Þannig að ég held bara áfram að sauma og leika mér. Var að klára að setja saman bútateppið (þ.e.a.s. alla bútana - á eftir að gera saml0kuna) og er hálfnuð með jólalöber (krosssaum). Það er gaman að lifa :-)
föstudagur, 20. ágúst 2010
Gott líf
Þá er ritgerðin komin til prófdómara og ég vona bara hið besta. Ég held ég eigi ekki eftir að nenna að gera einhverjar meiriháttar lagfæringar - bara búin að fá nóg af ritgerðinni :-) En ég á nú svo sem ekki von á mörgum athugasemdum. Því leiðbeinandinn minn og sérfræðingurinn eru jú báðir búnir að liggja yfir gripnum og setja út á :-)
þriðjudagur, 3. ágúst 2010
Back to reality
Mín bara búin að sitja við sauma núna í nokkra daga :-) Í gær sneið ég allt í eitt stórt rúmteppi og setti annað saman (reyndar lítið - æfingastykki). Þetta er ótrúlega gaman. Ég er að reyna að hanna í huganum bútateppi sem ég get líka notað krosssauminn í. Hef nokkuð góða hugmynd en vantar bara uppskriftir af stökum blómum.
Ég var bara algjörlega dottin í leik og dundur :-) Var sem sé búin að leggja ritgerðina mína á hilluna; þar til ég heyrði eitthvað til baka frá leiðbeinandanum mínum. Fékk svo þennan líka fína skammt til baka í morgun með athugasemdum frá honum og sérfræðingnum. Úff, mín þarf að setjast aftur við tölvuna og gera nokkrar lagfæringar. Þetta er svo sem ekki alvarlegar athugasemdir, en það verður erfitt að koma sér aftur í gang með skriftir þar sem ég var bara hætt (í huganum alla vega) :-) Sem sagt, aftur í alvöruna.
föstudagur, 30. júlí 2010
Kom að því
Rosalega hvað ég hef verið löt við að blogga undanfarið. Ég sé að það er heill mánuðum frá síðasta bloggi. Það er nú eitthvað búið að stússast síðan þá.
Síðast liðið föstudagskvöld var fjáröflunarkvöldið okkar í makaklúbbnum, sem við höfum verið að undirbúa í nærri fjóra mánuði. Kvöldið tókst frábærlega vel og við söfnuðum tæpum 47000 namibískum dollurum, sem mér reiknast til að sé um 800 000 ísl krónur og við erum alveg í skýjunum. Þeir sem vilja lesa um kvöldið geta lesið bloggið hans Villa - hann sagði ágætlega frá þessu þar og óþarfi fyrir mig að endurtaka það hér.
Nú er ritgerðin mín bara eiginlega alveg tilbúin. Ég sendi hana til leiðbeinandans míns og sérfræðingsins í gær og vona að þau nái að lesa hana yfir um helgina því svo þann 5. ágúst þarf ég að skila henni inn. Þetta er bara alveg dásamleg tilfinning (að vera næstum laus við hana), ég er komin með upp í kok af skólastússi og er farin að hlakka til að gera eitthvað allt annað :-) Ég m.a.s. þreif skrifstofuna mína í gær hátt og lágt.
Nú er bara að fara taka upp saumadótið. Um daginn fór ég á heilsdags námskeið í bútasaumi og ætla að fara að dunda mér í saumum. Ég er búin að hanna mörg bútateppin í huganum og nú er bara að koma þeim í framkvæmd.
Sem sagt, helgin verður bara notuð í sauma.
þriðjudagur, 29. júní 2010
Vinnandi konur
Ég var á leiðinni heim af fundi eitt kvöldið fyrir nokkru. Klukkan að verða átta og því orðið þokkalega dimmt úti. Ég keyri sem leið liggur í gegnum miðbæinn. Það var lítil umferð og ég er eitthvað að spá voða mikið í umhverfið. Sé þá unga konu ganga upp götuna sem ég var við. Hún vakti athygli hjá mér fyrir klæðnaðinn. Var í háhælaskóm og í ansi stuttu pilsi og níðþröngum toppi. Umhyggjan í minni fór á fullt og ég velti fyrir mér hvort konu greyinu væri ekki ískalt.
Ég greinilega vakti hennar athygli líka því gellan fór að veifa mér til að stoppa og tala við sig. Þegar ég áttaði mig á því að þetta var "vinnandi kona" spólaði ég í burtu og skildi greyið eftir í reyk. Ég sá mig ekki alveg fyrir mér fara að prútta um verð :-)
Það er bara það
Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Mér finnst ég vera nýbúin að blogga en sé að það er kominn einn og hálfur mánuður síðan.
Það er svo sem ekkert mikið að frétta af okkur. Allir gestir löngu farnir og það er bara rólegt í kotinu.
