Powered By Blogger

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Hormónarnir á fullu

Suma daga er Rúnar Atli á útopnu allan daginn og maður hræðist helst að hann kafni í testosterone. Í dag kom hann t.d. hlaupandi fram með þessu líka svaka argi og öskraði "King Kong is here" með tilheyrandi barsmíðum á bringuna og látum. Svo rauk hann inn í eldhús og fór að lyfta upp stólum með ekki minni látum. Þegar við Flora og Lidia vorum búnar að sjá hvað hann væri "rosalega sterkur" þá rauk hann inn í herbergi aftur.

Er þetta í lagi??? Er von að ég spyrji því dætur mínar voru svo rólegar og yfirvegaðar og það er hálfgert sjokk að fá svona orkubolta í lokin :-)

mánudagur, 11. ágúst 2008

Skoðun

Jæja þá er bíllinn minn búinn í eins árs skoðun og allt í fínasta lagi og fékk stimpil í service planið. Bíllinn átti að koma í þessa skoðun annað hvort eftir 12 mánuði eða eftir að vera keyrður 15 000 km, hvort sem kæmi fyrr. Þar sem sparibíllinn er aðeins keyrður 7.029 km þá mætti hann að sjálfsögðu í skoðun eftir 12 mánuði :-)

Jú jú, ég tók svona mesta draslið úr bílnum áður en ég fór með hann í morgun. Svo er voða þægilegt að reglulega þvær garðyrkjumaðurinn okkar bílinn. Sennilega gerir hann það þegar honum er farið að ofbjóða rykið á kagganum :-)

laugardagur, 9. ágúst 2008

Kraftur kvenna

Síðastliðna þrjá daga hef ég setið kvennaráðstefnu hér í Windhoek, Namibian Women Summit. Þetta er annað árið í röð sem þessi ráðstefna er haldin og er stefnt á að halda hana árlega. Þessi ráðstefna er haldin til að virkja kraft kvenna og hjálpa þeim að mynda vináttu- eða samstarfstengsl við aðrar konur. Konur alls staðar af landinu komu og hver sýsla átti sína fulltrúa, og skipti þá engu máli hve langt í burtu, og afskekkt, konurnar búa. Ráðstefnan í fyrra tókst svo vel að fjöldi ráðstefnugesta snarhækkaði þetta árið og komu miklu fleiri konur en skipuleggjendur áttu von á. Þær konur sem búa í rafmagns- og símaleysi gátu að sjálfsögðu ekki skráð sig til þátttöku fyrirfram og því kom fjöldinn á óvart. En það var bara gaman.

Ráðstefnan var sett á miðvukudagseftirmiðdaginn og var m.a. boðið upp á leikrit frá Suður Afríku um líf konu. Leikritið var rosalega gott og "powerful". Svo klukkan 7.30 á fimmtudagsmorgun var mætt í ráðstefnusalinn og var byrjað á sameiginlegum morgunmat. Eftir morgunmat voru fyrirlestrar og workshops. Um kvöldið var svo gala dinner og það var meiri háttar gaman.

Á föstudagsmorgun var aftur mætt kl. 7.30 í morgunmat. Á meðan við vorum að borða kom söngkona og ætlaði að syngja eitt lag. En fljótlega eftir að hún byrjar að syngja þá stendur ein kona upp og fer að dansa með tónlistinni. Áður en maður vissi af voru fullt af afrískum konum í traditional kjólum farnar að dansa sína dansa. Við hinar sátum og klöppuðum. Þetta var meiri háttar. Svo lýkur laginu en þá var farið fram á annað lag og söngkonan átti nú ekki í erfiðleikum með það og hóf að syngja annað lag. Þá skipti engum togum að við hinar vorum dregnar út á gólfið og allar konur í salnum (sjálfsagt vel á þriðja hundrað) vorum farnar að dansa saman. Þetta var stórkostlegt, ég vildi að ég hefði haft myndavél en reynið að sjá þetta fyrir ykkur. Konur á öllum aldri, sú yngsta sjálfsagt um tvítugt og sú elsta ekki undir 70, flestar í fallegum litsterkum kjólum með höfuðfat í stíl, að dansa saman á milli borðanna og syngja með. Enda var þetta svo skemmtilegt að söngkonan endaði með að syngja þrjú lög í stað eins eins og til stóð í upphafi.

