Powered By Blogger

miðvikudagur, 11. júlí 2012

Göngutúr 1

Ég hef verið að velta fyrir mér hvað ég eigi að gera við tímann á meðan Rúnar Atli er á sínum námskeiðum allan daginn. Ekki get ég endalaust farið að versla eitthvað - eins og Villi segir; hvernig ætla ég eiginlega að koma öllu því sem ég hef keypt í ferðatöskuna mína :-)

Um daginn rak ég svo augun í þessa fínu bók í bókahillunum hjá okkur "25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu" og hef verið að fletta henni. Mér líst mjög vel á margar þessara gönguleiða og reyndi mitt besta til að fá Rúnar Atla með mér í einn göngutúr í gær. Hann hélt nú ekki, hann var svo þreyttur eftir námskeiðið að hann gat bara varla hreyft sig. Honum fannst ég bara geta gert þetta göngustúss á meðan hann er á námskeiðum.

Það verður nú að viðurkennast að gaurinn var alveg búinn á því, enda er hann úti í endalausu stússi frá kl. 9 á morgnana og til kl. 4 á daginn. En um leið og vinirnir banka upp á þá er þreytan horfin eins og hendi sé veifað :-)

En sem sagt þá dreif ég mig af stað í morgun og ákvað að ganga í kringum Vífilsstaðavatn. Það er ótrúlega fallegt þarna og búið að gera svæðið mjög flott. Gangan er nú ekki nema 2,3 km og með endalausu stoppi til að taka myndir og bara til að dást að umhverfinu tók þessi stutti túr mig 45 mínútur.

Það voru nokkrar andamömmur með ungana sína á vatninu og eins var eitt gæsapar með sína unga. Um leið og ég kom inn á göngustíginn tók Hrossagaukur fallega á móti mér, eins var náttúrulega blessuð krían á staðnum. Hún var ekki sátt við göngugarpa á svæðinu og lét finna fyrir sér :-) Það vildi til að ég var með bókina góðu með mér og gat því borið hönd fyrir höfuð mér, ja eða bók fyrir höfuð mér :-) Góð he he he

Ég er nú ekki þekkt fyrir göngutúra né að velta fyrir mér gróðri og fuglum, en fannst þetta alveg rosalega skemmtilegt. Nú þarf ég bara að finna mér góðar og handhægar bækur yfir íslenskan gróður og fugla til að læra að þekkja svona það helsta. Þetta þurfa að vera þannig bækur að ég geti tekið þær með mér og flett upp því sem fyrir augu ber. Ef þið hafið einhverjar hugmyndir að slíkum bókum, endilega látið mig vita.

En nú er stefnan sett á að taka nýjan göngutúr á hverjum degi næstu tvær vikurnar. Ég á enn eftir að ákveða hvert ég fer á morgun, sef á því í nótt.

Ég er helst hrædd við að villast og finna ekki bílinn minn aftur. Ég tapa svo auðveldlega áttum að það er hræðilegt. Þannig að ef þið heyrið eftirfarandi í útvarpinu þá bið ég ykkur að hafa mig í huga: "Leitað er að konu á fimmtugsaldri sem týndist á höfuðborgarsvæðinu, hálf blind og heyrnarlaus"

Það er gott að geta hlegið að sjálfri sér :-)

Hér koma myndir frá Vífilsstaðavatni



sunnudagur, 8. júlí 2012

Safnadagurinn

Þessi helgi hefur verið ósköp góð. Gærdeginum eyddum við í búðarráp og fundum eitt og annað sem okkur langaði í :-) Í dag var það svo safnadagurinn. Rúnar greip það í sig um daginn að vilja fara á söfn í sumar og við vorum búin að ákveða að kíkja á Árbæjarsafnið, Þjóðminjasafnið, Sjóminjasafnið, Listasafn Reykjavíkur og Ásmundarsafnið. Þar sem safnadagurinn er í dag þótti okkur alveg tilvalið að þræða nokkur söfn í dag. Við byrjuðum á Árbæjarsafni í morgun og hann gat sagt mér heilmikið. Því leikjanámskeiðið fór í þetta safn um daginn. Svo lá leiðin í Sjóminjasafnið og að sjálfsögðu kíktum við um borð í Óðinn. Rúnari fannst það alveg meiri háttar gaman :-)

Svo er grillveisla í Eyjabakkanum á eftir. Helgarnar verða ekki mikið betri en þetta :-)

Læt nokkrar myndir fylgja með úr Óðni

 Lætur fara vel um sig í matsalnum.

