Powered By Blogger

þriðjudagur, 11. maí 2010

Hitt og þetta í upphafi vetrar

Þá er ég búin að skila inn síðasta verkefninu mínu í síðasta háskólaáfanganum mínum - ever og get farið að einbeita mér að rannsókninni minni. Ég ætla að vera rosa dugleg og skila henni inn í byrjun ágúst n.k. Bjartsýnin ríður húsum hér í borg :-)

Dagmar lagði af stað til okkar á sunnudagskvöld en er ekki komin lengra en til London. Hún þurfti að taka rútu til Akureyrar og var komin þangað í morgunsárið á mánudag. En svo var fluginu hennar til London frestað í marga klukkutíma og ekki bara það heldur var flogið til Glasgow en ekki London. Þetta þýddi náttúrulega að allt tengiflug riðlaðist og hún ákvað að ferðast án ferðatösku svo taskan væri ekki ekki að tefja hana (að þurfa að sækja hana og tékka hana aftur inn í næsta flug). Villi eyddi gærdeginum í að púsla flug fyrir hana áfram og var í stöðugu sambandi við British Airways og Lufthansa en allt kom fyrir ekki og þegar Dagmar loksins lenti í London í gær þá fékk hún ekki að fara með öðru flugi - Lufthans vildi ekki breyta miðanum hennar. Varð hún því strandaglópur á Heathrow.

En það vill svo skemmtilega til :-) að hann Villi minn á voðalega góða vinkonu hérna í borginni sem starfar á ferðaskrifstofu og hún er að redda þessu öllu fyrir okkur. Hún fór m.a.s. á skrifstofuna sína í gærkveldi fyrir Villa til að reyna að fá annað flug fyrir Dagmar. En þetta virðist vera komið í lag núna og við vonum svo bara að frumburðurinn komist heim á morgun.

Það er heldur betur farið að kólna núna og greinilegt að veturinn er á næsta leyti, brrr. Nú þarf að finna ofna og koma þeim út um allt hús. En það er verst að hitinn helst eiginlega ekki inni í húsinu því það eru stórar rifur á milli allra glugga og hurða :-) Gaman að þessu.

sunnudagur, 2. maí 2010

Vídeókvöld fjölskyldunnar

Um helgar tökum við okkur til, fjölskyldan, og horfum saman á DVD. Við höfum þetta þannig að hvert okkar velur ca tvær myndir og svo er valið úr þeim. Í kvöld, varð úr að horfa á Jungle Book og sú mynd er alltaf jafn góð.

Svo setti ég Bó og Sinfónúhljómsveitina í og þá bara hurfu feðgarnir. Er núna komin á lag nr 12 og ekkert sést enn til feðganna. :-)

miðvikudagur, 28. apríl 2010

Gestagangur

Jæja þá eru gestirnir okkar farnir. Begga vinkona og mamma hennar eru búnar að vera hjá okkur í um tvær vikur. Við höfum ferðast heilmikið og hlegið enn meira :-)

Við fórum til Etosha og keyrðum í gegnum garðinn, það tók nú ekki „nema“ sex klukkutíma en var mjög gaman og við sáum fullt af dýrum. Svo lá leiðin til Opuwo þar sem við heimsóttum Himbana. Það er alltaf jafn gaman að hitta þá og sjá hvernig þeir lifa. Eins fórum við til Omaruru og sátum við vatnsbólið og höfðum það gott.

Þetta er bara búið að vera frábært og Begga og Stína, takk fyrir samveruna.

Svo eru tvær vikur í næstu gesti :-)

laugardagur, 10. apríl 2010

quilt teppið




Ég lofaði því um daginn að henda inn mynd af bútasaumsteppinu sem ég byrjaði á um daginn. Ég hef unnið eins mikið í því og ég reikna með að gera. Ég sem sagt kláraði bara framhliðina, og það vantar m.a.s. síðasta hringinn hjá mér. En ég reikna ekki með að klára meira af þessu teppi sökum tímaleysis. Ég er þokkalega sátt með árangurinn hjá mér, en ef vel er skoðaða má sjá að hornin passa ekki og ég hefði sennilega átt að velja betur saman litina. En þetta er prufa hjá mér og sem slík er þetta ekki algjör hörmung :-)


Ég lærði alla vega að "applique" og það er nú bara ágætt :-)

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Tíminn líður

Þá er bara kominn 1. apríl árið 2010. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram - en gott á meðan gaman er.

Annars heldur nú lífið bara áfram hérna hjá okkur - svo sem ekkert nýtt í fréttum.

laugardagur, 27. mars 2010

Jahérna jæja

Flestu má nú reyna að telja krökkum trú um :-)

Samtal okkar mæðgina í morgun:

Rúnar: mamma, er Doddi frændi bróðir þinn?

Ég: já

Rúnar: Hvað er hann gamall?

Ég: hann er jafngamall pabba þínum

Rúnar: Nema hann er sterkari

Ég: hvernig veistu það?

Rúnar: Doddi sagði mér það í fyrra

Góður þessi :-)

föstudagur, 26. mars 2010

Spillt af eftirlæti

Villi hefur verið ansi duglegur að spilla okkur Rúnari Atla með morgunmat um helgar. Flestar helgar fáum við íslenskar pönnukökur annan morguninn og vöfflur hinn.

Nú vill svo til að Villi er á ferðalagi um þessa helgi og við Rúnar vorum eitthvað að ræða það í gær að nú fengjum við hvorki pönnukökur né vöfflur um helgina. Heyrist þá í honum „hvað fáum við?“

Greinilega ekki gert ráð fyrir að mamma reddi þessum málum :-)