Vel að merkja þá var þetta klukkan um 8.30 að morgni þegar fjörið var sem mest. Getið þið ímyndað ykkur að hefðbundnar ráðstefnur hefjist svona?? :-) Sjáið þið karlana fyrir ykkur dansandi á milli matarborðanna og klappandi og veifandi höndum??? :-)

mánudagur, 14. júlí 2008

Vetur konungur

Það hefur verið svo kalt undanfarnar vikur að það hálfa væri nóg og þar sem ekkert hitakerfi er í húsinu þá verður maður að notast við arininn til að orna sér aðeins. Annars sit ég bara með sultardropa í nefinu og loppnar hendur að reyna að sauma. Þið getið nú rétt ímyndað ykkur hve erfitt það er.

Undanfarið hefur Villi farið fram um 5.30 á morgnana til að kveikja upp og svo hef ég haldið eldinum við allan daginn.

Við höfum líka litla rafmagnsofna í hverju herbergi en þeir segja nú svo sem ekki mikið og þegar eldað er á kvöldin þá þarf að slökkva á ofnunum annars slær rafmagnið út. Þannig að það er heilmikið púsl að hita húsið; þ.e. byrja á því að kveikja upp í arninum; þegar líður á daginn kveiki ég á ofnunum í herbergjunum til að fá smá hita áður en ég fer að elda; slekk svo á öllum ofnum þegar ég byrja að elda; strax eftir matinn kveiki ég aftur og vona að það verði þokkalegur ylur þegar við förum að sofa. Gaman að þessu :-)

Sólin nær ekki að skína inn í húsið og hita það og sum kvöldin hefur verið svo kalt í húsinu að það hefur verið erfitt að koma sér upp í rúm, sérstaklega þegar við komum heim úr ferðunum okkar því þá hafði ekkert verið kveik upp í nokkra daga. Ég man eftir einu kvöldi þar sem ég varð fyrst að vefja mig inn í flísteppi áður en ég lagðist undir sæng, brrr. Mér verður bara kalt við tilhugsunina. Samkvæmt hitamælinum þá fór hitinn stundum niður í um 3 gráður yfir hánóttina og hitinn hélst í ca 7 stigum innan húss.

Það var svo kalt að vatnið fraus í vatnsleiðslum víða í Windhoek. Sem betur fer fraus það nú ekki hjá okkur en það hefur verið nær óbærilegt að þvo sér um hendurnar því vatnið er svo kalt og það virðist bara verða kaldara því lengur sem ég læt það renna (jú jú ég skrúfa frá réttum krana, þ.e. þeim heita). En það er greinilega farið að hlýna aðeins og ég held að vorið sé að vinna á vetrinum. Í gær kveiktum við t.d. ekki upp fyrr en langt var liðið á daginn og nú er bara að vona að veturinn sé að kveðja.

39 dagar!!!!!!!!

Var að telja hve langt er síðan ég bloggaði síðast og ég get ekki betur séð en að það séu komnir 39 dagar síðan síðast. Það er svo margt búið að gerast á þessum tíma að það er erfitt að koma sér að því að blogga um þá, og því lengra sem líður því erfiðara verður það :-)

Íslandsferðin var mjög góð en það var samt gott að komast heim aftur. Daginn eftir að við Dagmar lentum í Windhoek komu Doddi og Emil sonur hans. Þeir voru hér í tæpar þrjár vikur og við ferðuðumst töluvert á meðan. Við fórum til Etosha sem er þjóðgarður fyrir norðan og sú ferð var meiri háttar. Við keyrðum um garðinn um leið og við komum þangað og sáum nú slatta af dýrum. En seinni partinn og kvöldið sátum við bara við vatnsbólið sem er hjá húsunum þar sem gist er. Það var alveg stórkostlegt að sitja þar. Það voru svo margir fílar við bólið og taldist okkur til að það hafi verið um 77 fílar í tveimur stórum hópum. Þetta var meiri háttar. Morguninn eftir keyrðum við lítinn hring í garðinum á leiðinni út og þar sáum við á bilinu 20 og 30 gíraffa á rölti við veginn. Stórkostlegt. Svo voru náttúrulega fullt af sebrahestum og alls kyns antilópum. En þar sem fílar og gíraffar eru uppáhaldsdýrin mín þá var þessi heimsókn til Etosha alveg ógleymanleg.

