Powered By Blogger

þriðjudagur, 25. janúar 2011

Kemur allt með kalda vatninu

Jæja þá er ég loksins komin með nettengingu, sjónvarp og heimasíma. Það eru örugglega fimm vikur síðan við Villi sóttum um að fá tengingu hérna inn og það tekur bara svona svaaaakalega langan tíma. Svo hætti heimasíminn að virka fyrir rúmri viku - þannig að það var bara allt í rugli. En loksins í dag kom tæknigaurinn og setti allt upp og lagaði heimasímann :-)

Það er eins gott að ég bý yfir mikilli þolinmæði eins og þeir sem mig þekkja vita mætavel :-)

fimmtudagur, 20. janúar 2011

Nýtt ár og ný bloggfærsla

Ég hef verið alveg arfaslök við að blogga frá áramótum, er svo sem ekkert vön því að fylla plássið mitt á netinu af bloggfærslum, en samt... :-)

Það gengur bara ágætlega hjá okkur Rúnari að vera saman á Íslandi. Hann er mjög ánægður í Fellaskóla en kvartar yfir því að þurfa að klæðast öllum þessum fötum til að fara út í frímínútur. Eins er hann ánægður í Vinafelli (frístundaheimilinu). Þetta eru langir dagar hjá honum og það er smá viðbrigði fyrir hann. Á morgnana förum við að heiman kl. 8 og tvo daga í viku kemur hann heim kl. 18. Hann ákvað nefnilega að fara að æfa karate og hann æfir þrisvar í viku, tvo virka daga og svo á laugardögum.

Hann var að fá búninginn í dag. Á myndina vantar beltið þar sem við höfum ekki lært að binda það. En hann tekur sig bara vel út.

miðvikudagur, 22. desember 2010

Hundaheppni

Ég held það sé engin spurning að sumir eru heppnari en aðrir :-) Það mætti halda að yngri dóttir mín hafi lesið bloggið mitt um daginn (ég veit þó að hún gerði það ekki) þar sem ég tala um hve gaman mér finnist að þvo þvott hérna heima og ganga frá honum. Haldið þið ekki að litla gullið mitt hafi komið heim með fulla ferðatösku af óhreinum þvotti fyrir mömmu sína :-) Þetta er bara yndislegt.

sunnudagur, 19. desember 2010

&7%&$#"$ flug

Ótrúlegt þetta klúður í London og þvílíkt vesen að fá eiginmanninn heim. Það er fúlt að hafa hann tvo sólarhringa í London í eitthverju dútli þegar hann stoppar bara nokkra daga á Íslandi. En ég vona innilega, og krosslegg fingur, að flugáætlunin fyrir morgundaginn standi. Ef svo verður þá mun Villi lenda í Keflavík kl. 12 á hádegi.

Mér datt í hug að kíkja á heimasíðu Icelandair til að athuga með flugið á morgun og fékk nett sjokk. Þar stóð "Flugáætlun til og frá London fyrir 20. des og flug til Parísar fellt niður". Ég mislas þetta eitthvað og tók þetta sem að flugið frá London væri líka fellt niður á morgun. En svo róaði ég mig aðeins niður og las betur og þá skildi ég þetta :-) Þar er sem sagt Parísarflugið sem er fellt niður á morgun.

Ég fer nefnilega að lenda í smá klandri, svona fyrir utan það að vita af Villa einum í London - og ekkert að skemmta sér neitt sérstaklega - þá hafði ég nefnilega ákveðið að byrja ekki á neinu jólastússi fyrr en hann kæmi heim :-) Þannig að það verður sett í jólagírinn á morgun (vonandi)

Við Rúnar Atli þurfum að taka daginn snemma á morgun þar sem Tinna Rut lendir kl. 06.45 og því eins gott að fara að koma sér í háttinn. Það mun varla ganga vel fyrir Rúnar að sofna þar sem hann var vakinn kl. 10 í morgun :-) Honum finnst svo gott að sofa út

fimmtudagur, 16. desember 2010

Bara gaman

Ég verð að viðurkenna að það skemmtilegasta sem ég veit er að þvo þvott í minni eigin þvottavél og setja í minn eiginn þurrkara - og að ganga svo frá þvottinum. Bara yndislegt. Það er verst að þar sem við erum bara tvö á heimilinu, eins og er, þá tekur svo marga daga að safna í heila vél :-)

þriðjudagur, 14. desember 2010

Spenningur

Mikil gleði ríkir á heimilinu fyrst jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða. Yfirleitt sefur Rúnar Atli frameftir á morgnana - þegar enginn skóli er -og á hann auðvelt með að sofa til að ganga 10. En morguninn sem Stekkjastaur kom til byggða var hann vaknaður rúmlega 7 :-)

Hann á svo yndislegar frænkur í Svíþjóð sem gáfu honum Lego jóladagatal þar sem hann fær Lego dót á hverjum degi til jóla. Spennan og hamingjan er sko síst minni með jóladagatalið og satt að segja held ég að spennan sé meiri að sjá hvað kemur úr dagatalinu. Mér hefur heyrst á honum að honum finnist jólasveinarnir gefa frekar lítið í skóinn :-)

Stór dagur

Í dag eigum við Villi 24 ára brúðkaupsafmæli. Mér finnst alveg með ólíkindum hvað tíminn hefur verið fljótur að líða. Er ekki sagt að tíminn líði hratt þegar maður hefur það skemmtilegt :-)

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem við hjónin höldum ekki upp á daginn saman en Rúnar Atli ætlar að bjóða mömmu sinni út að borða í staðinn :-)

Svo er stefnt að einhverju mjög skemmtilegu að ári þegar við höldum upp á Silfurbrúðkaupið. Spurning að fara að skipuleggja eitthvað strax :-)