Powered By Blogger

miðvikudagur, 22. desember 2010

Hundaheppni

Ég held það sé engin spurning að sumir eru heppnari en aðrir :-) Það mætti halda að yngri dóttir mín hafi lesið bloggið mitt um daginn (ég veit þó að hún gerði það ekki) þar sem ég tala um hve gaman mér finnist að þvo þvott hérna heima og ganga frá honum. Haldið þið ekki að litla gullið mitt hafi komið heim með fulla ferðatösku af óhreinum þvotti fyrir mömmu sína :-) Þetta er bara yndislegt.

sunnudagur, 19. desember 2010

&7%&$#"$ flug

Ótrúlegt þetta klúður í London og þvílíkt vesen að fá eiginmanninn heim. Það er fúlt að hafa hann tvo sólarhringa í London í eitthverju dútli þegar hann stoppar bara nokkra daga á Íslandi. En ég vona innilega, og krosslegg fingur, að flugáætlunin fyrir morgundaginn standi. Ef svo verður þá mun Villi lenda í Keflavík kl. 12 á hádegi.

Mér datt í hug að kíkja á heimasíðu Icelandair til að athuga með flugið á morgun og fékk nett sjokk. Þar stóð "Flugáætlun til og frá London fyrir 20. des og flug til Parísar fellt niður". Ég mislas þetta eitthvað og tók þetta sem að flugið frá London væri líka fellt niður á morgun. En svo róaði ég mig aðeins niður og las betur og þá skildi ég þetta :-) Þar er sem sagt Parísarflugið sem er fellt niður á morgun.

Ég fer nefnilega að lenda í smá klandri, svona fyrir utan það að vita af Villa einum í London - og ekkert að skemmta sér neitt sérstaklega - þá hafði ég nefnilega ákveðið að byrja ekki á neinu jólastússi fyrr en hann kæmi heim :-) Þannig að það verður sett í jólagírinn á morgun (vonandi)

Við Rúnar Atli þurfum að taka daginn snemma á morgun þar sem Tinna Rut lendir kl. 06.45 og því eins gott að fara að koma sér í háttinn. Það mun varla ganga vel fyrir Rúnar að sofna þar sem hann var vakinn kl. 10 í morgun :-) Honum finnst svo gott að sofa út

fimmtudagur, 16. desember 2010

Bara gaman

Ég verð að viðurkenna að það skemmtilegasta sem ég veit er að þvo þvott í minni eigin þvottavél og setja í minn eiginn þurrkara - og að ganga svo frá þvottinum. Bara yndislegt. Það er verst að þar sem við erum bara tvö á heimilinu, eins og er, þá tekur svo marga daga að safna í heila vél :-)

þriðjudagur, 14. desember 2010

Spenningur

Mikil gleði ríkir á heimilinu fyrst jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða. Yfirleitt sefur Rúnar Atli frameftir á morgnana - þegar enginn skóli er -og á hann auðvelt með að sofa til að ganga 10. En morguninn sem Stekkjastaur kom til byggða var hann vaknaður rúmlega 7 :-)

Hann á svo yndislegar frænkur í Svíþjóð sem gáfu honum Lego jóladagatal þar sem hann fær Lego dót á hverjum degi til jóla. Spennan og hamingjan er sko síst minni með jóladagatalið og satt að segja held ég að spennan sé meiri að sjá hvað kemur úr dagatalinu. Mér hefur heyrst á honum að honum finnist jólasveinarnir gefa frekar lítið í skóinn :-)

Stór dagur

Í dag eigum við Villi 24 ára brúðkaupsafmæli. Mér finnst alveg með ólíkindum hvað tíminn hefur verið fljótur að líða. Er ekki sagt að tíminn líði hratt þegar maður hefur það skemmtilegt :-)

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem við hjónin höldum ekki upp á daginn saman en Rúnar Atli ætlar að bjóða mömmu sinni út að borða í staðinn :-)

Svo er stefnt að einhverju mjög skemmtilegu að ári þegar við höldum upp á Silfurbrúðkaupið. Spurning að fara að skipuleggja eitthvað strax :-)

Mjög forvitnilegt

Það er skemmtilegt að velta fyrir sér hvernig maður setur eitt stykki banka á hausinn á örfáum árum. Eins og við vitum þá keyptu Björgúlfsfeðgar Landsbankann árið 2003 og ef marka má skýrslur sem unnar hafa verið á vegum Sérstaks saksóknara þá var þessi banki í raun kominn í þrot árið 2007 og hefði átt að missa bankaleyfið.

