Powered By Blogger

mánudagur, 28. nóvember 2011

Garðurinn

Garðurinn er allur að lifna við enda sumarið komið. Það eru nokkur tré í garðinum, m.a. límónutré og avacadotré. Avacadatréð er svo stútfullt af avacado að það stendur varla undir sér. Það eru sjálfsagt nokkur hundruð avacadó á trénu. Í gegnum tíðina höfum við nú bara notað avacado í guacamole en við þurfum greinilega að leita að einhverjum uppskriftum þar sem avacado er notað. Því það er algjör synd ef við nýtum þetta ekki. Reyndar fundu Rúnar og einn vinur hans ágæta leið til að nýta avacadoið - þeir léku sér við að brjóta þau til að ná út steininum. Eins tók Rúnar sig til um daginn og vildi búa til nýtt avacadotré. Hann náði sér í ávöxt og við skárum utan af honum svo bara steinninn var eftir. Í steininn settum við þrjá pinna sem liggja svo ofan á fullu glasi af vatni. Þetta á að gera nýtt tré, alla vega samkvæmt skólanum. Þau eru víst að gera svona tilraun þar.
Svo eru tvö önnur tré með einhverja ávexti en ég man ekki hvað þeir heita, né þekki ég þá. Ég þarf að spyrja Philimone að því.
Ég set inn mynd af avacadotrénu þar sem það sést greinilega að ein greinin helst ekki upp vegna þunga af öllum ávöxtunum :-)

Nammi, namm

Merkilegt hvað salat úr eigin garði smakkast miklu betur en það sem keypt er út úr búð :-)

sunnudagur, 27. nóvember 2011

Aðventukransinn

Ég hef einfaldan smekk

laugardagur, 26. nóvember 2011

Handavinna

Ég hef hellt mér af fullum krafti í alls kyns handavinnu síðan ég kom hingað og komið mér í handavinnuklúbba sem hittast vikulega. Á þriðjudögum er bútasaumsklúbbur, en ekki erum við allar að sauma bútateppi; á miðvikudögum mæti ég í embroidery og á fimmtudögum hittumst við í mósaíkklúbbnum.
Þetta er virkilega skemmtilegt og gaman að kynnast hressum og kátum konum í gegnum þetta. Það hefur eiginlega komið mér á óvart hve skemmtilegt mér finnst að embroidera. Þetta hef ég aldrei gert áður, ég hef alltaf bara haldið mig við krosssauminn. En embroideríið er meiriháttar gaman.
Eins finnst mér mjög gaman að vinna í mósaík og hef lokið við tvo platta sem ég er bara þokkalega sátt við. Nú er ég byrjuð á þriðja verkinu og það verður Lazy Susan sem svo kallast. En þetta er kringlóttur platti sem snýst og mun ég nota hann sem ostabakka.
Svo er ég búin að tala eina kunningjakonu mína á það að kenna mér að vinna með Pewter - ég held það kallist Pjátur á íslensku. Ég hlakka mikið til að prófa þetta.
Ég læt fylgja með mynd af plöttunum mínum tveim sem ég vann í mósaík. Ég mun nota þá báða undir kerti. Eins og sést eru þeir ansi einfaldir sem er svo sem ágætt fyrir mig sem algjöran byrjanda. Enda verður Lazy Susan aðeins öðruvísi :-)


Sögur úr "sveitinni"

Það verður að segjast eins og er að síðasta vika var langt í frá auðveld. Það byrjaði strax á mánudagskvöldið, þá gaus upp þessi rosalega hitalykt eins og það væri að kvikna í. Ég geng hnusandi út um allt og kíki út til að sjá hvort lyktin komi þaðan. En nei, hún var sko hér inni og kom hún frá einu ljósi í ganginum. Ég hringi í dauðansofboði í Villa (hann var í burtu alla vikuna) og segist bara ekki geta sofið í húsinu því það sé lykt eins og það sé að kvikna í. Hann róaði mig nú aðeins niður og benti mér að slökkva á réttum takka í ragmangstöflunni sem ég og gerði. Lyktin dofnaði svo þegar leið á kvöldið en ég lagði þó ekki í að sofa inni í herbergi því ef það myndi kvikna í þá kæmust við ekki út úr húsinu. Hér eru rimlar fyrir öllum gluggum og hurðin sem er næst herbergjunum er hinum megin við þetta ljós. Ég endaði á því að bera Rúnar hálfsofandi inn í stofu og þar sváfum við eitthvað fram á nótt. En það fór afskaplega illa um okkur og rúmlega 3 vildi hann fá að komast aftur inn í herbergi. Þá var lyktin eiginlega alveg farin og ég sá að það yrði óhætt að sofa þar :-)

Morguninn eftir var rafvirki fenginn og jú mikið rétt það hafði brunnið yfir einhver transformer inn í ljósinu þess vegna kom þessi lykt.

