Powered By Blogger

sunnudagur, 5. september 2010

Sunnudagur til sælu

Dagurinn byrjar vel, íslenskar vöfflur með rjóma í morgunmat, nammi namm :-) Það hafa verið kanadískar pönnukökur svo til á hverjum sunnudagsmorgni síðan í maí en þar sem Tinnan mín er farin aftur á norðurslóðir, þá er hægt að hafa vöfflur eða íslenskar pönnukökur aftur. Við Rúnar erum hrifnari að þeim en þessum kanadísku :-)

Svo ætlum við litla fjölskyldan að kíkja í bíó á eftir, ætlum að sjá The sorcerer's apprentice með Nicholas Cage - örugglega mjög góð mynd.


Flutningar

Það styttist all svakalega í það að við flytjum héðan frá Namibíu. Við gerum ráð fyrir að yfirgefa landið í kringum 10. desember, og að gámurinn fari í kringum 20. nóvember. Það verður heilmikil vinna að fara í gegnum allt "draslið" sem við höfum sankað að okkur undanfarin ár og henda því sem á að henda og pakka hinu. En ég held satt að segja að það sé gott mál að fara svona í gegnum dótið manns á nokkurra ára fresti - góð leið til að losa sig við drasl :-)

Það eru blendnar tilfinningar yfir því að yfirgefa Namibíu, við höfum búið hérna svo lengi, það verða níu ár í allt um áramót. Annars vegar er mikill söknuður enda yndislegt að búa hérna. Hins vegar er mikil tilhlökkun í að gera eitthvað annað

Það eru spennandi tímar framundan, eins og ónefnd þingkona Sjálfstæðisflokksins sagði í upphafi hruns :-)

Ýmislegt

Ég hef enn ekkert heyrt varðandi ritgerðina mína og er bara þakklát fyrir það, því það er ekki nokkur leið að ég nenni að vinna í athugasemdum þessa dagana. En það hlýtur nú eitthvað að fara að heyrast því ég held að ég eigi að koma henni í prentun fyrir 1. október n.k.

Tinna mín er loksins komin heim til sín eftir langt og strangt ferðalag. Hún stoppaði reyndar tvær nætur á Íslandi á leið sinni frá Namibíu til Prince George. Ef ég þekki hana rétt þá var það ánægð ung stúlka sem lagðist á koddann sinn, í nýja rúminu sínu, í gærkveldi og fór að sofa. Hún, ásamt einni vinkonu sinni, leigir nú íbúð í Prince George og hún hlakkaði mikið til að komast heim og fara að versla til heimilisins :-)




Veður hlýnandi fer

Nú er farið að hlýna í Namibíu og greinilegt að sumarið er á næsta leyti. En sumrinu fylgja auðvitað ýmsir fylgikvillar, eins og skordýrin og moskítóflugurnar. En maður tekur því bara og þakkar fyrir hlýnandi veður.

Tímanum hérna var breyttt í nótt og við það "misstum" við einn klukkutíma og erum núna tveimur tímum á undan Íslandi. Það angrar mig þegar tíminn breytist í þessa áttina, því mér finnst muna heilmiklu hvort ég fari fram úr klukkan 8 eða 9 á morgnana :-)


föstudagur, 20. ágúst 2010

Gott líf

Þá er ritgerðin komin til prófdómara og ég vona bara hið besta. Ég held ég eigi ekki eftir að nenna að gera einhverjar meiriháttar lagfæringar - bara búin að fá nóg af ritgerðinni :-) En ég á nú svo sem ekki von á mörgum athugasemdum. Því leiðbeinandinn minn og sérfræðingurinn eru jú báðir búnir að liggja yfir gripnum og setja út á :-)

Þannig að ég held bara áfram að sauma og leika mér. Var að klára að setja saman bútateppið (þ.e.a.s. alla bútana - á eftir að gera saml0kuna) og er hálfnuð með jólalöber (krosssaum). Það er gaman að lifa :-)

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

Back to reality

Mín bara búin að sitja við sauma núna í nokkra daga :-) Í gær sneið ég allt í eitt stórt rúmteppi og setti annað saman (reyndar lítið - æfingastykki). Þetta er ótrúlega gaman. Ég er að reyna að hanna í huganum bútateppi sem ég get líka notað krosssauminn í. Hef nokkuð góða hugmynd en vantar bara uppskriftir af stökum blómum.

Ég var bara algjörlega dottin í leik og dundur :-) Var sem sé búin að leggja ritgerðina mína á hilluna; þar til ég heyrði eitthvað til baka frá leiðbeinandanum mínum. Fékk svo þennan líka fína skammt til baka í morgun með athugasemdum frá honum og sérfræðingnum. Úff, mín þarf að setjast aftur við tölvuna og gera nokkrar lagfæringar. Þetta er svo sem ekki alvarlegar athugasemdir, en það verður erfitt að koma sér aftur í gang með skriftir þar sem ég var bara hætt (í huganum alla vega) :-) Sem sagt, aftur í alvöruna.

föstudagur, 30. júlí 2010

Kom að því

Rosalega hvað ég hef verið löt við að blogga undanfarið. Ég sé að það er heill mánuðum frá síðasta bloggi. Það er nú eitthvað búið að stússast síðan þá.

Síðast liðið föstudagskvöld var fjáröflunarkvöldið okkar í makaklúbbnum, sem við höfum verið að undirbúa í nærri fjóra mánuði. Kvöldið tókst frábærlega vel og við söfnuðum tæpum 47000 namibískum dollurum, sem mér reiknast til að sé um 800 000 ísl krónur og við erum alveg í skýjunum. Þeir sem vilja lesa um kvöldið geta lesið bloggið hans Villa - hann sagði ágætlega frá þessu þar og óþarfi fyrir mig að endurtaka það hér.

Nú er ritgerðin mín bara eiginlega alveg tilbúin. Ég sendi hana til leiðbeinandans míns og sérfræðingsins í gær og vona að þau nái að lesa hana yfir um helgina því svo þann 5. ágúst þarf ég að skila henni inn. Þetta er bara alveg dásamleg tilfinning (að vera næstum laus við hana), ég er komin með upp í kok af skólastússi og er farin að hlakka til að gera eitthvað allt annað :-) Ég m.a.s. þreif skrifstofuna mína í gær hátt og lágt.

Nú er bara að fara taka upp saumadótið. Um daginn fór ég á heilsdags námskeið í bútasaumi og ætla að fara að dunda mér í saumum. Ég er búin að hanna mörg bútateppin í huganum og nú er bara að koma þeim í framkvæmd.

Sem sagt, helgin verður bara notuð í sauma.