Powered By Blogger

laugardagur, 6. febrúar 2010

Samræður

Rúnar: Mamma, hvenær verð ég nógu gamall til að fá tölvu?

Mamma: Af hverju þarft þú tölvu?

Rúnar: þegar ég þarf að senda skilaboð og svoleiðis, þú veist eins og pabbi.

Mamma: ja ég hef bara ekki velt því fyrir mér, ég skal hugsa málið

Rúnar: okey

Frystikista í farangrinum

Ég er meðlimur í samtökum hér í borg – sem ég kalla “makaklúbbinn”. Við í klúbbnum reynum að láta gott af okkur leiða þar sem við getum. Á fimmtudaginn ákváðum við fjórar úr þessum klúbbi að leggja land undir fót og fara til Gobabis (200 km frá Whk). Þannig er nefnilega mál með vexti að við höfðum fengið beiðni frá skóla sem er ca 65 km fyrir austan Gobabis um hvort við gætum gefið þeim frysti. Við skólann er starfrækt heimavist og bændurnir í kring gefa skólanum af og til kjöt en skólinn hefur ekki haft aðstöðu til að geyma slíkan mat og því hafa krakkarnir þurft að klára kjötið sem fyrst svo það skemmist ekki. Þar af leiðandi mun frystir koma að góðum notum.

Við leituðum að góðum frysti og fundum einn slíkan og reyndum eins og við gátum að kríja út smá afslátt en við erum greinilega ekki nógu góðar í svoleiðis umleitunum J En frystinn keyptum við nú þrátt fyrir það.

Á fimmtudaginn var kom svo loks að því að afhenda skólanum frystinn og við ákváðum nokkrar að skella okkur og afhenda hann í eigin persónu. Flestir nemendur við skólann eru San og var tekið á móti okkur af þeirra sið, þ.e. með söng og dansi og það er alltaf jafn gaman að því.

Í skólanum eru um 480 nemendur en á heimavistinni eru rúmlega 300. Við röltum okkur um skólalóðina og fengum að kíkja inn á heimavistina sem telur nokkur hús. Í hverju húsi er þröngt á þingi og sofa t.d. 30 – 40  strákar í einu húsinu en þar voru nú ekki nema 9 rúm. Þannig að það sofa nokkrir í hverju rúmi og svo er einnig gist á gólfinu.

Skólinn hefur yfir að ráða bókasafni sem er nú reyndar vanbúið af bókum en reglusemin er ekki minni en við eigum að venjast.

Ferðin var mjög fróðleg og það er gaman að kynnast aðstæðum sem fólk býr við og sjá færni þeirra í því að gera gott úr litlum efnum. Við vorum allar mjög ánægðar með ferðina og erum vissar um að frystirinn eigi eftir að koma að góðum notum.

Hér eru nokkrar myndir úr heimsókninni í skólann

Þetta er eldunaraðstaðan fyrir heimavistina


Bókasafnið


San-börnin að bjóða okkur velkomin



Svo er bara að snúa sér að næsta verkefni sem verður að aðstoða frábært setur í Katutura, Mountain Sinai Centre. En verkefnið tengist því að varna smiti frá eyðnismituðum mæðrum til barna sinna. Þetta er frábært verkefni og konan sem hóf það og stýrir er stórkostleg. En meira um það síðar.

miðvikudagur, 3. febrúar 2010

Auknar kröfur

Leikskóli og forskóli er greinilega ekki það sama. Forskólinn er miklu meira "structured" en leikskólinn, nú hefst vinnan fyrir alvöru :-) Í leikskólanum máttu krakkarnir t.d. tala ensku sín á milli, þau sem eru enskumælandi, en kennararnir töluðu alltaf þýsku við krakkana og þeir áttu að svara á þýsku. En í forskólanum MEGA krakkarnir ekki lengur tala ensku sín á milli, nú er það bara þýskan takk fyrir. Rúnar fer nú sem betur fer létt með þetta enda svo sem verið í þýskum leikskóla í fjögur ár - svo skárra væri það nú. Þetta ár fer í það að undirbúa þau fyrir 1. bekk og það er margt sem þarf að læra. Það þarf t.d. að læra að bíða þangað til að kemur að þeim, það þarf að hlusta á kennarana og fara að fyrirmælum, það þarf að kunna að standa í röð og hafa hljóð á meðan. 