Á þriðjudaginn tók svo við vatnsleysi sem stendur enn yfir. Á degi eitt var okkur sagt að það væri bara venjulegt viðhald í gangi og vatn yrði komið á síðar um daginn. En ekkert vatn kom. Á degi tvö var hringt aftur og þá fengum við þau svör að þar sem það væri svo mikill skortur á rafmagni væri ekki hægt að dæla vatni í tankana fyrir þetta hverfi. Á degi þrjú, fjögur og fimm var ekkert verið að hringja til að forvitnast.

Þessa vatnslausu daga hefur þó verið smá vatn í krönum snemma morguns þannig að við gátum burstað tennur og þvegið okkur í framan og sturtað niður í klósetti. En svo er bara varla meira vatn að hafa. Í fyrradag var reyndar hægt að þvo tvær vélar svo átti að reyna í gær en það er allt stopp og þvotturinn enn í vélinni.

Til þess að toppa þessa vatnslausu daga var rafmagnið líka tekið af. Það er nú normið hér í hverfinu sem við búum í, þ.e. að rafmagnið er tekið af okkur nokkrum sinnum á dag í ca 1 - 2 tíma í senn. En í gær tók nú alveg steininn úr, þá var rafmagnslaust í fimm tíma yfir hádaginn í 32 stiga hita og raka. Mjög næs, það var ekki einu sinni hægt að kveikja á viftu. Við höfum reyndar rafal en hann gengur fyrir bensíni og hann er bara notaður spari, því hér er ekki hlaupið á næstu bensínstöð til að kaupa bensín.

Ég bað Villa að athuga með þvottavélina því það þýðir ekki að hafa þvottinn í henni í marga daga, hann myglar bara. Hún var alveg dauð en ef hann ýtti aðeins á innstunguna þá kom smá ljós en svo ekki söguna meir. Hann skoðar þetta þá aðeins betur og það segir sig náttúrulega sjálft að þetta eilífa rafmagnsleysi fer ekki vel með hlutina, eins og þessi mynd sýnir.

Annars reyni ég nú yfirleitt að taka bara Pollýönnu á þetta og er afskaplega æðrulaus en svei mér þá ef Pollýanna er ekki bara farin í frí :-)

laugardagur, 19. nóvember 2011

Þar munaði mjóu....


Á föstudögum finnst okkur afskaplega gott að hafa heimabakaða pizzu í kvöldmat og gerum þetta flotta deig í brauðvélinni okkar. Ég ákvað að bregða ekki út af vananum í gærkveldi og setti í vélina svo deigið yrði tilbúið um kl. 17.30. Þetta átti að passa akkúrat því Villi yrði seinn heim.

Deigið leit rosalega vel út og hefaðist mikið og þegar stutt var eftir þar til það yrði tilbúið kveikti ég á ofninum. Þetta átti allt að passa svo vel saman sjáiði J

Svo fer ég bara að dunda mér í að finna til það sem á að fara á pizzuna og ætla svo að setjast út þar til brauðvélin “kallar” á mig. En ég ákvað að kíkja aðeins á deigið áður en ég fer út. Það er bara eins gott að ég kíkti því við hliðina á brauðvélinni er helluborð sem aldrei er notað því platan er brotin. Það vill safnast heilmikið drasl á þetta helluborð og þar sem ég er að kíkja á deigið í gær þá verð ég vör við reyk leggja upp af helluborðinu. Það var við það að kvikna í alls kyns blaðadrasli sem lá á helluborðinu. Þetta voru ýmis frumrit varðandi bílinn minn (mörg frá Namibíu) eins var vegabréfið mitt þarna og sitthvað fleira. Einnig hafði skyndihjálpataskan mín byrjað að bráðna.