Frá Etosha lá leiðin til Opuwo sem er í norð-vestur hluta landsins. Þar gistum við á frábæru hóteli með stórkostlegu útsýni. Við heimsóttum að sjálfsögðu Himbana og það er alltaf jafn forvitnilegt og gaman að hitta þá. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt í hverri heimsókn.

Við komum til Opuwo á föstudegi og vorum þar í aflsöppun fram á sunnudagsmorgun þegar lagt var af stað heim. Ferðin heim tekur um 8 klukkutíma og það er alveg merkilegt hvað Rúnar Atli er rólegur í bíl á svona langferðum.

Svo var að sjálfsögðu farið til Swakopmund og á fjórhjól. Mér finnst ferlega gaman að vera á fjórhjóli í eyðimörkinni en ég velti því nú fyrir mér hvort ég fái aldrei leið á því. Ég veit ekki hvað ég er búin að fara oft á fjórhjól og það er alltaf jafn gaman.

Ég, Dagmar, Doddi og Emil fórum svo til Omaruru og gistum þar í eina nótt. Það er frábær staður. Ætli það sé ekki tæplega þriggja tíma keyrsla þangað frá Windhoek. Þetta er svo yndislegur staður, vatnsbólið er alveg við húsin sem gist er í og dýrin koma alveg að veitingastaðnum. Emil var í því að klappa nashyrningum, strútum og kúdu og gefa dýrunum að borða. Svo fórum við í gamedrive og kíktum á flóðhesta.

Svo var þetta frí náttúrulega búið áður en maður náði að snúa sér við og allir farnir heim aftur og það varð hálftómlegt í kofanum satt að segja.

Það er verst að allar myndirnar sem við tókum á ferðalaginu eru á hinni tölvunni og ég þarf eiginlega að sækja nokkrar til að velja úr og setja á bloggið mitt.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Símtöl

Eins og ég hef áður sagt frá þá hringir Rúnar Atli reglulega í mömmu sína og suma daga hringir hann nokkrum sinnum. Þessi símtöl eru alltaf mjög stutt en skemmtileg. Um leið og ég svara símanum þá heyrist alltaf í honum "hæ mamma", undantekningarlaust.

Rétt áðan hringdi svo síminn sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað að ég heyri að þetta eru útlönd sem eru að hringja og ég svara náttúrulega "halló" og bíð eftir að heyra "hæ mamma". En í stað þess heyrist "er þetta mamma?" jú jú ég hélt það nú. Heyrðu, það næsta sem ég heyri eru þvílíkur grátur að það var ekki nokkur leið að tala við hann. Þá kom í ljós að hann ætlaði sko að hringja í systur sína og óska henni til hamingju með afmælið. Mamma hans átti sko ekki að svara símanum. Það varð að skella á og leyfa honum aðeins að jafna sig svo hringdi hann aftur og þá sá ég til þess að rétta manneskjan svaraði í símann :-)

Gaman að þessu.

sunnudagur, 1. júní 2008

Háspenna

Handboltaleikurinn í dag á milli Íslands og Svíþjóðar var geggjaður. Það var alveg á mörkunum að ég gæti horft og þegar spennan var alveg að drepa mig fór ég fram og tók úr uppþvottavélinni og gekk frá í eldhúsinu.

Ég held ég hafi aldrei horft á svona góðan handboltaleik hjá íslenska liðinu, alla vega ekki lengi. Það var alveg sérstaklega yndislegt að vinna þennan leik á móti Svíum. Nú er vonandi búið að endanlega jarða Svíagrýluna.

Doddi bloggaði um það að í kjölfar leiksins hefði sænski þjálfarinn verið rekinn. Ég meina kommon, hvað geta menn verið tapsárir. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá las ég á mbl.is að Svíar ætli að kæra leikinn og heimta að fá að spila hann aftur. Það er bara ekki í lagi með Svíana hvað þetta varðar. Þeir ættu nú að vera orðnir vanir að tapa fyrir Íslendingum. Við unnum þá í umspili um sæti fyrir síðustu heimsmeistarakeppni (ef ég man rétt).

Ég veit satt að segja ekki hvort er betra; að vinna Svíana eða að komast á ÓL :-)