Powered By Blogger

fimmtudagur, 5. nóvember 2009

Með fiðring í maganum

Það ríkir mikil spenna á heimilinu vegna fyrirhugaðrar Íslandsferðar. Alla vega erum við Rúnar Atli mjög spennt og tölum mikið um það. 

Ég verð komin heim eftir 22 daga - bara þrjár stuttar vikur og hitt liðið mitt kemur svo til Íslands átta dögum síðar. 

Ég hlakka alveg hreint ótrúlega til en hef því miður lítinn tíma eins og er til að stunda dagdrauma um Íslandsferðina. Það er heilmikið að gera, ég þarf að ljúka tveimur ritgerðum, útbúa próf fyrir nemendur mína - prófið þeirra verður þann 23. - þá tekur við prófyfirferð og að skrifa comment um hvern og einn nemanda. Svo þyrfti ég að skjótast til Gobabis með frystiskáp fyrir einn skóla þar frá makaklúbbnum. En það góða við þetta er þó að tíminn líður mjög hratt :-)

Tinna Rut þarf reyndar að fara í það núna að pakka niður og ganga frá öllu sínu dóti. Ákveða hvað hún ætlar að taka með sér til Vesturheims og hvað hún ætlar að skilja eftir hjá okkur. Það rann upp fyrir henni (svona fyrir alvöru) í gær að hún á bara eftir að vera hérna í fjórar vikur. Eftir átta ára búsetu í Namibíu á hún bara fjórar vikur eftir og hún veit ekki alveg hvernig henni líður með það. Hún er náttúrulega spennt að byrja nýtt ár á nýjum stað og í nýjum skóla. En hér skilur hún við yndislega vini, góðar minningar og bara gott líf. Þannig að spenningur og eftirsjá takast á hjá henni.

Lærdómur

Undanfarna daga hefur Rúnar haft mikinn áhuga á "skólaleik" og hann og Flora læra og læra. Svo eftir að Flora var farin heim í gær hélt hann áfram að skrifa stafi og finna orð og þess háttar. Þetta gekk rosa vel hjá honum og hann tók þessu mjög alvarlega. Svo rétt fyrir kl. átta í gærkveldi þurfti Villi að skjótast til að sækja Tinnu þar sem hún var að koma í bæinn. Þegar Rúnar var spurður hvort hann vildi ekki fara með pabba sínum að sækja elsku Tinnu þá var hann nú til í það. Nema, það var smá vandamál, hann var nefnilega ennþá að læra. Ég sagði honum að stundum þegar maður er að læra er bara nauðsynlegt að taka pásu. Þá heyrist í mínum "Oh ég vissi það ekki".

Þetta er yndislegt og vonandi helst þessi mikli áhugi um ókomin ár :-)

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Sundkennsla

Rúnar Atli hefur verið í sundkennslu í vel á þriðja ár og er orðinn rosalega duglegur. Hann fer alltaf vikulega og eru krakkarnir sóttir í leikskólann. Þessa viku er leikskólinn í fríi og var okkur boðið að koma með Rúnar í sund sjálf og fylgjast með honum. 

Í morgun fóru þeir feðgar í sund og Villi náði nokkrum myndum. Núna er Rúnar að læra bringusund, flugsund, skriðsund og baksund. Þetta er alveg frábært og hann skemmtir sér voða vel.





Dansleikur

Síðast liðið föstudagskvöld var lokadansleikur hjá Tinnu Rut og hennar skólasystkinum. Þetta var alveg meiriháttar flott og allt dúlleríið í kringum þetta var ekkert smá. Hún þurfti að verða sér úti um kjól og fann hún saumakonu sem gat hannað kjól akkúrat eins og hún sjálf vildi. 

Að sjálfsögðu þurfti svo að finna skó sem fóru við kjólinn og eins veski. Svo þurfti að fara í handsnyrtingu, klippingu og litun. Allt þetta var verið að vinna í síðustu dagana fyrir dansleikinn. Á sjálfan daginn var byrjað á að fara í nudd, svo hárgreiðslu og förðun. Svo var búið að redda því að eldgamall Chevy kom og sótti þau. 

Þetta var svona "once in a life time" upplifun held ég.

Allt tilstandið var nú alveg þess virði því hún leit alveg rosalega vel út gellan :-) Tekur sjálfsagt eftir henni mömmu sinni þessi elska. 

Kvöldverðurinn og dansleikurinn tókust mjög vel og vorum við á staðnum til að verða miðnætti. Þá var nemendahópurinn farinn að þynnast því þeir vildu komast eitthvert þar sem foreldrar og kennarar væru hvergi sjáanlegir :-) Þannig að um miðnætti kom hún heim og skipti um föt og far svo rokin út á klúbb. Hún hafði fengið mig til að samþykkja það að þetta kvöld væri hún ekki með neinn útivistartíma og ætla ég ekkert að tjá mig um það hvenær stúlkan kom heim. En hún hélt reglunni okkar og sendi mér sms á klukkutímafresti allan tímann.

Hér eru nokkrar myndir af kvöldinu.









Komast aftur í blogg-gírinn

Ég hef verið alveg ótrúlega löt við að blogga undanfarnar vikur en ætla að reyna að bæta úr því hið fyrsta.

Það styttist óðum í það að Rúnar Atli verði fimm ára og var tekið forskot á sæluna um daginn. Við ákváðum að halda smá afmæliskaffi áður en Dagmar Ýr og Doddi fóru til síns heima. Rúnar var að sjálfsögðu alsæll með þetta fyrirkomulag og eins og myndirnar bera með sér var hann meira en sáttur við pakkana sem hann fékk.









fimmtudagur, 16. júlí 2009

Rökræðusnilld

Hann sonur minn á það til að vera ansi latur að gera hlutina sjálfur, svona eins og að klæða sig á morgnana eða hátta sig á kvöldin. Honum finnst voðalega gott að láta foreldra sína bara sjá um þetta. Mamman var eitthvað að flýta sér eitt kvöldið og bað hann nú að byrja að hátta sig sjálfur. Þetta var stutt samtal því ég varð bara kjaftstopp og vissi ekki í fljótu bragði hvernig ég átti að svara þessu.

Mamman: Rúnar minn þú ert orðinn svo stór strákur að þú átt að hátta þig sjálfur, þeir sem eru að verða fimm ára eiga að gera þetta sjálfir.

Rúnar Atli: Hvernig veistu það?


fimmtudagur, 18. júní 2009

Svartur dagur

Æi þá kom að því að við Villi þurftum að endurnýja örbylgjuofninn okkar. Þetta var orðið hið versta mál því heimasætan gat ekki poppað sér almennilega því ofninn var bara svo til hættur að virka. Það var ekki hætt að suða fyrr en nýr örbylgjuofn var kominn í hús. Ég fór tvisvar í búð að skoða nýjan grip en gat bara ekki ákveðið mig og fannst mjög erfitt að þurfa að kaupa nýjan. 

Ástæða þess að þetta var svona erfitt fyrir mig er sú að við Villi fengum þennan ofn í brúðkaupsgjöf fyrir tæpum 23 árum - takk fyrir. Ofninn hefur fylgt okkur Villa í þrjár heimsálfur og aldrei klikkað. Hann er algjör snilld - allt hægt að gera í honum og ég er sannfærð um að þrátt fyrir háan aldur þá er hann enn sá besti og fullkomnasti á markaðnum - ekki spurning. 

Vonandi er þetta ekki "omen" um það sem koma skal, þ.e. að fleiri breytingar og endurnýjanir séu í vændum eftir tæp 23 ár :-)