Ég var að vona að dagurinn yrði ekki mjög heitur, en gendólína mín :-) Þegar við Rúnar Atli komum heim lagðist ég út á pall og steinsofnaði alveg úrvinda eftir hitann. Rumskaði við einhvern óheyrilegan hávaða innan úr stofu þar sem Rúnar var að dunda sér, hlustaði í smástund og í stað öskurs talaði hann bara við sjálfan sig þannig að ég var örugg um að gaurinn væri ok og dottaði aftur í nokkrar mínútur.


Þetta er hluti skólastjórnarinnar, Leah, Patricia, ég og Isobel.

Það var að sjálfsögðu hin hefðbundna bílaþvottastöð og krúttlegi kagginn var tekinn í gegn :-)

föstudagur, 17. september 2010

Rólegheit

Villi er á ferðalagi í Rundu og við Rúnar Atli ákváðum að í stað þess að elda kvöldmat í kvöld fyrir tvo þá sé bara málið að fara út að borða :-)

Notalegt

þriðjudagur, 14. september 2010

Kom aððí

Jæja það hlaut að koma að því að ég heyrði frá prófdómaranum varðandi ritgerðina mína. Ég fékk sem sagt póst frá leiðbeinandanum mínum í dag með umsögn prófdómarans. Það er eins gott að hún gerir bara nokkrar smávægilegar athugasemdir sem ekki verður mikið mál að lagfæra. Því ef ég á að segja eins og er þá er ég komin með upp í kok af þessari blessaðri ritgerð.

Nú er bara að vona að ég nái að láta prenta hana og skila henni inn í háskóla fyrir 1. okt. Krosslegg fingur. Annars getur nú varla verið mikið að gera hjá Háskólaprent á þessum árstíma svo ég hef ekki mjög miklar áhyggjur eins og er :-)

Krúttlega krúttið mitt

Það er alveg á hreinu að ég á eftir að sakna krúttlega krúttsins míns. Ef stýrið væri "réttu" megin er engin spurning að kagganum yrði komið til Íslands. Það er voðalega góð tilfinning að geta gengið að bílnum vísum hér fyrir utan hús. Þetta er smá hint til Tinnu minnar - en auðvitað vildi ég heldur hafa hana hérna heima heldur en að getið gengið að bílnum þegar ég vil. Ég held það sé bara engin spurning :-)

þriðjudagur, 7. september 2010

Soroptomistar

Ég er í nefnd sem er að reyna að koma Soroptomista-klúbbi á koppinn hér í Namibíu. Nefndin hittist nokkuð reglulega og svo einu sinni í mánuði er almennur fundur. Þetta gengur ósköp hægt en samt komumst við alltaf aðeins áfram. Var einmitt á nefndarfundi í gær - ein úr nefndinni var að koma af ráðstefnu þessara klúbba í Suður Afríku.

Það eru um 3000 slíkir klúbbar í 125 löndum heimsins. Markmið Soroptomista er að efla og styrkja konur og börn. Þetta er mjög skemmtilegt starf og það eru svo mörg mál hérna í Namibíu sem slíkur klúbbur getur aðstoðað. Það er líka gaman að taka þátt í stofnun svona klúbbs.

Ótrúlegt hvað maður finnur sér alltaf eitthvað til dundurs :-)