Ég er farin að telja niður dagana þangað til ég skila inn meistararitgerðinni minni, reiknast til að í dag séu 37 dagar þangað til. Ég held ég muni alveg ná þessu. Aðferðafræðin og theorían er komin og á morgun mun ég byrja að vinna úr viðtölunum. Það er það skemmtilega við svona rannsóknir. Ég er ótrúlega heppin að vera með aðstoðarmanneskju sem sér um að afrita viðtölin fyrir mig því það fer svakaleg vinna og tími í slíkt. Ég hef á meðan bara getað einbeitt mér að öðrum köflum í meistarasmíðinni :-)
Tinna spurði mig svo í dag hvað ég ætlaði eiginlega að taka mér fyrir hendur þegar ég verð búin með ritgerðina. Því var fljótsvarað - SAUMA, ekki spurning. Hlakka mikið til.
Annars er ég líka á fullu í makaklúbbnum. Núna 23. júlí ætlum við að halda svakafjáröflun, verðum með gala dinner á Hótel Safari takk fyrir. En þetta krefst náttúrulega mikils undirbúnings og vinnu. Ég reyni að púsla dagana mína þannig að ekkert skarist. Því svo er ég líka í undirbúningsnefnd fyrir stofnun Soroptomistaklúbbs í Windhoek og þar þarf að funda reglulega :-) Svo er ég líka í skólastjórn eins skólans hér í borg, þar er reyndar ekki fundað eins stíft og í öðrum nefndum sem ég er í. En það verður kynningardagur daginn eftir gala dinnerinn þannig að það er eins gott að ég verði ekki lengi að skemmta mér það kvöldið :-) Það gengur ekki að vera þreytt að hitta foreldra í skólanum.
En sem sagt, þá hef ég bara nóg að gera og finnst það alveg meiri háttar.
Tinnan mín hefur verið á fullu að vinna fyrir mig undanfarna daga (afrita viðtölin). Það er varla að hún komist út úr húsi :-) En hún er nú að fara að heiman um helgina. Ein vinkona hennar er að halda upp á 18 ára afmælið sitt og hátíðarhöldin verða alla helgina hérna rétt fyrir utan borgina.
Rúnar er bara eins og alltaf. Kátur og hress. Hann bíður núna spenntur eftir að fá playmo dót. Hann hefur verið að safna Safari dýrum, og bíður núna eftir einum stórum pakka.
þriðjudagur, 11. maí 2010
Hitt og þetta í upphafi vetrar
Þá er ég búin að skila inn síðasta verkefninu mínu í síðasta háskólaáfanganum mínum - ever og get farið að einbeita mér að rannsókninni minni. Ég ætla að vera rosa dugleg og skila henni inn í byrjun ágúst n.k. Bjartsýnin ríður húsum hér í borg :-)
Dagmar lagði af stað til okkar á sunnudagskvöld en er ekki komin lengra en til London. Hún þurfti að taka rútu til Akureyrar og var komin þangað í morgunsárið á mánudag. En svo var fluginu hennar til London frestað í marga klukkutíma og ekki bara það heldur var flogið til Glasgow en ekki London. Þetta þýddi náttúrulega að allt tengiflug riðlaðist og hún ákvað að ferðast án ferðatösku svo taskan væri ekki ekki að tefja hana (að þurfa að sækja hana og tékka hana aftur inn í næsta flug). Villi eyddi gærdeginum í að púsla flug fyrir hana áfram og var í stöðugu sambandi við British Airways og Lufthansa en allt kom fyrir ekki og þegar Dagmar loksins lenti í London í gær þá fékk hún ekki að fara með öðru flugi - Lufthans vildi ekki breyta miðanum hennar. Varð hún því strandaglópur á Heathrow.
En það vill svo skemmtilega til :-) að hann Villi minn á voðalega góða vinkonu hérna í borginni sem starfar á ferðaskrifstofu og hún er að redda þessu öllu fyrir okkur. Hún fór m.a.s. á skrifstofuna sína í gærkveldi fyrir Villa til að reyna að fá annað flug fyrir Dagmar. En þetta virðist vera komið í lag núna og við vonum svo bara að frumburðurinn komist heim á morgun.
Það er heldur betur farið að kólna núna og greinilegt að veturinn er á næsta leyti, brrr. Nú þarf að finna ofna og koma þeim út um allt hús. En það er verst að hitinn helst eiginlega ekki inni í húsinu því það eru stórar rifur á milli allra glugga og hurða :-) Gaman að þessu.
sunnudagur, 2. maí 2010
Vídeókvöld fjölskyldunnar
Um helgar tökum við okkur til, fjölskyldan, og horfum saman á DVD. Við höfum þetta þannig að hvert okkar velur ca tvær myndir og svo er valið úr þeim. Í kvöld, varð úr að horfa á Jungle Book og sú mynd er alltaf jafn góð.
Svo setti ég Bó og Sinfónúhljómsveitina í og þá bara hurfu feðgarnir. Er núna komin á lag nr 12 og ekkert sést enn til feðganna. :-)
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)