Svo í haust mun sálfræðingur skólans meta það hvort krakkarnir séu tilbúnir í 1. bekk - ef ekki þá fara þeir aftur í forskólann. Engin miskunn.

laugardagur, 30. janúar 2010

Fjölgun í fjölskyldunni

Bekkurinn hans Rúnars Atla fékk nýja "nemendur" í gær, voru það fiskar og froskar. Hann var mjög hrifinn af þessu og forvitnaðist hvort foreldrar hans væru til í að kaupa fiska handa honum.  Jú jú, gamla settið tók ekki illa í það. Svo í morgun fóru feðgarnir í bæinn og komu heim með fiskabúr og 10 fiska. Hann er voða ánægður með sig og tekur þessu af mikilli alvöru. Svo á hann bara eftir að finna nöfn á allt gengið. Hann velti fyrir sér Nemó Andrésson á einn þeirra - en ætlar að sjá til áður en hann ákveður þetta alveg :-)

sunnudagur, 24. janúar 2010

Komið árið 2010

Þá er komið að fyrsta bloggi mínu á þessu ári. Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða - en er ekki sagt að þegar gaman er líður tíminn hratt?? :-)

Ferðalagið hingað út gekk alveg ágætlega og það var gott að komast heim aftur. Með hverju árinu tekur það mig alltaf lengri og lengri tíma að jafna mig eftir langa flugið - skrítið :-)

Rúnar Atli byrjaði svo í "stóra" skólanum í síðustu viku og það var mikil hamingja þegar allir vinirnir hittust aftur. Annars er hann bara hress og kátur eins og hans er von og vísa. 

Ég á eitthvað erfitt með að koma mér í gang aftur eftir langt frí - er þó búin að drattast til að panta kennslubókina sem ég þarf í eina faginu sem ég tek þessa önn. En svo þarf ég að fara að leggjast yfir rannsóknina mína og ákveða hvað nákvæmlega ég ætla að rannsaka. En, eins og ég sagði, þá er ég eitthvað sein í gang. Ég kemst örugglega á skrið í næstu viku - segjum það alla vega :-)


fimmtudagur, 3. desember 2009

Komin heim

Þá er ég búin að vera á Íslandi í tæpa viku og hafa það ágætt. Ferðalagið heim gekk þokkalega. Lenti reyndar í því að þurfa að sitja í miðjusæti í langa fluginu og var klesst á milli tveggja kalla - annar frá Hollandi og hinn frá Englandi - mjög viðeigandi í ljósi stöðunnar :-)

Það var heldur þröngt um mig og ég eyddi allri nóttinni í að horfa á vídeómyndir og gat þannig lifað flugið af. Svo fór vel um mig á eðalstofunni í London og var orðin óþreyjufull eftir að komast í Flugleiðavélina - en lenti þá í tveggja tíma töf. Það var eitthvað sem bilaði í vélinni og það þurfti að laga það, eðlilega. Loksins lenti ég þó í Keflavík en taskan ákvað að vera tvo aukadaga í London. 

Ég viðurkenni fúslega að ég hef gert lítið sem ekkert þessa tæpu viku hérna heima. Nema ég náði að klára aðra ritgerðina í gær og skilaði henni í morgun. Eins held ég að hin ritgerðin sé á réttu róli og ég hef nú ekki áhyggjur af henni. 

Nú bíð ég bara eftir að Villi og krakkarnir komi heim því það er hálfeinmanalegt að vera ein hérna í Æsufellinu :-)

fimmtudagur, 5. nóvember 2009

Með fiðring í maganum

Það ríkir mikil spenna á heimilinu vegna fyrirhugaðrar Íslandsferðar. Alla vega erum við Rúnar Atli mjög spennt og tölum mikið um það. 

Ég verð komin heim eftir 22 daga - bara þrjár stuttar vikur og hitt liðið mitt kemur svo til Íslands átta dögum síðar. 

Ég hlakka alveg hreint ótrúlega til en hef því miður lítinn tíma eins og er til að stunda dagdrauma um Íslandsferðina. Það er heilmikið að gera, ég þarf að ljúka tveimur ritgerðum, útbúa próf fyrir nemendur mína - prófið þeirra verður þann 23. - þá tekur við prófyfirferð og að skrifa comment um hvern og einn nemanda. Svo þyrfti ég að skjótast til Gobabis með frystiskáp fyrir einn skóla þar frá makaklúbbnum. En það góða við þetta er þó að tíminn líður mjög hratt :-)

Tinna Rut þarf reyndar að fara í það núna að pakka niður og ganga frá öllu sínu dóti. Ákveða hvað hún ætlar að taka með sér til Vesturheims og hvað hún ætlar að skilja eftir hjá okkur. Það rann upp fyrir henni (svona fyrir alvöru) í gær að hún á bara eftir að vera hérna í fjórar vikur. Eftir átta ára búsetu í Namibíu á hún bara fjórar vikur eftir og hún veit ekki alveg hvernig henni líður með það. Hún er náttúrulega spennt að byrja nýtt ár á nýjum stað og í nýjum skóla. En hér skilur hún við yndislega vini, góðar minningar og bara gott líf. Þannig að spenningur og eftirsjá takast á hjá henni.