Powered By Blogger

mánudagur, 13. desember 2010

Allt er þegar þrennt er – og fullreynt í fjórða

Eins og okkur Rúnari Atla finnst nú frábært að vera komin til Íslands, þá er einn og einn hlutur sem angrar okkur (mig) aðeins. Þegar við vorum nýkomin heim og frúin ætlaði í sturtu til að skola af sér ferðarykinu, þá bara kom ekkert vatn úr sturtunni. Sama hvað ég reyndi þá gekk ekkert, svo var ég að flýta mér til Dagmarar í mat þannig að ég lét þetta eiga sig í bili. Aftur reyndi ég daginn eftir en enn gekk ekkert. En nú gekk ekki lengur að sætta sig við vatnsleysi – það var bara ekki séns að frúin færi út án þess að sturtast J

Þannig að nú var brugðið á það ráð að tala við Reddarann (Davíð mág) og þá kom í ljós að það þurfti að skrúfa fyrir vatnið þar sem það lak alltaf með blöndunartækjunum. Okey, búið að redda því og frúin komst í sturtu. En það var ekki fyrr en ég stóð í sturtunni að ég fattaði að það var ekkert sturtuhengi svo allt varð rennandi inni á baði. Einhverra hluta vegna hafði stöngin sem hélt uppi sturtuhenginu dottið niður einhvern tímann og ég get ekki sett hana upp aftur. Það þarf eitthvað að sansa þetta til.

Villi mun hafa nóg að gera þegar hann loksins drattast til landsins, það er á hreinu.

Þetta er sko ekki búið J Þegar ég keyrði bílinn í fyrradag var eitthvað aukahljóð hjá framdekkinu bílstjóramegin. Hljóðið angraði mig þar sem ég vissi ekki hvað þetta var. Þegar við Rúnar fórum svo í bæinn í morgun hafði hljóðið magnast um allan helming og mér leist nú bara ekki á blikuna. Ég hélt satt að segja að bíllinn væri að hrynja undan okkur mæðginum. Ég sendi þessum vel gifta sms og kvartaði mikið undan bílnum. Hann sendir mér til baka heimilisfang á einhverju bílaverkstæði í Kópavogi og segir mér að kíkja þangað. Ég bruna beint á verkstæðið og spyr gaurinn hvort það sé nokkur séns að hann geti kíkt undir bílinn þar sem ég haldi að hann sé að hrynja undan mér. Kom þá í ljós að demparinn bílstjóramegin er brotinn – takk fyrir. Sem betur fer gat hann strax reddað dempara og tók bílinn inn og ég fæ hann aftur á morgun.

Svo eigum við hjónin svo yndislega vini að það fyrsta sem einum þeirra datt í hug var hvort ég skyldi ekki örugglega þessi skilaboð??? Sem sagt bílstjórinn (hún ég) bara aðeins og þung fyrst að demparinn brotnar undan mér J

Gaman að þessu. En eins og máltækið segir, "þá er allt þegar þrennt er” – en svo er nefnilega annað máltæki sem segir “fullreynt í fjórða”. En ég hef fingur krosslagða um að ekkert annað komi upp, alla vega ekki áður en Villi kemur heim. Hann getur staðið í þessu veseni J

Tannlæknir

Það fækkar tönnunum í Rúnari Atla hægt en rólega. Hann hefur misst tvær framtennur í neðrigóm og það var ekkert mál, þær duttu bara sjálfar þegar allt var tilbúið. En nú hefur hann, í um tvo mánuði, haft eina laflausa framtönn í efri góm. Hann jagast í tönninni alla daga og hún orðin laflaus en ekki datt hún. Hann var orðinn rauður og þrútinn í tannholdinu hjá tönninni og kveinkaði sér þegar ég burstaði tennurnar. Því reyndist nauðalendingin sú að kíkja til tannlæknis sem við og gerðum í morgun.