 Ekki mikið mál að stjórna eins og einu varðskipi :-)



föstudagur, 6. júlí 2012

Afmælisgjöf

Ég bara verð að sýna ykkur hvað hún Dagmar Ýr gaf mér í afmælisgjöf um daginn. Þetta er ótrúlega flott hjá henni og ég í skýjunum með gjöfina. Það er bara spurning hvort ég tími að nota þær :-) Þetta eru sex stykki diskamottur útsaumaðar í harðangur - geggjað flottar.

Annað námskeið

Þegar keilunámskeiðinu hjá Rúnari Atla lauk, tók við annað námskeið. Nú er það reið- og leikjanámskeið. Á morgnana er hann í hestastússi og eftir hádegi er hann á leikjanámskeiði. Hann var á svona námskeiðum í fyrra og skemmti sér svona vel að það var ákveðið að leyfa honum að fara aftur núna. Hann er m.a.s. skráður á tvö svona námskeið þetta sumarið.

Á leiðinni heim í gær af námskeiðinu bað hann um að fá að kíkja í búðina "Hestar og menn" því hann vildi skoða reiðbuxur. Jú jú, það var auðsótt og við beint þangað. Hann var ekki lengi að finna sér þessar fínu reiðbuxur og mamman lét undan og splæsti á hann. Menn verða jú að vera rétt græjaðir í hestastússinu :-)



Keila

Rúnar byrjaði fyrstu vikuna sína á Íslandi á að skella sér á keilunámskeið og skemmti sér mjög vel. Hann lærði hvað fella og feykja er og náði víst oft báðum. Námskeiðið var nú samt aðeins meira en bara keila, t.d. var farið í Nauthólsvík, Sundhöllina og þau voru mikið í útileikjum. Þetta var mjög gott námskeið og mælum við Rúnar eindregið með því.

Síðasta daginn var svo grillveisla og allir fengu viðurkenningarskjal og bol. Bolurinn var flottur en það setti smá strik í reikninginn hjá Rúnari að hann er merktur ÍR. Þeir sem til þekkja vita jú að Leiknir og ÍR eru erkifjendur og þar sem Rúnar er dyggur Leiknismaður þá finnst honum nú ekki auðvelt að vera í þessum bol. En þar sem keilunámskeiðið var víst á vegum ÍR þá er skiljanlegt að þeir merki sér bolina.


Það eina góða við bolinn er að þetta stendur á bakinu :-)


miðvikudagur, 13. júní 2012

Karate

Um síðustu helgi var haldið beltapróf í karate og það er alltaf jafn spennandi og skemmtilegt :-) Rúnar náði gula beltinu og var mjög ánægður. Ég fann enga góða mynda af honum með það belti, en hér eru nokkrar sem teknar voru á prófdaginn.

 Allir sestir niður og bíða spenntir eftir að byrja.

 Það er að sjálfsögðu byrjað á upphitun. Það væri nú gaman að geta þetta :-)

Hér eru svo vinirnir, Tadiwa frá Zimbabwe, Rúnar frá Íslandi og Malko frá Frakklandi. Þetta er alþjóðlegt lið enda í alþjóðaskóla :-)

sunnudagur, 10. júní 2012

Útsaumur

Um daginn kláraði ég útsaumsmyndina mína og fór með hana í innrömmun. Ég naut þess virkilega að sauma þessa mynd og er mjög ánægð með útkomuna. Ég hef oft átt í erfiðleikum með að velja ramma því þó mér finnist ramminn fallegur þegar ég er að velja þá er ekki þar með sagt að hann njóti sín utan um myndina. Mér finnst þetta alltaf voðalegt happa og glappa. En útkoman með þessa blómamynd er fín og litirnir njóta sín vel. Þetta sést betur ef þið veljið myndina og klikkið á hana.

Nú er ég á fullu að skoða munstur og ákveða hvað ég ætla að gera næst. Ég er reyndar með ákveðnar hugmyndir að nokkrum útsaumsmyndum og bíð spennt eftir að komast til Íslands til að kaupa efni í þær.