Powered By Blogger

mánudagur, 27. apríl 2009

Veitingahús

Það kemur fyrir að við hjónin nennum engan veginn að elda kvöldmat og er þá bara farið út að borða. Við förum nú alltaf á hefðbundna veitingastaði - pizzur, steikhús, e.þ.h. -. Við höfum reyndar ekki um marga staði að velja því ekki allir fjölskyldumeðlimir eru sáttir við sömu veitingahúsin.

Um daginn reyndum við þó eitthvað nýtt og fórum á Owambo veitingastað í Katutura. Eftir að hafa lesið matseðilinn þótti mér nú öruggast að fá mér hvítvínsglas sem borið var fram í tréglasi :-) 

Á matseðlinum var margt á boðstólum eins og soðinn/steiktur kjúklingur, þurr fiskur, alls kyns mauksoðið grænmeti, geitarhaus, mopane ormar og eitthvað fleira. Allt var borið fram í tréskálum og diskarnir voru einnig úr tréi. Engin voru hnífapörin þannig að notast varð við guðsgaflana. Enda var komið með vatnsskál svo hægt væri að þvo sér um hendur áður en maturinn var borinn fram. 

Bekkirnir sem setið var á voru trjádrumbar sem búið var að skera út setur í og borðin voru bæði lítil og ansi nálægt moldargólfinu. Ég neita því ekki að eftir að hafa setið þarna í dágóða stund var ansi erfitt að koma sér aftur á fætur :-)

Ég get nú ekki sagt að ég hafi farið heim södd en þetta var mjög skemmtileg reynsla.


föstudagur, 24. apríl 2009

Alsæla

Ostar, kex, vínber, hvítvín og The best of Haydn á föstudagseftirmiðdegi - þetta er lífið :-)

sunnudagur, 19. apríl 2009

Orðaforði

Það verður nú að segjast eins og er að búseta okkar erlendis undanfarin 18 ár (með smá hléi) hafi haft áhrif á íslenskan orðaforða barnanna okkar. En við lásum alltaf mikið fyrir stelpurnar á sínum tíma og núna fyrir Rúnar Atla. Villi var svo séður að taka tvær góðar bækur með sér hingað út (svona fyrir utan allar hinar). En þessar tvær heita "sögur afa og ömmu" og "sögur pabba og mömmu". Þetta eru bækur sem voru gefnar út fyrir um 40 árum og orðanotkunin er oft skrítin fyrir okkur nútímabörnin. En Rúnar hefur voða gaman af þessum sögum og ég held að Villi hafi jafn gaman af því að lesa sögurnar fyrir hann. 

Í gær vorum við eitthvað að spjalla saman, hann, ég og Villi. Þá heyrist í mínum "ég ætla að skipta um roð". Ha?? Við Villi vorum nú ekki alveg að fatta þetta og reyndum að spurja hann aðeins út í þetta. Kom þá í ljós að hann hafði skipt um skoðun. En ruglað þessu svona saman - spurning hvort orðaforða-kennsla okkar Villa sé ekki að virka he he :-) 

fimmtudagur, 5. mars 2009

Þetta gerist ekki betra

Hann sonur minn getur verið alveg yndislegur - svona inn á milli :-)

Í dag var ég inni eldhúsi og hann er hlaupandi fram og til baka á fullu. Svo allt í einu stoppar hann og segir við mig "mamma, ég elska þig sannarlega mikið". 


Mér finnst sólin góð!!

Ákvað að blogga um elsku sólina og sjá hvort það hafi áhrif á veðrið :-) Heyrði reyndar í útvarpinu í morgun langtímaveðurspá fyrir Windhoek og það á að rigna fram á þriðjudag í næstu viku, þann dag á að vera þurrt - jahúúúuu. 

Svo er bara spennandi hvað gerist eftir það. 

mánudagur, 23. febrúar 2009

Mér finnst rigningin góð!!

Það hefur rignt alveg ótrúlega hérna undanfarnar vikur og stundum verður manni bara ekki um og ó. Þrumurnar og eldingarnar eru alveg meiriháttar og úrhellið sem fylgir er frábært. 

Þegar rignir svona mikið þá verða sumar göturnar erfiðar yfirferðar og m.a.s. lokar Nelson Mandela oft þegar þannig stendur á. Ég þrusa dæjanum mínum í gegnum þetta allt saman og Rúnar finnst það alveg "stórkostlegt" svo ég noti hans eigin orð. Í dag kom svo í ljós að númeraplatan að framan af kagganum mínum er horfin og hefur sennilega dottið af í einhverri ferðinni í gegnum vatnselginn :-) Ég verð greinilega að fara varlegar með elsku bílinn minn.

Læt tvær myndir fylgja með sem teknar eru af pallinum hérna en þær ná samt ekki alveg að sýna úrhellið. 

Lego æði

Nú er Rúnar Atli gjörsamlega dottinn í Lego-ið. Honum finnst alveg æði að sitja og búa til bíla, gröfur, nú eða þyrlur. Það er góð leikfangabúð hérna í borginni sem selur Lego og þangað vill Rúnar fara reglulega og helst annan hvern dag. Við förum nú ekki alveg svona oft með hann þangað en Tinnu Rut finnst við þó fara alveg nógu oft með hann. 

Um hverja helgi spyr hann hvort við þurfum ekki að fara í Sam hobby´s - stundum gefum við eftir og skreppum og skoðum og jú jú oft kaupum við eitthvað Lego. Hérna var hann nýbúinn að fá þyrluna sína. Hann var svo ánægður því hann var lengi búinn að sverma fyrir henni, okkur hefur fundist hún vera of stór en svo kom stóri dagurinn og hann fékk að kaupa hana. Það eru mörg hundruð kubbar, pínulitlir og "skemmtilegir" í kassanum. Það tók hann um hálfan dag að setja þyrluna saman og um leið og hann var búinn vildi hann taka hana í sundur til að byrja aftur. Foreldrarnir voru nú ekki tilbúnir í það fyrr en daginn eftir. Því þó hann setur dótið saman þá þurfum við að taka það í sundur.