Hann var strax byrjaður um kl. 10 í morgun að bíða hvenær við færum nú til hennar Sonju Rutar (tannlæknirinn). Hann hlakkaði svo til að hitta hana, loksins um hádegið fórum við. Þegar við komum inn á tannlæknastofuna sagði hann “oh mamma, ég elska þessa tannlæknalykt”. Barnið er ekki alveg okey – sækir þetta örugglega í föðurættina J

En tönnin er loksins farin og nú lítur gæinn svona út

miðvikudagur, 8. desember 2010

Ísland

Það fer ansi vel um okkur Rúnar Atla hérna á klakanum, fyrir utan nokkur atriði. Hann er að verða vitlaus yfir því að eiga ekkert dót hérna í Æsufellinu og spyr reglulega "mamma, hvað á ég að gera núna?" Það þarf varla að taka það fram að þetta reynir á þolinmæði móðurinnar :-)

En við erum búin að vera dugleg og komin í jólagírinn. Við þrifum alla glugga í gær og settum upp jólaseríur - allt voða fínt :-)

Núna bíður hann bara eftir því að það fari að snjóa svo hann geti leikið úti í snjónum eins og hann gat gert í Svíþjóð.

Tæknifríkin hún ég var að skipta um forsíðumynd á blogginu mínu um daginn en kann ekki að minnka hana - hún tekur bara eiginlega upp alla síðuna :-) Vona að þetta pirri ykkur ekki kæru lesendur en ég bið Villa að líta á þetta þegar hann kemur heim.

laugardagur, 4. desember 2010

Ellen og Olivia

Olivia og Ellen eru rosalega duglegar á skautum og á þessum myndum er Olivia að sýna listir sínar (Ellen var hætt).

Hún er að æfa sig að fara sundur og saman með fæturnar.

Hérna kemur hún á fleygiferð.

En snillingarnir detta víst líka stundum :-)

Gaman í Svíþjóð

Í morgun fórum við Doddi með krakkana á skauta í hokkíhöllinni. Rúnar Atli var að taka sín fyrstu skautaspor og þetta var meiriháttar gaman þó oft hafi hann nú steinlegið á svellinu :-)

Þetta byrjaði bara nokkuð vel og gæinn tók sig bara vel út á svellinu með grind til aðstoðar. Það er verst hvað það var erfitt að komast af stað.

En æ æ, svo bara steinlá maður...

þá var nú öruggara bara að hanga á veggnum og ganga meðfram honum.

En svo komu frænkurnar og reyndu sitt besta til að hjálpa honum af stað.

En það gekk eitthvað illa svo þeim þótti bara best að Rúnar fengi sér sæti og þær myndu bara skauta með hann.

Oh, svo var nú gott að fá sér pulsu eftir allt erfiðið.

fimmtudagur, 2. desember 2010

Jólalegt

Það er alveg ótrúlega fallegt og jólalegt hérna í Oxelösund og bara ekki hægt annað en að komast í jólaskap. Á meðan Doddi vinnur og Ellen og Olivia eru í skólanum, sitjum við mæðginin og horfum á jólamynd og borðum mandarínur.

Ég varð að taka myndir af útsýninu hérna hjá Dodda - ótrúlega fallegt


miðvikudagur, 1. desember 2010

Í snjónum skemmti ég mér tralla la lallala

Ég var búin að blogga í morgun og setja inn myndir, en einhverra hluta vegna birtist það ekki hérna.

En sem sagt þá gekk ferðalagið okkar Rúnars Atla alveg ágætlega þó ekki hafi mikið verið sofið frá Jóhannesarborg til Lundúna. Rúnar átti mjög erfitt með að finna góða svefnstellingu og ég eyddi megninu af nóttinni í að reyna að aðstoða hann við lítinn árangur :-)

En það var mikið gott að komast til Svíþjóðar og eftirvæntingin var mikil alla ferðina. Svo skemmdi nú ekki að það var stoppað á McDonalds á leiðinni heim, enda sársvangir ferðalangar á ferð.

Þegar við lentum í gær var um 8 stiga frost og það vill til að það hafði fundist slatti af vetrarfötum á Rúnar hérna svo hann er vel gallaður. Enda drógu frænkur hans hann með sér út að renna sér í gærkveldi. Svo beið hann bara eftir að vakna í morgun til að ná mér út og sýna mér alls kyns kúnstir. Þegar við vöknuðum þá var hins vegar aðeins búið að herða á frostinu og það var 17 stiga frost svo það verður bara að segjast eins og er að mamman var ekkert rosa spennt fyrir því að fara út enda ekki með mikið af vetrarfatnaði með sér :-) En drengurinn gaf sig ekki og um miðjan morgun náði hann að draga mig út og þá var nú heldur búið að hlýna og sýndi mælirinn "aðeins" 12 stiga frost.

En hér koma nokkrar myndir af alls kyns hundakúnstum