Ég fékk nett sjokk því eitthvað af þessum blöðum og pappírum eru sviðnuð og brunnin saman. En vegabréfið mitt slapp sem betur fer. En ég hef ekki þorað að kíkja á þetta og ákvað að bíða eftir því að Villi hafi séns á að kíkja fyrir mig.

Þetta er í annað sinn sem ég bræði eitthvað á þessu bévítans helluborði, um daginn var það fartölvan mín. Þetta er samt ekki bara klikk í mér því þegar ég ætla að nota ofninn þá verð ég að kveikja á takka á veggnum og svo kveikja á ofninum. En þessi takki á veggnum kveikir líka á helluborðinu. Þess vegna verða takkarnir á helluborðinu alltaf að vera stylltir á núll. En þar sem ég nota þetta helluborð aldrei er ég ekkert að spá í það og á það til að nota það sem geymsluborð. En þegar það er þurrkað af þessu borði þá er svo auðvelt að snúa tökkunum og þar með kveikja á hellunum. Svo þegar ég kveiki á takkanum á veggnum þá náttúrulega fer helluborðið á fullt. Þetta á sem sagt að útskýra þetta kveiki-vesen í mér. En það er fátt sem ég hræðist meira en eld og að það kvikni í því skil ég ekki af hverju ég er ekki passasamari með þessa takka á helluborðinu.

föstudagur, 18. nóvember 2011

Matjurtagarðurinn

Jæja þá er komið að því að sýna myndir úr matjurtagarðinum mínum eins og ég lofaði fyrir löngu síðan. Við erum löngu byrjuð að fá kál, eggaldin og agúrkur í hús. Eins hafa komið tveir tómatar og það syttist í gulræturnar. Það er merkilegt hvað allt smakkast betur úr eigin garði heldur en út úr búð :-)
Hér koma myndirnar.
Kálið lítur mjög vel út og smakkast vel. Við settum niður margar tegundir af káli, t.d. kínakál, lettuce, mustard lettuce og eitthvað fleira sem ég man ekki hvað heitir. Það voru bara tvær tegundir sem mér þóttu góðar og gerum við því einhverjar breytingar fyrir næsta sumar.
Ég hlakka mikið til þegar butternutið (veit ekki hvað það heitir á íslensku) verður tilbúið. Þetta er uppáhaldið okkar Villa. Við skerum það í litla bita og bökum í ofni ásamt m.a. kartöflum og gulrótum.
Við settum eggaldin ekki niður og því nokkuð ljóst að þau hafi verið fyrir í garðinum. Sprettan á þeim hefur þó verið mjög góð og ég hef verið að læra að matreiða þau. Ég hef m.a. skorið þau í strimla og sett í ofninn með butternuttinu. Þau eru alveg ágæt en ég geri ekki ráð fyrir að hafa þau næsta sumar.
Svo er það papríkan, hún lítur vel út og fer að styttast í að ég fái hana í hús. Ég þyrfti svo að prufa mig áfram með mismunandi liti. Veltur það ekki allt á þroskastiginu í paprikunni?? Ég held það, en ég er bara enn að læra.
Loks tók ég mynd af lauknum. Hann vex og dafnar vel eins og annað í garðinum.

Ég hef verið að prufa mig áfram með hvað ég vil hafa í garðinum og hvernig ég á að setja það niður. T.d. með kálið, þá settum við of mikið af því niður á sama tíma og því endaði ég á að gefa það flest. Það er nefnilega takmarkað hve miklu við getum torgað af káli á stuttum tíma :-) Ég þarf að dreifa því yfir á lengri tíma því sem ég set niður.

Við tókum til og þrifum garðinn nú í vikunni og kom í ljós að við höfðum meira pláss og settum því niður þrjár nýjar tegundir, blómkál, aðra tegund af káli og svo man ég alls ekki hvað þetta þriðja var :-) Philomone er greinilega mjög hrifinn af kryddjurtum og þau taka mikið pláss í garðinum. Stærðin á beðunum og magnið af hverju er í engu samræmi við það sem við notum þau þannig að við færðum kryddið yfir í minni beð og þá losnaði pláss fyrir grænmeti sem ég nota :-)

Eins settum við niður jarðarber, um 20 stilka, og verða jarðarberin orðin þroskuð og góð um jólin. Það verður frábært að fara út í garð og tína jarðarber til að hafa í eftirrétt á jólunum - bara dásamlegt  :-)