Það er eiginlega priceless að lesa þær miklu hugmyndir sem stóðu að baki sölu bankanna, eins og lesa má t.d. eftirfarandi:

Í kjölfar sölunnar á eignarhluta ríkisins í Landsbankanum stendur til að ríkið losi um hluti sinn í Búnaðarbankanum og eru viðræður þegar hafnar við tvo aðila um þau kaup. Ef sú sala nær fram að ganga má segja að eitthvert stærsta pólitíska þrekvirki Íslandssögunnar hafi verið unnið og ljóst að áhrifa þess gætir um allt samfélagið. Einkavæðing bankakerfisins skapar umhverfi sem er bæði einstaklingum og fyrirtækjum miklum mun hagstæðara heldur en nokkru sinni gat orðið á meðan pólitísk sjónarmið réðu mestu um ákvarðanatöku á íslenskum fjármagnsmörkuðum.

Er þetta ekki dásamlegt?? :-) Stærsta pólitíska þrekvirki sögunnar, hvorki meira né minna. Eins væri mér forvitni á að vita hve mörg fyrirtæki og einstaklingar sjá sinn hag betri (eins og staðan er í dag) eftir þessa einkavæðingu :-)

En það sem ég furða mig hvað mest á er hversu fljótt þessum snillingum tókst að setja heilan banka á hausinn. Ég meina í minni einfeldni þá hefði ég haldið að slíkt tæki aðeins fleiri ár, en samkvæmt skýrslu (og fjallað var um í Kastljósi í síðustu viku) sem unnin var fyrir tilstuðlan sérstaks þá hefði Landsbankinn átt að missa starfsleyfið árið 2007. Aðeins fjórum árum eftir einkavæðingu.

Mín spurning er þessi: hvernig fer maður að því að setja heilan banka á hausinn á fjórum árum??? Spyr sá sem ekki veit.

Í mínum huga er það gjörsamlega ógerlegt að gera banka fallit - en ég hef svo sem aldrei verið talin til útrásasnillinga og þ.a.l. hef ég náttúrulega ekki hundsvit á þessu :-) En það má svo sem alveg segja að þetta sé snilld að geta þetta á svo stuttum tíma.

mánudagur, 13. desember 2010

Allt er þegar þrennt er – og fullreynt í fjórða

Eins og okkur Rúnari Atla finnst nú frábært að vera komin til Íslands, þá er einn og einn hlutur sem angrar okkur (mig) aðeins. Þegar við vorum nýkomin heim og frúin ætlaði í sturtu til að skola af sér ferðarykinu, þá bara kom ekkert vatn úr sturtunni. Sama hvað ég reyndi þá gekk ekkert, svo var ég að flýta mér til Dagmarar í mat þannig að ég lét þetta eiga sig í bili. Aftur reyndi ég daginn eftir en enn gekk ekkert. En nú gekk ekki lengur að sætta sig við vatnsleysi – það var bara ekki séns að frúin færi út án þess að sturtast J

Þannig að nú var brugðið á það ráð að tala við Reddarann (Davíð mág) og þá kom í ljós að það þurfti að skrúfa fyrir vatnið þar sem það lak alltaf með blöndunartækjunum. Okey, búið að redda því og frúin komst í sturtu. En það var ekki fyrr en ég stóð í sturtunni að ég fattaði að það var ekkert sturtuhengi svo allt varð rennandi inni á baði. Einhverra hluta vegna hafði stöngin sem hélt uppi sturtuhenginu dottið niður einhvern tímann og ég get ekki sett hana upp aftur. Það þarf eitthvað að sansa þetta til.

Villi mun hafa nóg að gera þegar hann loksins drattast til landsins, það er á hreinu.

Þetta er sko ekki búið J Þegar ég keyrði bílinn í fyrradag var eitthvað aukahljóð hjá framdekkinu bílstjóramegin. Hljóðið angraði mig þar sem ég vissi ekki hvað þetta var. Þegar við Rúnar fórum svo í bæinn í morgun hafði hljóðið magnast um allan helming og mér leist nú bara ekki á blikuna. Ég hélt satt að segja að bíllinn væri að hrynja undan okkur mæðginum. Ég sendi þessum vel gifta sms og kvartaði mikið undan bílnum. Hann sendir mér til baka heimilisfang á einhverju bílaverkstæði í Kópavogi og segir mér að kíkja þangað. Ég bruna beint á verkstæðið og spyr gaurinn hvort það sé nokkur séns að hann geti kíkt undir bílinn þar sem ég haldi að hann sé að hrynja undan mér. Kom þá í ljós að demparinn bílstjóramegin er brotinn – takk fyrir. Sem betur fer gat hann strax reddað dempara og tók bílinn inn og ég fæ hann aftur á morgun.

Svo eigum við hjónin svo yndislega vini að það fyrsta sem einum þeirra datt í hug var hvort ég skyldi ekki örugglega þessi skilaboð??? Sem sagt bílstjórinn (hún ég) bara aðeins og þung fyrst að demparinn brotnar undan mér J

Gaman að þessu. En eins og máltækið segir, "þá er allt þegar þrennt er” – en svo er nefnilega annað máltæki sem segir “fullreynt í fjórða”. En ég hef fingur krosslagða um að ekkert annað komi upp, alla vega ekki áður en Villi kemur heim. Hann getur staðið í þessu veseni J