Powered By Blogger

miðvikudagur, 28. apríl 2010

Gestagangur

Jæja þá eru gestirnir okkar farnir. Begga vinkona og mamma hennar eru búnar að vera hjá okkur í um tvær vikur. Við höfum ferðast heilmikið og hlegið enn meira :-)

Við fórum til Etosha og keyrðum í gegnum garðinn, það tók nú ekki „nema“ sex klukkutíma en var mjög gaman og við sáum fullt af dýrum. Svo lá leiðin til Opuwo þar sem við heimsóttum Himbana. Það er alltaf jafn gaman að hitta þá og sjá hvernig þeir lifa. Eins fórum við til Omaruru og sátum við vatnsbólið og höfðum það gott.

Þetta er bara búið að vera frábært og Begga og Stína, takk fyrir samveruna.

Svo eru tvær vikur í næstu gesti :-)

laugardagur, 10. apríl 2010

quilt teppið




Ég lofaði því um daginn að henda inn mynd af bútasaumsteppinu sem ég byrjaði á um daginn. Ég hef unnið eins mikið í því og ég reikna með að gera. Ég sem sagt kláraði bara framhliðina, og það vantar m.a.s. síðasta hringinn hjá mér. En ég reikna ekki með að klára meira af þessu teppi sökum tímaleysis. Ég er þokkalega sátt með árangurinn hjá mér, en ef vel er skoðaða má sjá að hornin passa ekki og ég hefði sennilega átt að velja betur saman litina. En þetta er prufa hjá mér og sem slík er þetta ekki algjör hörmung :-)


Ég lærði alla vega að "applique" og það er nú bara ágætt :-)

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Tíminn líður

Þá er bara kominn 1. apríl árið 2010. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram - en gott á meðan gaman er.

Annars heldur nú lífið bara áfram hérna hjá okkur - svo sem ekkert nýtt í fréttum.

laugardagur, 27. mars 2010

Jahérna jæja

Flestu má nú reyna að telja krökkum trú um :-)

Samtal okkar mæðgina í morgun:

Rúnar: mamma, er Doddi frændi bróðir þinn?

Ég: já

Rúnar: Hvað er hann gamall?

Ég: hann er jafngamall pabba þínum

Rúnar: Nema hann er sterkari

Ég: hvernig veistu það?

Rúnar: Doddi sagði mér það í fyrra

Góður þessi :-)

föstudagur, 26. mars 2010

Spillt af eftirlæti

Villi hefur verið ansi duglegur að spilla okkur Rúnari Atla með morgunmat um helgar. Flestar helgar fáum við íslenskar pönnukökur annan morguninn og vöfflur hinn.

Nú vill svo til að Villi er á ferðalagi um þessa helgi og við Rúnar vorum eitthvað að ræða það í gær að nú fengjum við hvorki pönnukökur né vöfflur um helgina. Heyrist þá í honum „hvað fáum við?“

Greinilega ekki gert ráð fyrir að mamma reddi þessum málum :-)

þriðjudagur, 9. mars 2010

Rehoboth

Við í framkvæmdanefnd makaklúbbsins höfum verið ansi duglegar það sem af er ári. Eins og ég bloggaði um um daginn þá fórum við til Góbabis með frystikistu með okkur. Svo erum við að vinna að verkefni í Mount Sinai Centre í Katutura sem ég á eftir að blogga um.

Í dag skelltum við okkur til Rehoboth, sem er bær rúmlega 80 km fyrir sunnan Windhoek. Við heimsóttum elliheimili þar og fengum að skoða okkur um og spjalla við starfsfólkið. Þarna búa 11 vistmenn með fjóra starfsmenn. Húsið sjálft er í góðu standi og það er mjög hreinlegt þar en það er ekki neitt til neins. Það búa þrír vistmenn saman í herbergi og enginn er með persónulega hluti með sér. Tveir af þremur hafa náttborð og dýnurnar eru nú ekki til að hrópa húrra fyrir. Við töldum átta brotnar rúður og hurðar að herbergjum hafa ekki hurðarhúna og þ.a.l. ekki hægt að loka þeim. Það er sár þörf á pípulagningarmanni til að laga klósett, þau virka fá. Það er ekki borð fyrir vistmennina til að borða við og ekkert heitt vatn. Þetta er svona það helsta. Reyndar er þvottavélin ónýt og sú sem sér um þvottinn þarf að handþvo allan þvott daglega og notar til þess baðkarið sem hún þarf að bogra yfir.

Við tókum fullt af myndum og munum svo á næsta fundi ræða um hvað/hvort makaklúbburinn geti gert til að aðstoða þetta yndislega fólk. Því þrátt fyrir það sem við köllum bágar aðstæður þá eru vistmenn ánægðir með sitt og glaðir.


Hluti vistmanna.

Sem þakklætisvott, færðum við öllum vistmönnum poka með ýmsum hreinlætisvörum, kexi og súkkulaði. Þessi maður (hér að ofan) fór strax með sinn poka inn í herbergi og passaði vel upp á sitt :-)

Framkvæmdanefndin ásamt Silvíu, húsmóðir heimilisins, f.v. Maarika, Silvia, Teresa, Margret og ég. Á morgun heimsækjum við svo skóla í Katutura og sjáum til hvort við getum ekki greitt skólagjöld fyrir einhverja nemendur. Svo eigum við fund með Khomas Women for Development og fáum að heyra hvað þær eru að gera og að lokum kíkjum við í Mount Sinai Centre. Það verður sem sagt enn einn dagurinn á morgun þar sem lærdómur kemst ekki að :-)


Ýmsar stellingar

Ótrúlega þægilegt að horfa á sjónvarpið í þessari stellingu :-)